Villi og vinir hans Kvikmyndir Sæbjörn Valdimarsson Saga bíó: Frelsum Villa - Free Willy Leikstjóri Simon Wincer. Aðalleikendur Jason James Richter, Lori Petty, Michael Madsen, August Schellenberg. Bandarísk. Warner Bros 1991.

Villi og vinir hans Kvikmyndir Sæbjörn Valdimarsson Saga bíó: Frelsum Villa - Free Willy Leikstjóri Simon Wincer. Aðalleikendur Jason James Richter, Lori Petty, Michael Madsen, August Schellenberg. Bandarísk. Warner Bros 1991.

Jason Richter leikur munaðarlausan ungling sem er á útigangi í borg á vesturströnd Bandaríkjanna. Lögreglan og barnaverndarnefnd jafnan á hælum hans og félaganna á flækingnum og í myndarbyrjun veldur hann skemmdum á sædýrasafni. Yfirvöldin góma Richter og koma honum í fóstur hjá bifvélavirkjanum Michael Madsen og konu hans, jafnframt er hann látinn svara til saka fyrir skrílslætin í safninu með því að verka eftir sig sóðaskapinn.

Í sædýrasfninu eignast þessi umkomulausi drengur óvæntan vin, sem er háhyrningurinn Villi, og líkt og hann er afar ósáttur við hlutskipti sitt og tekur illa tamningu. En hann laðast að Richter sem fær hann til að gera allskyns kúnstir - þegar þeir eru tveir saman. Eigendurnir græða ekki á geðstirðum hval svo Richter og vinir hans grípa til sinnar ráða er þeir komast að óprúttnum bollaleggingum þeirra.

Sykursæt blanda af fögrum boðskap, gæðablóðum og mannvonsku. Sett saman af mannskap sem sér heiminn í einhverjum óskalitum sem eru hvað helst sýnilegir inná palesandersrifstofum á persneskum teppum. Engu að síður á hún erindi til barna og unglinga og sýnir ágætlega þá þörf sem þessir aldurshópar hafa af kynnum og náinni umgengni við dýrin. Hún er bærilega leikin af Richter (sem vitaskuld verður glæsilegasta ungmenni vesturstrandarinnar eftir að hafa skolað af sér vergangsskítinn), en þeir Madsen og einkum Schellenberg - í hlutverki starfsmanns við safnið af indjánaættum - ná einir að hitta á rétta tóninn.

Það sem skortir helst er raunsæi, útkoman dagur í Disneylandi. Hinn íslenskættaði Villi stendur sig með ágætum, en væri örugglega betur kominn norður í Dumbshafi. Jafnvel þó hann ætti í einhverjum erjum við íslenska loðnusjómenn. Frelsum Villa er yfirhöfuð heldur léttvæg fundin og skilur sáralítið eftir sig annað en tignarlegar hreyfingar háhyrningsins og vitsmunaleg samskipti manns og hvals.