Dýralæknar gefa Litháum PC-tölvu DÝRALÆKNAFÉLAG Íslands gaf nýverið dýralækningafélaginu í Litháen fullkomna PC-tölvu ásamt prentara, hugbúnaði og birgðum af pappír. Gunnar Þorkelsson, héraðsdýralæknir á Kirkjubæjarklaustri, afhenti tölvuna í Litháen 1.

Dýralæknar gefa Litháum PC-tölvu

DÝRALÆKNAFÉLAG Íslands gaf nýverið dýralækningafélaginu í Litháen fullkomna PC-tölvu ásamt prentara, hugbúnaði og birgðum af pappír. Gunnar Þorkelsson, héraðsdýralæknir á Kirkjubæjarklaustri, afhenti tölvuna í Litháen 1. febrúar sl. Gunnar dvaldi í Kaunas í Litháen í viku við uppsetningu tölvunnar og kennslu í notkun hennar.

Markmið DÍ með þessari gjöf var að dýralæknafélagið í Litháen gæti tvölvuvætt félagaskrá sína og auðveldað sambandið við meðlimi með dreifibréfum. Við þetta verkefni naut DÍ stuðnings utanríkisráðuneytis og menntamálaráðuneytis. Allur búnaður og pappír var keyptur af íslenkum aðilum. Búnaðurinn mun án efa einnig gagnast Dýralæknaháskólanum í Kaunas við vísindaleg verkefni, en skrifstofa dýralæknafélagsins er staðsett í skólanum, segir í frétt frá DÍ.

Dýralæknafélagið í Litháen er aðeins 3ja ára gamalt. Meðan landið var eitt af Sovétlýðveldunum gátu dýralæknar ekki haft með sér félagsskap. Dýralæknafélög í Eystrasaltslöndunum hafa eftir frelsunina verið í nánum tengslum við dýralæknafélög á Norðurlöndum og margs konar samskipti verið á milli félaganna, t.d. þátttaka í reglulegum formannafundum félaganna. Formaður dýralæknafélagsins í Litháen er Vygandas Paulikas.