Unglingar með skírlífisheit New York. The Daily Telegraph. ALLT að 100.000 bandarískir unglingar hafa undirritað kort með loforði um að vera skírlífir þar til þeir gifta sig.

Unglingar með skírlífisheit New York. The Daily Telegraph.

ALLT að 100.000 bandarískir unglingar hafa undirritað kort með loforði um að vera skírlífir þar til þeir gifta sig.

Baptistar í suðurríkjum Bandaríkjanna áttu hugmyndina að kortunum og hópur unglinga kynnti þau í sjónvarpi í tengslum við flokksþing repúblikana í Houston fyrir 18 mánuðum. Um ári síðar höfðu tugþúsundir manna undirritað kortin og síðan hefur kaþólska kirkjan gengið til liðs við baptistana.

Unglingarnir eru flestir úr kirkjuræknum fjölskyldum sem kjósa repúblikanaflokkinn. Þeir undirrita kort með fyrirsögninni "Hin sanna ást bíður" og setningunni: "Þar sem ég trúi því að hin sanna ást bíði lofa ég Guði og sjálfum/sjálfri mér, fjölskyldu minni og félögum, framtíðarmaka mínum og börnum, að vera hreinlíf(ur) þar til ég geng í hjónaband."

Samkvæmt nýrri viðhorfskönnun hafa 20% Bandaríkjamanna haft kynmök undir 14 ára aldri. 23% kvenna og 14% karla sögðust ekki hafa haft kynmök undir tvítugu.