Fyrirtæki Hlutur ríkis í Þormóði ramma seldur ÁKVEÐIÐ hefur verið að bjóða hlutabréf ríkisins í Þormóði ramma hf. á Siglufirði til sölu á almennum markaði frá 16. febrúar nk.

Fyrirtæki Hlutur ríkis í Þormóði ramma seldur

ÁKVEÐIÐ hefur verið að bjóða hlutabréf ríkisins í Þormóði ramma hf. á Siglufirði til sölu á almennum markaði frá 16. febrúar nk. Bréfin eru að nafnverði um 48 milljónir króna og verða seld á genginu 1,85 þannig að söluverð þeirra er alls um 89 milljónir. Þetta svarar til um 16,6% af hlutafé fyrirtækisins. Á tímabilinu 16. febrúar til 1. mars verður sala til hvers aðila að hámarki 250 þúsund krónur að nafnverði.

Þormóður rammi starfrækir útgerð, fiskvinnslu, rækjuvinnslu og reykhús. Fyrirtækið gerir út skutttogarana Stálvík og Sigluvík og rækjufrystitogarana Sunnu og Arnarnes. Síðastnefnda skipið er skráð á St. Vincent undir hentifána.

Við frystihúsið starfa um 100 manns og var unnið úr 3.715 tonnum af hráefni í húsinu árið 1993 sem var að uppistöðu þorskur. Voru framleidd 1.679 tonn af afurðum að verðmæti 439 milljónir. Saltfiskverkun er hliðarstarfsemi frá frystihúsinu en framleiðslan þar er í lágmarki vegna stöðu á mörkuðum og takmarkaðs hráefnis. Hráefnisöflunin fyrir fiskvinnsluna hefur að mestu verið í höndum viðskiptabáta sem nýta kvóta Þormóðs ramma.

Rækjuverksmiðja fyrirtækisins hefur verið rekin á þremur vöktum frá því á sumarmánuðum árið 1993. Togararnir Stálvík og Sigluvík sáu að mestu um hráefnisöflun á ferskri rækju en frosið hráefni kom frá rækjufrystitogurunum Sunnu og Arnarnesi.

Þormóður rammi hefur selt reyktan lax í gegnum sölunet Coldwater í Bandaríkjunum en allt hráefni kemur frá Silfurstjörnunni. Reykingin hefur vaxið mikið undanfarið og er gert ráð fyrir áframhaldandi aukningu.

Úthlutaðar veiðiheimildir Þormóðs ramma hf. fyrir fiskveiðitímabilið 1. september 1993 til 31. ágúst 1993 eru samtals 7.913 tonn auk þess sem ónýttar heimildir frá fyrra fiskveiðatímabili voru 1.396 tonn. Samtals eru þetta 9.309 tonn eða 6.271 þorskígildi.

Hagnaður áætlaður 83 m.kr.

Árið 1992 varð 55 milljóna tap af Þormóði ramma. Á síðasta ári batnaði afkoman til muna og voru rekstrartekjur eftir fyrstu átta mánuðina 1.059 milljónir eða rúmlega 3% meiri en allt árið 1992. Þá var hagnaður fyrstu átta mánuði ársins 1993 69 milljónir og gerir áætlun ráð fyrir 84 milljóna hagnaði og 1.511 milljóna rekstrartekjum. Þannig aukast tekjur milli ára um 47% sem skýrist af meira en tvöföldun af rekstrartekjum af reykingu og rækjuvinnslu.

Gert er ráð fyrir 3% samdrætti í rekstrartekjum á árinu 1994 eða að rekstrartekjur verði um 1.464 milljónir. Þá gera áætlanir ráð fyrir 79 milljóna hagnaði og að hagnaður af reglulegri starfsemi aukist um 41%.