Enginn fannst í vélinni Zürich. Frá Önnu Bjarnadóttur, fréttaritara Morgunblaðsins. CESSNA 425 vélin sem sökk í Bodensee í Sviss fyrir rúmum hálfum mánuði var dregin upp úr stöðuvatninu um helgina og flutt til Friedrichshafen í Þýskalandi.

Enginn fannst í vélinni Zürich. Frá Önnu Bjarnadóttur, fréttaritara Morgunblaðsins.

CESSNA 425 vélin sem sökk í Bodensee í Sviss fyrir rúmum hálfum mánuði var dregin upp úr stöðuvatninu um helgina og flutt til Friedrichshafen í Þýskalandi. Vélin var mannlaus en klæðnaður fannst í henni. Talið er víst að tveir Þjóðverjar og tvær tékkneskar konur hafi verið um borð ásamt flugmanninum þegar vélin fórst.

Þýska lögreglan hefur nú rannsakað vélina og fullyrðir að henni hafi verið nauðlent á vatninu. Flugmaðurinn lét þó ekki vita að eitthvað væri að áður en hann brotlenti vélinni í þoku hinn 24. janúar.

Þjóðverjarnir, sem voru með vélina á leigu, hafa stundað ólögleg viðskipti og óttast var að geislavirkt efni kynni að vera um borð þegar hún fórst. Svo reyndist þó ekki vera. Ekki er vitað hvað varð um farþegana og flugmanninn. Fólkið hafði um fimm minútur til að komast út úr vélinni að sögn lögreglunnar. Eigandi vélarinnar segir að engin björgunarvesti hafi verið í henni. Það þykir óliklegt að fólkið hafi getað synt til lands í 5 gráðu köldu vatninu. Ekki sást til neinna báta í kringum slysstaðinn eftir slysið.