Íslensk söl seld til Bandaríkjanna NOKKUR hundruð kíló af þurrkuðum sölum hafa verið flutt til Bandaríkjanna frá síðasta hausti.

Íslensk söl seld til Bandaríkjanna

NOKKUR hundruð kíló af þurrkuðum sölum hafa verið flutt til Bandaríkjanna frá síðasta hausti. Fyrir hvert kíló greiðir bandarískur heildsali 7-800 krónur, en ekki er ljóst hvert endanlegt skilaverð verður til þeirra bænda og landeigenda, sem hafa verkað söl.

Árni Snæbjörnsson, hlunnindaráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands, segir að nokkrir bændur og landeigendur við Vesturland og austur undir Þjórsá safni sölunum, en þau verður að handtína á fjörum. "Sölin eru sólþurrkuð, hreinsuð og afvötnuð lítillega, ef þörf er á. Þá eru þau geymd undir fargi á köldum stað í 1-3 mánuði. Við sendum sölin með skipi til Bandaríkjanna, en þar er þeim pakkað í 50-100 gramma neytendapakkningar. Bandaríkjamenn borða þau mest sem snarlfæði, líkt og við harðfiskinn."

Árni segir að þessi fyrsta tilraun til útflutnings á sölum hafi tekist vel. Ekki sé hins vegar tímabært að huga að markaðssetningu undir íslensku vörumerki, því á meðan framboðið sé lítið og ójafnt þá verði slíkar hugleiðingar að bíða. Hins vegar hljóti slík markaðssetning að verða markmiðið, þó síðar verði.