byrjun janúar gerði Víkverji athugasemd við málfar lækna og sagðist hafa skilið "minnst af því sem læknarnir sögðu við hann og alls ekki neitt, þegar þeir ræddu sín á milli" þegar hann þurfti að fylgja skjólstæðingi sínum til læknis.

byrjun janúar gerði Víkverji athugasemd við málfar lækna og sagðist hafa skilið "minnst af því sem læknarnir sögðu við hann og alls ekki neitt, þegar þeir ræddu sín á milli" þegar hann þurfti að fylgja skjólstæðingi sínum til læknis. Tungutakið hafi ekki verið enskuskotið heldur latínuskotið.

Jóhann Heiðar Jóhannsson, læknir á Rannsóknastofu háskólans í meinafræði, ritar pistil í 2. tölublað Læknablaðsins þar sem hann gerir þetta að umtalsefni en hann hefur undanfarin ár ritað reglulegan "íðorðapistil" í Læknablaðið.

Segir Jóhann í pistli sínum að ljóst sé að áhugi lækna á málvöndun sé að aukast og að almenningur geri einnig auknar kröfur til lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna um að skrif þeirra, umræður og útskýringar séu á íslensku en ekki "læknamáli".

Í pistli sínum segir Jóhann Heiðar m.a.: "Taka má undir gagnrýni Víkverja hvað varðar þau orð læknanna, sem honum voru ætluð. Illt er til þess að vita ef læknar hafa það fyrir sið að ræða við sjúklinga sína eða umboðsmenn þeirra á slíku slangurmáli að þeir skilji ekki. Hvort læknum leyfist að ræða sín á milli á "læknamáli" um vandamál eða krankleika sjúklinga sinna er hins vegar önnur saga. Víkverji þessi sagði ennfremur, að brýnt væri að þýða á íslensku þau nafnorð, orðasambönd og hugtök, sem læknar nota í starfi sínu og að gera notkun þeirra virka. Honum er greinilega ókunnugt um Íðorðasafn lækna, sem er séríslensk læknisfræðiorðabók með um 30 þúsund fræðiorðum, enskum og latneskum, sem þýdd hafa verið á íslensku. En þó að útgáfa Íðorðasafnsins sé hreint þrekvirki og til mikils sóma fyrir læknafélögin, þá er vissulega ekki nóg að gert fyrr en íslensku fræðiheitin eru komin í almenna notkun. Hafi Víkverji þökk fyrir gagnrýnina."

ina kommúnistaríkið á vesturhveli jarðar er Kúba, þar sem Fiedel Kastro hefur ráðið ríkjum í nokkra áratugi. Í nýlegu fréttabréfi frá Evrópusambandinu, sem er nýtt heiti á Evrópubandalaginu, segir, að sambandið hafi ákveðið að hjálpa Kúbverjum. Þar er svohljóðandi klausa:

"Að frumkvæði Manuels Marins, sem m.a. er ábyrgur fyrir styrkjum ES til mannúðarmála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hefur ES ákveðið að veita nú þegar íbúum Kúbu 1,5 milljóna eka styrk eða jafnvirði 120 milljóna íslenskra króna. Á síðasta ári var veittur 5,5 milljóna styrkur til landsins.

Skortur á viðunandi heilbrigðisþjónustu í landinu hefur valdið mikilli aukningu á smitsjúkdómum meðal almennings á Kúbu. Féð, sem veitt var á síðasta ári, fór til uppbyggingar sjúkrahúsa, göngudeilda og heilsugæslustöðva í stærstu borgum landsins og verður styrknum nú varið til áframhalandi uppbyggingar."

Já, þannig er þá komið fyrir "sæluríkinu" Kúbu.