Steinsteypudagurinn er á morgun STEINSTEYPUFÉLAG Íslands ætlar að beita sér fyrir umræðum um nýjungar á steinsteypudegi 1994 sem haldinn verður á Holiday Inn í Reykjavík föstudaginn 11. febrúar.

Steinsteypudagurinn er á morgun

STEINSTEYPUFÉLAG Íslands ætlar að beita sér fyrir umræðum um nýjungar á steinsteypudegi 1994 sem haldinn verður á Holiday Inn í Reykjavík föstudaginn 11. febrúar.

Spurningum verður varpað fram eins og: Hvaða nýjungar ræða menn helst í húsagerð hérlendis? Er íslensk hástyrkleikasteypa líkleg til að valda byltingu í vegagerð hérlendis? Kosta sprunguviðgerðir í framtíðinni aðeins brot af því sem þær kosta nú? Er markaður fyrir íslensk byggingafyrirtæki og íslenska fagmenn í fyrrum A-Þýskalandi? Hvað getum við lært í brúarsmíði og jarðgangagerð af framkvæmdum við Stórabeltisbrúna í Danmörku? Einnig verður reynt að svara fjölmörgum öðrum á hinum árlega steinsteypudegi.

Það er Steinsteypufélag Íslands sem gengst fyrir þessum degi og fær marga vísinda- og tæknimenn til að flytja fyrirlestra um hvað hæst ber í notkun steinsteypu, sem við Íslendingar notum hlutfallslega meira en flestar aðrar þjóðir til byggingar. Hafa þessir dagar ávallt verið mjög vel sóttir og er þegar ljóst að svo verður enn. Alls verða 12 fyrirlestrar fluttir.