Vinir Stephens Milligans harma niðurlægjandi dauða hans Ekki talið að hann hafi verið myrtur Líklega um slys að ræða við afbrigðilega kynlífsathöfn London. The Daily Telegraph.

Vinir Stephens Milligans harma niðurlægjandi dauða hans Ekki talið að hann hafi verið myrtur Líklega um slys að ræða við afbrigðilega kynlífsathöfn London. The Daily Telegraph.

LÖGREGLAN í London telur, að breski þingmaðurinn Stephen Milligan hafi verið einn í íbúð sinni þegar hann lést og hann hafi ekki verið myrtur. Er helst hallast að því, að hann hafi með afbrigðilegum hætti verið að leita eftir kynferðislegri fullnægingu, sem hafi meðal annars falist í eins konar sjálfkyrkingu og hugsanlega inntöku örvandi lyfja.

Komið var að Milligan látnum á heimili sínu í Hammersmith í Vestur-London á mánudag og var hann nakinn að öðru leyti en því, að hann var í kvenmannssokkum og með plastpoka yfir höfðinu. Um háls hans var rafmagnssnúra, sem bundin hafði verið í snöru, og í munni hans fannst appelsínubiti. Talið var hugsanlegt, að hann hefði haft að geyma örvandi lyf, sem ekki er ólöglegt en er stundum notað af samkynhneigðum karlmönnum til að auka á kynnautnina. Samkvæmt fréttum Sky-sjónvarpsins bentu fyrstu rannsóknir þó ekki til, að um lyfjanotkun hafi verið að ræða en það var ekki fullkannað. Nautnina er þar að auki unnt að skerpa með því minnka súrefnisflæði til heilans, annaðhvort með því að þrengja að hálsinum með snöru eða setja poka yfir höfuð sér og jafnvel með hvoru tveggja samtímis.

Fullnaðarrannsókn á dauða Milligans var ekki lokið í gær en hugsanlegt var talið, að banameinið hefði verið kyrking, köfnun eða hjartabilun af völdum súrefnisskorts og lyfjanna.

Nýtt Profumo-mál?

Dauði Stephens Milligans og það, sem komið hefur í ljós um kringumstæðurnar, er mikið áfall fyrir breska Íhaldsflokkinn og óttast margir, að framtíð Johns Majors og ríkisstjórnarinnar sé í hættu vegna þess og hneykslismálanna að undanförnu. Stjórnarandstaðan hefur að vísu ekki reynt að notfæra sér Milligan-málið í pólitísku skyni en haft er eftir ýmsum, að það sé eins og allur vindur sé úr Íhaldsflokknum. Þykir ástandið nú minna mjög á Profumo-kynlífshneykslið 1963 en það átti þátt í að þáverandi ríkisstjórn Íhaldsflokksins fór frá ári síðar. Major sjálfur reynir hins vegar að bera sig vel og í gær vísaði hann á bug sem "tómu þvaðri" vangaveltum um, að staða hans sem leiðtoga flokksins og forsætisráðherra væri í hættu.

Ömurleg endalok

Dauði Milligans er ekki aðeins áfall fyrir Íhaldsflokkinn, heldur ekki síður fyrir vini hans og kunningja. Milligan var maður mjög vel gefinn og hæfileikaríkur, fágaður í framkomu og einstaklega hjartahlýr. Vinir hans segja, að hafi einhver ekki átt það skilið að deyja með svona niðurlægjandi hætti, þá hafi það verið Stephen Milligan.

Ekki er ljóst hvort Milligan var samkynhneigður en svo virðist sem hann hafi átt í einhverjum erfiðleikum í samskiptum sínum við hitt kynið. Þegar hann stóð í kosningabaráttunni í Eastleigh var hann í tygjum við blaðakonu og héldu margir, að þar væri á ferðinni væntanleg þingmannsfrú. Kosningarnar voru þó ekki fyrr afstaðnar en Milligan sleit sambandinu og grunar hana, að hún hafi ekki haft annað hlutverk en auka líkur á kjöri hans.

Tvisvar sinnum var komið að því, að Milligan gengi í hjónaband en í bæði skiptin snerist honum hugur. Í seinna skiptið aðeins fáum dögum fyrir brúðkaupið og eftir að búið var að kaupa brúðarkjólinn og bjóða til veislunnar. Sagt er, að hann hafi tekið þá ákvörðun mjög nærri sér.

Ólíkar náttúrur Milligans

Stephen Milligan var 45 ára að aldri, fæddur inn í efri millistéttina og lagði stund á stjórnmál, heimspeki og hagfræði við Oxford-háskóla. Þótti hann bera af öðrum á skólaárunum fyrir gáfur og mælsku og það virtist alltaf ljóst, að hann stefndi að þingmennsku fyrir Íhaldsflokkinn. Hann hafði áhuga á fuglaskoðun, golfi, skíðaiðkun og gönguferðum og honum þótti gaman að bjóða til sín fólki. Var hann þá jafnan hrókur alls fagnaðar.

Vinir Milligans segja, að þetta hafi þó aðeins verið önnur hliðin á honum. Hin, sem kannski var ríkari, vissi að einfaranum Milligan. Manni, sem naut þess að vera einn með sjálfum sér og augljóslega án þess að leiðast.