Bilanir í togurum raktar til lélegra varahluta TALIÐ er að nokkur dæmi séu um að bilanir í togurum hér við land megi rekja til varahluta sem ekki hafi staðist kröfur framleiðenda eða flokkunarfélaga.

Bilanir í togurum raktar til lélegra varahluta

TALIÐ er að nokkur dæmi séu um að bilanir í togurum hér við land megi rekja til varahluta sem ekki hafi staðist kröfur framleiðenda eða flokkunarfélaga. Guðfinnur Johnsen, tæknifræðingur hjá LÍÚ, segir að nokkur dæmi séu um það að útgerðir hafi orðið fyrir tjóni sem talið sé að megi rekja, a.m.k. að hluta, til þessa.

Fjölmörg fyrirtæki í landinu selja varahluti í vélar og búnað fyrir fiskiskip og eru þar á meðal hlutir af hinum svonefnda gráa markaði, þ.e.a.s sem ekki eru framleiddir á vegum framleiðenda eða seldir í gegnum umboðsmenn þeirra og njóta ekki niðurkenningar framleiðendanna eða flokkunarfélaga sem taka út gæði hluta af þessu tagi.

Að sögn Guðfinns Johnsens er oft erfitt að fullyrða fyrirfram um gæði varahlutar sem ekki nýtur slíkrar viðurkenningar því þar getur jafnvel verið um að ræða hlut sem framleiddur er af undirverktaka vélarframleiðandans og er ekki frábrugðinn þeim sem viðurkenndur er að öðru leyti en því að umbúðir eftirlíkingarinnar eru ekki með auðkenni framleiðandans.

Á hinn bóginn séu til dæmi þess að í ljós komi að varahlutir standist engar kröfur og því hafi menn ekki sparnað af því að kaupa þá eins og ætlunin hafi verið heldur aukinn kostnað. Guðfinnur sagði að margar úterðir litu til þess að kaupa varahluti sem ódýrast en sagði að þegar um væri að ræða hluti eins og legur eða stimpilhringi í vél gæti sá sparnaður orðið mönnum dýr þegar upp er staðið því standist þeir ekki kröfur kalli það á tímafrekar viðgerðir. Minni áhætta sé tekin með ýmsan annan búnað í skipum.

Guðfinnur lét þess getið að oft væru bilanir raktar til nokkurra samverkandi þátta og erfitt væri að nefna ákveðin dæmi um bilun í skipi sem með óyggjandi hætti mætti rekja til gallaðs varahluts af gráa markaðinum. Sjaldan væri farið svo ofan í kjölinn á orsökum bilana að benda mætti á einhlíta skýringu.