Sjávarútvegsráðherra um hindranir á innflutningi fisks til Frakklands Trúi ekki öðru en Frakkar falli fljótt frá aðgerðum Engar trúverðugar skýringar segir utanríkisráðherra, en sendiherra Frakka voru afhent formleg mótmæli í gær "ÞESSAR aðgerðir Frakka...

Sjávarútvegsráðherra um hindranir á innflutningi fisks til Frakklands Trúi ekki öðru en Frakkar falli fljótt frá aðgerðum Engar trúverðugar skýringar segir utanríkisráðherra, en sendiherra Frakka voru afhent formleg mótmæli í gær "ÞESSAR aðgerðir Frakka, innflutningsbann á íslenskan fisk, eru skýlaust brot á EES-samningnum. Ég trúi ekki öðru en Frakkar falli fljótt frá þessum aðgerðum. Það er því of snemmt að segja til um hvort það gæti komið til þess að karfakvóti Frakka hér við land verði afturkallaður," sagði Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra, í gær. Þá höfðu íslensk yfirvöld afhent sendiherra Frakka formleg mótmæli við hindrunum þeim sem fiskinnflutningur hefur verið beittur í Frakklandi sl. tvo daga. Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra, sagði að Frakkar hefðu engar trúverðugar skýringar gefið á afstöðu sinni. Sendiherra Frakklands, Francois Rey-Coquais, sagði að sér virtist sem aðgerðirnar væru byggðar á misskilningi.

Þorsteinn Pálsson sagði að Frakkar hefðu birt auglýsingu um nýja reglugerð, sem hafi falið í sér bann við innflutningi frá öðrum löndum en þeim, sem höfðu uppfyllt tiltekin skilyrði um að senda inn lista yfir viðurkenndar vörutegundir. "Í reglugerðinni kom fram að fimm þjóðir uppfylltu þessi skilyrði, en Ísland var ekki þar á meðal," sagði hann. "Þó sendum við slíkan lista inn fyrir rúmu ári, en Evrópubandalagið bað hins vegar um að ekki yrði farið að vinna eftir þessum nýju gæðareglum fyrr en eftir mitt þetta ár. Það er því alfarið vegna EB sem þessi tilhögun hefur ekki byrjað og þessar aðgerðir Frakka eru því eins skýlaust brot á EES-samningnum og hugsast getur."

Jón Baldvin sagði m.a. að ein sú skýringa, sem nefndar hefðu verið á aðgerðum Frakka, væri að EES væri ekki komið í gildi vegna þess að það væri undanþága að því er varðaði gildistöku reglugerðar um heilbrigðiseftirlit til 1. júlí. Það væri auðvitað engin skýring, þarna væri um undantekningu frá gildistökunni að ræða. Þá hefði einhver nefnt öryggisákvæði samningsins sem skýringu. "Það er fjarstæða," sagði utanríkisráðherra. "Ákvæðið er á þann veg að ef um er að ræða meiriháttar þjóðfélagslega röskun, hvort heldur er efnahagslega, félagslega eða á umhverfissviði þá geti samningsaðilinn, sem er EB en ekki einstök aðildarríki, tekið málið upp til samráðs innan EES-nefndarinnar." Jón Baldvin bætti því við, að hann teldi skýringuna á málinu einfalda, þ.e. franska ríkisstjórnin hefði látið undan þrýstingi sjómanna þar í landi.

Sendiherra Frakklands sagði að sér virtist sem aðgerðirnar væru byggðar á misskilningi og að um væri að ræða erfiðleika við að framfylgja nýju reglugerðinni. Um leið og starfsmönnum tollyfirvalda yrði gerð grein fyrir hvernig framfylgja skyldi hertum kröfum muni erfiðleikar við tollafgreiðslu íslensks fisks verða úr sögunni.

Sjá bls. 4: "Skýlaust brot.."