Endurvinnsla Safna notuðum filmum til endurvinnslu ACO hf. sendir gám af filmum til Kanada til endurvinnslu í samvinnu við Eimskip hf. ACO hf. er að hrinda úr vör endurvinnsluátaki í samvinnu við Eimskip hf. sem miðar að því að safna saman öllum notuðum...

Endurvinnsla Safna notuðum filmum til endurvinnslu

ACO hf. sendir gám af filmum til Kanada til endurvinnslu

í samvinnu við Eimskip hf.

ACO hf. er að hrinda úr vör endurvinnsluátaki í samvinnu við Eimskip hf. sem miðar að því að safna saman öllum notuðum filmum sem vænta má að liggi í geymslum hjá prentsmiðjum, sjúkrahúsum og ljósmyndurum og senda utan til endurvinnslu. Eimskip útvegar 20 feta gám, sem fer úr landi 5. mars nk. til Kanada, en Aco hefur hafið samstarf við endurvinnslufyrirtækið Metafix. Fram til þessa hefur filmum verið eytt hér á landi með því að brenna þær, að sögn Benedikts Guðmundssonar sölustjóra hjá Aco. Hann segir ennfremur að þær aðferðir séu svipaðar og að beina úðabrúsa beint út í andrúmsloftið, því filmurnar innihaldi efni sem eyði ósonlaginu. "Metafix nýtir filmurnar hins vegar til að búa til polyester sem er síðan notað í filmur. Þá höfum við einnig samið við þá um að vinna silfur úr fixer."

Að sögn Benedikts er orðið tímabært fyrir Íslendinga að huga að endurvinnslu. "Þörfin fyrir þessa þjónustu er fyrir hendi og það var okkar að ýta henni úr vör," sagði hann. "Við flytjum inn mikið af vökvum eins og framkallara og fixer. Vandamálið er að alltof oft fara þessir vökvar út í umhverfið. Nú viljum við bæta um betur með sölu á endurvinnslutæki sem tengt er við framköllunarvélar."

Hér á landi er staddur þessa dagana Gordon Bathurst tæknistjóri Metafix til að setja upp slíkar vélar hjá nokkrum fyrirtækjum eins og Prentmiðjunni Odda, Prentmyndastofunni og Steindórsprenti/Gutenberg. "Með þessum vélum sparast allt að 70% af fixer á ári, en jaframt fellur til silfur. Því er safnað saman á tveggja mánaða fresti og sent til Kanada og brætt í 100% silfur. Hlutur viðskiptavinarins er 70%, en 30% fer í kostnað vegna flutnings."

Að sögn Benedikts hefur þetta tæki þá sérstöðu að það er viðurkennt af Picker-fyrirtækinu sem er leiðandi fyrirtæki í Bandaríkjunum í heilbrigðismálum. Munu slík tæki vera notuð víða á sjúkrahúsum í Kanada og Bandaríkjunum. Þess má geta að í höfuðstöðvum Kodak í Rochester, eru 4 Metafix endurvinnslutæki. Auk þess eru þau viðurkennd af yfirvöldum í Kanada, Englandi, Hollandi og víðar.

ACO vinnur hins vegar í nánu samstarfi við Hollustuvernd ríkisins og mun fá úrskurð frá stofnuninni hvort endurvinnslutækið hreinsi efnin það vel að þau megi fara út í umhverfið eftir ákveðna meðhöndlun þess.

Morgunblaðið/Sverrir

ENDURVINNSLA ­ Gordon Bathurst tæknistjóri Metafix og Benedikt Guðmundsson sölustjóri ACO hf. með nýju endurvinnslutækin fyrir framkallara.