Morgunblaðið/Halldór B. Nellett Landbrot á Skeiðarársandi MIKIÐ landbrot hefur orðið víða á Skeiðarársandi seinasta áratug.

Morgunblaðið/Halldór B. Nellett Landbrot á Skeiðarársandi

MIKIÐ landbrot hefur orðið víða á Skeiðarársandi seinasta áratug. Flugvél Landhelgisgæslunnar flaug nýverið yfir sandinn og kom þá í ljós að stálþil sem rekið var niður í sandinn vegna leitarinnar að hollenska indíafarinu Het Wapen van Amsterdam árið 1983, er nú komið út í sjó og brýtur á því. Kristinn Kristinsson sem var einn leitarmanna að "gullskipinu" á sínum tíma, segir að þilið hafi verið um 20 m að breidd og um 60 metrar að lengd og verið rekið niður um 300 metra frá flæðarmáli, nærri ós Skeiðarár, og nær landbrotið rúmlega þeirri vegalengd þar sem þilið stendur nú um 30 metra út í sjó. Kristinn segir að ósinn hafi færst til síðan 1983 og sé hreyfing sandsins afar breytileg. Þannig geti landbrot verið minna annars staðar á sandinum og sumstaðar geti hann jafnvel hafa færst fram.