Við hjónin höfum alltaf tekið slátur og við erum bæði alin upp við það. Ég ólst upp í Mývatnssveit þar sem var súrsað ofan í tvær risastórar tunnur. Mörg hundruð lítrar af slátri og allskonar súrmat sem var svo borðaður allt árið.

Við hjónin höfum alltaf tekið slátur og við erum bæði alin upp við það. Ég ólst upp í Mývatnssveit þar sem var súrsað ofan í tvær risastórar tunnur. Mörg hundruð lítrar af slátri og allskonar súrmat sem var svo borðaður allt árið. Eins og maður sá á einhverri forsíðunni þá er þetta það sem ætti að bjarga þjóðinni núna. En við höfum annars ekki verið að gera þetta af hagkvæmnisástæðum heldur er þetta alltaf bara mjög skemmtilegt. Við gerum lifrarpylsu og blóðmör, en ekki úr öllu því okkur finnst rosalega gott að eiga lifrarpylsuna frosna og elda hana eftir hentisemi. Eins gerum við sviðasultu sem við eigum bæði súrsaða og frysta.

Svo er ég að stjórna mörgum kórum með mörgu ungu fólki. Í einum þeirra eru stelpur frá 17 ára og upp í 25 ára og við æfum á sunnudögum. Stundum syngja þær í messu á undan og svo er æfing klukkan hálfeitt. Þá eru þær oft orðnar glorsoltnar. Því tók ég upp á að taka með mér slátur að heiman og setja í pottinn í kirkjunni þegar við mætum klukkan hálftíu. Og þá er það tilbúið á hádegi og þá borðum við það. Og langflestar, eiginlega allar, eru sólgnar í þetta. Þær fá sér af þessu og finnst það frábært.