Jón Ólafsson Myndlist Eiríkur Þorláksson Myndlistin er ekki og hefur aldrei verið einkamál einhvers útvalins hóps, þó oft megi ætla svo af fræðilegum umræðum um hana, sem allur almenningur hefur lítinn möguleika til að taka þátt í.

Jón Ólafsson Myndlist Eiríkur Þorláksson Myndlistin er ekki og hefur aldrei verið einkamál einhvers útvalins hóps, þó oft megi ætla svo af fræðilegum umræðum um hana, sem allur almenningur hefur lítinn möguleika til að taka þátt í. Það vill nefnilega oft gleymast, að listrænt starf og kynni af listinni býður á hverjum tíma stórum hópi fólks upp á hugsvölun og lífsfyllingu, sem ekki markast af fyrirframgefnum hugtökum, skýringum eða skilgreiningum, heldur af óvæntri ánægju einni saman. Þetta á væntanlega við þorra almennings og einnig mestan hluta þeirra sem sinna listinni sem áhugamáli í frístundum.

Stöku sinnum býðst tækifæri til að kynnast að nokkru þeirri list, sem slíkt áhugafólk er að fást við, og nú stendur yfir í Ásmundarsal við Freyjugötu myndlistarsýning Jóns Ólafssonar, en hann sýnir hér um þrjátíu myndir unnar með vatnslitum og akrýl. Jón er á miðjum sjötugsaldri og hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina, en fékk ungur áhuga á myndlist og hefur sinnt henni að nokkru alla tíð. Hann hélt síðast sýningu á verkum sínum á sama stað fyrir rúmum tveimur áratugum.

Að þessu sinni sýnir Jón bæði landslagsverk og persónumyndir, sem bera oft með sér vissa næmni fyrir myndefninu og litum, þó verktæknin sé jafnan í grófara lagi. Í nokkrum vatnslitamyndanna kemur fram mikil mýkt í meðferð litanna, og má í því sambandi nefna "Bát í Vatnsfirði" (nr. 3), þar sem mjólkurhvítt haf og himinn renna saman í eitt, og "Morgunn" (nr. 11), sem verður nær óhlutbundið í hinum mildu litbrigðum.

Persónumyndirnar draga þó fljótlega að sér athyglina. Þetta eru að mestu staðlaðir, harðir hausar, þar sem þreytuleg og dauf andlitin bera með sér sorgina og einstæðingsskapinn sem Jón er gjarna að fást við; þetta kemur einkar vel fram í verkum eins og "Svart kaffi að loknu erfiði" (nr. 20). Þessar hrjúfu myndir eru sterkasti hluti sýningarinnar, og við hlið þeirra verða fínlegri drættir nær kómískir.

Jón Ólafsson sýnir í sjálfsmynd sinni og mynd af Hermanni pressara að hann kann þokkalega til verka við mótun í myndfletinum, en er þó sterkastur í þeim verkum, sem helst væri hægt að kenna við nævisma í myndlist. Þannig er hér um ákveðið val að ræða hvað varðar myndgerð og niðurstaðan hentar myndefnum Jóns ágætlega, líkt og segja má um verk fjölda þeirra sem kenndir hafa verið við nævisma almennt.

Sýning Jóns Ólafssonar í Ásmundarsal stendur til mánudagsins 14. febrúar.

Samsýning í Portinu

Sýningarsalurinn Portið við Strandgötu í Hafnarfirði hefur smám saman verið að vinna sér fastan sess í myndlistarlífinu á undanförnum misserum, og má vænta þess að starfsemi hans eigi eftir að haldast í góðu horfi um langa tíð; rekstrarformið er einfalt og nábýlið við Myndlistaskólann í Hafnarfirði sem er á efri hæðum sama húss, hentar báðum ágætlega.

Þetta kemur vel fram nú, en þessa dagana stendur yfir samsýning í Portinu, þar sem getur að líta verk fimm ólíkra listamanna sem þó eiga það sameiginlega að starfa allir sem kennarar við Myndlistaskólann á efri hæðinni. Þetta eru þau Ingibjörg Styrgerður Haraldsdóttir, Ingimar Ólafsson Waage, Jean Antoine Posocco, Júlía Kristmundsdóttir og Rósa Gísladóttir. Þau Júlía og Ingimar eru yngst, aðeins nýkomin frá listnámi, en hin eru öllu reyndari og eiga hvert nokkurn sýningaferil að baki.

Verk Rósu Gísladóttur eru dreifð um alla salina, og fer vel á því, þar sem hún hefur unnið þau í ólík efni og einnig beint sjónum sínum að ólíkum formum. Mesta athygli vekja verk sem minna á skopparakringlur og þær andstæður sem þau bjóða upp á; stálverkin eru opin og um leið hvöss og hættuleg, en gifsverkin eru öllu mýkri og virka leikandi létt, um leið og þau bera í nafni sínu ákveðin andheiti ("Litríkir hvítir hlutir").

Jean Antoine Posocco sýnir litlar vatnslitamyndir, að mestu hefðbundnar ferðastemmur frá þekktum stöðum; hann kann greinilega vel til verka í vatnslitatækninni, en viðfangsefnin eru lítt spennandi. Þó bregður öðru við í tveimur stærri myndum, þar sem hin andlega sýn kemur til skjalanna; "Upp, upp mín sál" (nr. 36) er skemmtilega unnið verk, sem sýnir að hið trúarlega í myndlistinni þarf ekki að vera bundið við framandlegt umhverfi.

Júlía Kristmundsdóttir málar dökkt og í stærsta verki sínu er hún að athuga dýpt og flatneskju með einföldum hætti. Myndir hennar af kerjum eru áhugaverðari, einkum vegna þess á hvern hátt hún gefur nýstárlegum hlutum yfirbragð elli og verðunar með sprungnu yfirborði flatarins.

Ingimar Ólafsson Waage virðist einkum vera að fást við klisjur listasögunnar og athuga á hvern hátt má vinna með þær í nútímanum. Nokkrar myndir af pípu (ættaðri frá René Magritte) eru af þessu tagi, sem og skornir myndfletir í öðrum verkum. Listasagan er í sjálfu sér fróðlegt viðfangsefni, en sé hún ráðandi afl í listsköpun verður listin aðeins endurómur, en ekki sjálfstæð rödd.

Ingibjörg Styrgerður Haraldsdóttir á að baki lengstan feril í myndlistinni af þeim sem hér sýna, og er þekktust fyrir verk sín á sviði veflistar. Hér sýnir hún eitt slíkt, en auk þess nokkrar myndir unnar með þurrpastel og blýi. Hún leitar fanga í náttúrunni, en vinnur úr myndefnum sínum á afar nauman geometrískan hátt, þar sem blái liturinn og grámi blýsins ráða mestu. Með ákveðnum tilbrigðum má finna samsvörun við þessa sýn á landið í verkum Guðrúnar Kristjánsdóttur eða jafnvel fossamyndum Guðbjargar Lindar Jónsdóttur. En hér verður óregluleg lögun myndanna síðan til að auka tilfinningu fyrir hreyfanleik landsins og náttúrunnar, þannig að í þeim togast á kyrrð landsins og hreyfing flatarins. Þetta eru áhugaverð efnistök og verður athuglisvert að fylgja þeim eftir í vefnaði listakonunnar í framtíðinni.

Á þessari sýningu hafa allir salir staðarins verið samtengdir, þannig að opið er beint á milli þeirra. Þetta kemur vel út, skapar vissa heildarmynd fyrir rýmið og gefur gestum tækifæri til að skoða einstök verk í betra samhengi við annað sem er verið að sýna hverju sinni; engu að síður er aðgreiningin slík, að eftir sem áður er auðvelt að halda tvær eða þrjár sjálfstæðar sýningar í sölunum á saman tíma.

Samsýningunni í Portinu við Strandgötu í Hafnarfirði lýkur sunnudaginn 13. febrúar.

Jón Ólafsson.

Eitt verka Jóns Ólafssonar.