Björk í Japan Erfitt að gleyma þessari stúlku Tókýó. Frá Benedikt Stefánssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. "ARÍGATÓ." Með þessu japanska þakkaryrði kvaddi Björk Guðmundsdóttir áhorfendur á fjórðu og síðustu tónleikum hennar í Tókýó á miðvikudagskvöld.

Björk í Japan Erfitt að gleyma þessari stúlku Tókýó. Frá Benedikt Stefánssyni, fréttaritara Morgunblaðsins. "ARÍGATÓ." Með þessu japanska þakkaryrði kvaddi Björk Guðmundsdóttir áhorfendur á fjórðu og síðustu tónleikum hennar í Tókýó á miðvikudagskvöld. Breiðskífa hennar, Debut, var nýlega endurútgefin í Japan að viðbættum lögunum Play Dead og Atlantic.

Í dómi Kentaro Takahashi, tónlistargagnrýnanda dagblaðsins Asahi Shimbun, um tónleika Bjarkar á laugardag segir að hún nái fullkomnu valdi á áheyrendum sínum með sterkri og áhrifamikilli sviðsframkomu. "Björk hefur tekist að skapa einstaka tónlistastefnu ... Útlit hennar, sem minnir á litla stúlku, hæfir þessari tónlist einkar vel. Hún kemur því fyrir sjónir eins og Lísa í Undralandi á þessari tölvuöld tónlistarinnar." Þá segir Takahashi: "Þessari furðulegu og dásamlegu dansandi stúlku verður þó erfitt að gleyma. Síðasta lag tónleika hennar sem sungið var án undirleiks hverfur ekki úr hjarta mér í bráð." Asahi Shimbun (Morgunsólarblaðið) er annað útbreiddasta dagblað Japans, gefið út í um 13 milljónum eintaka.