Gufunes Áburður lækkar um 3% VERÐ á áburði framleiddum í Gufunesi hefur lækkað um 3% samkvæmt gjaldskrá sem tók gildi frá áramótum. Að sögn Þorsteins V.

Gufunes Áburður lækkar um 3%

VERÐ á áburði framleiddum í Gufunesi hefur lækkað um 3% samkvæmt gjaldskrá sem tók gildi frá áramótum. Að sögn Þorsteins V. Þórðarsonar sölustjóra er lækkunin til komin vegna tölvuvæðingar verksmiðjunnar og samdráttar í mannahaldi en starfsmönnum hefur fækkað úr 200 í 120 undanfarin fimm ár.

Þorsteinn segir að áburðarverð hafi lækkað um 5,6% á sama tíma í fyrra og nú sé lækkunin 3%. Hann segir að gjaldskráin sé ákvörðuð af stjórn fyrirtækisins í framhaldi af sölu- og rekstraráætlun og staðfest af landbúnaðarráðherra. "Við höfum fundið fyrir samdrætti undanfarin ár en teljum að við séum búin að ná botninum í þeim efnum. Gjaldskráin er ákvörðuð í beinu framhaldi af hagræðingu innan fyrirtækisins. Við höfum verið að tölvuvæða verksmiðjuna og þar af leiðandi dregið saman í mannahaldi og hefur starfsmönnum fækkað úr 200 niður í 120 á síðastliðnum fimm árum. Hinn 1. júní verða starfsmenn líklega um 100."

Þorsteinn segir að uppsögnum hafi ekki verið beitt, hins vegar hafi ekki verið ráðið í stað þeirra sem hætt hafi, til dæmis vegna aldurs. Einnig hafi menn verið hvattir til þess að hætta 67 ára með því að borga þeim bónus. Hann segir ennfremur að 1. desember á síðasta ári hafi þeim verið sagt upp sem verða 67 ára á þessu ári en á móti komi að verksmiðjan greiði þeim 30% launa til sjötugs. Aðspurður um verðmun á áburði milli mánaða segir Þorsteinn að fyrst og fremst sé um praktískt atriði að ræða. "Þetta er gert nákvæmlega eins í Noregi við tókum þetta eftir þeim. Þegar fyrst hækkunin verður 1. júlí er mesta salan yfirstaðin. Þetta er gert fyrir kaupfélögin úti á landi sem eru með birgðir en við byrjum að vaxtareikna frá 1. júlí en verðið er vaxtalaust fram að því. Þeir fá áburðinn lánaðan og ef þeir eru með birgðir reiknast vextir á þá frá 1. júlí og því hækkar verðið til þess að standa straum af þeim kostnaði. Annars myndu þeir tapa á því að vera með birgðir fyrir sitt svæði," segir Þorsteinn.