Aukning í útlánum bóka ÞÓRDÍS Þorvaldsdóttir borgarbókavörður segir að útlánum hafi fjölgað um 10% milli áranna 1992 og 1993. Þá þurfi að leita allt til ársins 1987 til að fá sambærilega útlánstölu og fyrir nýliðinn janúar.

Aukning í útlánum bóka

ÞÓRDÍS Þorvaldsdóttir borgarbókavörður segir að útlánum hafi fjölgað um 10% milli áranna 1992 og 1993. Þá þurfi að leita allt til ársins 1987 til að fá sambærilega útlánstölu og fyrir nýliðinn janúar.

"Það er eðli safna að mest er að gera yfir vetrarmánuðina eða frá september og fram í maí," sagði Þórdís. "Þá er mjög mikið lánað út. Starfsfólkið hefur merkt að meira er um útlán auk þess sem meira er leitað eftir upplýsingum miðað við síðustu ár."

Sagði hún hugsanlegt að fólk væri að verða leitt á mydböndum en einnig væru fleiri á ferðinni í atvinnuleysinu og gæfu sér þá tíma til að koma í safnið. Það væri reynslan erlendis þar sem ríkir atvinnuleysi.

"Mér sýnist við verða að fara allt til ársins 1987 til að fá sambærilega útlánstölu í janúarmánuði," sagði Þórdís. Í nýliðnum mánuði voru lánaðar samtals 75.200 einingar í safninu þar af er ritað mál 71.000 einingar. Allt árið 1993 voru lánaðar nær 760.000 einingar að meðtöldum plötum og myndböndum en lesefni var 744.000 einingar.

Sagði Þórdís að fram til ársins 1987 hafi árlega útlán verið frá 800.000 einingum upp í eeina milljón. "Þetta var áður en Stöð 2 kom til sögunnar," sagði hún. "Breytingarnar urðu miklar þegar hún kom til árið 1986. Með henni kom mikið af léttum kvikmyndum og efni sem fólk las um áður en ég held því fram að lestur sé farinn að aukast á ný og fólk er farið að koma aftur í söfnin."