Vel miðar í orgelsöfnun Langholtskirkju SÖFNUNARÁTAK vegna orgelkaupa í Langholtskirkju hefur nú staðið fyrir í rúmt ár. Fjáröflunarnefndin setti sér það mark að safna fyrir orgelinu á fjórum árum og eftir fyrsta árið er ljóst að það mun ganga eftir.

Vel miðar í orgelsöfnun Langholtskirkju

SÖFNUNARÁTAK vegna orgelkaupa í Langholtskirkju hefur nú staðið fyrir í rúmt ár. Fjáröflunarnefndin setti sér það mark að safna fyrir orgelinu á fjórum árum og eftir fyrsta árið er ljóst að það mun ganga eftir.

Um áramótin voru í sjóði u.þ.b. níu milljónir sem lætur nærri að vera þriðji partur áætlaðs verðs. Söfnunarféð kemur fyrst og fremst frá föstum styrktaraðilum sem greiða ákveðna upphæð á mánuði, flestir 500 krónur. Auk þess hefur hljómdiskurinn, Það var lagið, sem gefinn var út haustið 1992 með Kór Langholtskirkju, einsöngvurum og Kammersveit Langholtskirkju skilað umtalsverðum hagnaði. Margar minningargjafir hafa borist en það færist mjög í vöxt að aðstandendur bendi á orgelsjóð Langholtskirkju er ástvinir eru bornir til grafar.

Sl. haust fór fram átak til að safna nýjum styrktaraðilum. Flugleiðir gáfu farmiða fyrir tvo til Kaupmannahafnar í verðlaun til eins styrktaraðila sem kæmi með nýjan aðila. Fyrir nokkru var svo dregið úr nöfnum þeirra sem tóku þátt í söfnuninni og komu verðlaunin í hlut Þorsteinu G. Sigurðardóttur, Ljósheimum 11.

Við afhendingu farmiðanna til Kaupmannahafnar: Jón Stefánsson, organisti, Þorsteina G. Sigurðardóttir og Sigurbjörg Hjörleifsdóttir, starfsmaður orgelsjóðs.