Símon Ingvar Konráðsson málari fæddist í Reykjavík hinn 17. júní 1919. Hann lést á líknardeild Landakotsspítala 29. september síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Konráð Ingimundarson mótoristi, f. 1886 í Vestmannaeyjum, d. 1957 og Guðrún Sigríður Einarsdóttir, verkakona og húsmóðir, f. 1886 á Húsavík eystri, Borgarfjarðarhr., d. 1967. Börn þeirra hjóna, sem öll eru nú látin, voru Jón Einar, Nikólína, Concordia, Sigríður María, Símon Ingvar, Sigurveig Stella, Ágúst Ingimundur og Elínberg Sveinbjörn (Lalli).

Eftirlifandi eiginkona Símonar er Doris Jelle Konráðsson húsmóðir, f. 12.10. 1928, gengu þau í hjónaband 17.6. 1949. Börn þeirra hjóna eru: 1) Paul Erik f. 1948, d. 2005, Doris átti hann fyrir hjónaband en Símon ættleiddi hann og gekk honum algerlega í föðurstað, synir Páls eru; Trausti og Júlíus Símon og er eftirlifandi sambýliskona Páls Guðrún Ragna Krüger og synir þeirra eru Valgeir og Bergþór. 2) Olga Karen Jelle, f. 1950, synir hennar eru Jón Símon, Pétur Marinó og Heimir. 3) Bryndís f. 1953, gift Ragnari S. Ólafssyni; sonur Bryndísar er Óðinn. 4) Sigríður Guðrún (Sirrý) f. 1954, d. 1999, eftirlifandi eiginmaður hennar er Þorbjörn Guðmundsson; börn Sigríðar eru Katrín Björk, Bryndís Ísfold og Árni Rúnar. 5) Rögnvaldur Ragnar, f. 1956 og er kona hans Kirsten Godsk; dóttir Rögnvaldar er Momo Rakel, synir hans og Kirsten eru Kristján, Jónas, Daníel og Ísak. 6) Einar Andrés, f. 1959, sambýliskona hans er Ingunn Nielsen, börn Einars eru Símon Karl, Sigríður Rós og Elías Snær. 7) Birgir, f. 1960, börn hans eru Anna Gígja, Ingvar Dór, Aron Gauti, Rögnvaldur Nökkvi og Saga Kristín. 8) Díana, f. 1963, eiginmaður hennar er Smári B. Ólafsson; dóttir Díönu er Karen Andrea, synir Díönu og Smára eru Reynir Óli og Ívar. 9) Helen, f. 1972, og eru synir hennar Bergur Ari og Kjartan. Langafabörn Símonar eru tuttugu talsins.

Símon vann sem mjólkursendill í Reykjavík á unglingsárum fram á fullorðinsár og fram að námi vann hann m.a. sem kaupamaður í sveit. Hann nam málaraiðn hjá Fritz Bertelsen árin 1945-46 og hjá Þorbirni Þórðarsyni 1946-49 og lauk prófi frá Iðnskólanum í Reykjavík 1949 og sveinsprófi sama ár. Símon vann við húsamálun í Reykjavík fram til ársins 1969 en þá fluttist fjölskyldan til Svíþjóðar og bjó þar til ársins 1974. Þegar heim kom fór Símon fljótlega að vinna á Líkkistuvinnustofu Eyvindar Árnasonar þar sem hann vann til ársins 1991. Símon var virkur félagsmaður í Málarafélagi Reykjavíkur og var í stjórn félagsins í nokkur ár.

Símon verður jarðsunginn í dag frá Fella- og Hólakirkju og hefst athöfnin kl. 13.

Ég kynntist fjölskyldunni í Rjúpufelli fyrir 15 árum, var strax tekinn í hópinn og það tókst góð vinátta með okkur Símoni og hélst alla tíð þrátt fyrir að aðstæður breyttust. Það var gott að eiga Símon að vini og hann var góður tengdafaðir. Hann var hreinskiptinn og skemmtilegur heim að sækja, ferskur og stutt í kátínuna, lundin létt, hafði gaman af að spjalla og rökræða. Hann var vel lesinn og fylgdist vel með því sem var að gerast í samfélaginu, ekki síst í pólitíkinni. Hann tók óhikað afstöðu og varði málstað þeirra sem minna máttu sín.

Þegar ég kom inn í fjölskylduna var hún orðin býsna stór, börnin öll á lífi og barnabörnin byrjuð að tínast inn. Það var oft fjölmennt í afmælum og jólaboðum en það var rík hefð í fjölskyldunni að koma saman þegar einhver átti afmæli og skipti ekki máli hvort áttu í hlut börnin eða fullorðnir. Símon og Doris nutu þess að hafa fjölskylduna í kringum sig og leystu vel hlutverk sitt sem höfuð hennar. Stundum þegar talið barst að fortíðinni og rætt var um lífshlaup Símonar og Dorisar og hvernig þeim hafði tekist að framfleyta stórum barnahóp á málaralaunum einum saman, var svarið: „Jú, þetta gat verið erfitt á stundum en þetta var ekkert til að kvarta yfir.“ Síðan bættu þau við: „Stundum mátti ekki tæpara standa en með samstilltu átaki og mikilli nýtni tókst þetta.“

Þau ræktuðu með sér það viðhorf að þrátt fyrir allt og að á stundum hafi lítið verið til skiptanna hafi þau haft það gott og þannig hafi það lengst af verið. Þetta viðhorf nægjusemi og jákvæðni ræktaði Símon með sér meðan ævin entist og svarið spurningunni hvernig hefur þú það var ætíð það sama, ég hef það fínt. Símon naut mikillar hamingju í hjónabandi. Þegar ég hitti Símon og Doris í fyrsta sinn, komin á efri ár, fékk ég strax á tilfinninguna að enn lifði vel í glóðinni sem tendruð var fyrir mörgum áratugum. Stundum var smátuð en það risti ekki djúpt og maður fann glöggthversu tilfinningaleg tengslin voru sterk, og þau nutu gagnkvæmar umhyggju og ástar hvort annars.

Það eru mikil forréttindi og gæfa hvers manns að fá að njóta svo langrar samvistar í ást og umhyggju. Fyrir þessum sterku tengslum fann maður vel í heimsóknum í burstabæinn við Þingvallavatn. Símon og Doris og bústaðurinn, sem var byggður í sama stíl og burstabæir fyrri tíma, voru eins og ein heild, þarna leið þeim vel og kannski áttu þau þar sínar bestu stundir á efri árum. Nú er Símon genginn til náða eftir langt og farsælt líf. Hann gerði sér vel grein fyrir að hverju stefndi síðustu mánuðina sem hann lifði, hann var sáttur við lífið og var tilbúinn að hefja nýjan könnunarleiðangur. Hvert sá leiðangur hefur leitt hann veit enginn. Um leið og ég sendi Doris mínar bestu kveðjur, vona að hún eigi eftir að eiga marga góða daga þrátt fyrir að samferðamaðurinn til margra ártuga hafi vikið af leið, vil ég þakka Símoni fyrir trygga vináttu og góða samferð.

Þorbjörn Guðmundsson.

Það var haustlegt, ég sat í bílnum fyrir utan Rjúpufell 44 og flautaði. Ég var nýbyrjaður að slá mér upp með yngismær úr Fellunum, en það var ekki hún sem kom til dyra, heldur vörpulegur maður, sem gekk að bílnum hjá mér og spurði hvort ég vildi ekki frekar koma inn en að sitja einn úti í bíl og flauta, ákaflega feiminn þáði ég það. Þetta voru mín fyrstu kynni af tengdaforeldrum mínum.

Mér var tekið með kostum og kynjum og hefur svo verið alla tíð síðan á þeirra heimili. Þar er alltaf nóg pláss fyrir alla, enda stór fjölskyldan og oft mikið fjör. Símon kvæntist eftirlifandi konu sinni Doris fyrir rúmum 59 árum, þau komu níu börnum til manns og afkomendur í dag eru 60. Hann orðaði það svo fallega þegar hann sagði nú nýlega: „Ég er orðinn 89 ára og á þennan fjársjóð, er hægt að óska sér einhvers meira?“

Símon var einn af þessum mönnum sem hægt var að ræða við um hvað sem er og maður kom aldrei að tómum kofunum hjá honum. Hann hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, en var samt aldrei óvæginn. Það var gaman að skiptast á skoðunum um pólitík við hann og oft þurfti ekki mikinn neista til að koma af stað miklu báli á þeim vettvangi. En það var alltaf stutt í glensið og kitlandi hláturinn smitaði alla í kringum hann.

Símon var einstaklega minnugur og rifjaði stundum upp æskuárin í Reykjavík, þegar hann var mjólkurpóstur og hjólaði um allar trissur með mjólkina í glerflöskum til þyrstra borgarbúa. Það var líka fróðlegt að heyra sögur af stríðsárunum, frá Bretavinnunni og mörgu öðru, sem var svo framandi.

Hann hafði næmt auga fyrir nátturunni, það sást best í kringum bústaðinn þeirra á Þingvöllum, sem var sannarlega sælureitur, byggður eins og gömlu torfbæirnir með flottu grasþaki og hleðslunni í kringum húsið. Þar sást líka vel hversu góður málari hann var, enda menntaður sem slíkur. Það var oft gaman að vera á Þingvöllum og börnin okkar nutu þess vel að fá að fara með afa og ömmu í sveitina.

Hjá Símoni virtist tíminn standa í stað, hann hætti að vinna 72 ára og sá eftir að hafa ekki hætt fyrr, því að hann hafði það svo gott í ellinni. Doris stjanaði líka við hann, hafragrautur á hverjum morgni, miðdagslúrinn á sínum stað og allt annað í föstum skorðum. Hann var duglegur að heimsækja börnin sín og barnabörnin, keyrði um allt eins og herforingi, á meðan hann gat. Þau hjónin voru líka dugleg að heimsækja ættmennin í Danmörku og Svíþjóð, sérstaklega eftir að Birgir sonur þeirra flutti til Gautaborgar. Þau voru líka tíðir gestir í Eyjafirðinum, þar sem þrjú af börnum þeirra bjuggu.

Við nutum þess þegar þau komu í mat til okkar, þá var oft glatt á hjalla. Það síðasta sem hann sagði við mig var einmitt í tilefni af matarboði, sem hann því miður komst ekki í, þá sagði hann: „Og mundu eftir að hafa kjötið mjúkt.“ Það ætla ég að reyna í framtíðinni kæri Símon, ég þakka samfylgdina og vona að góður Guð veiti Doris og fjölskyldunni styrk í sorg þeirra, þín verður sárt saknað.

Kveðja,

Smári B. Ólafsson.

Elsku afi. Mikið er erfitt og sárt að setjast niður og skrifa hinstu kveðju til þín. Þú varst svo yndislegur afi. Man allar ferðirnar í hjólhýsið ykkar á Þingvöllum og svo seinna sumarbústaðinn sem þú byggðir. Ég á margar af mínum skemmtilegustu bernskuminningum með þér og ömmu að brasa eitthvað uppi í sumarbústað. Þar var alltaf nóg að gera, hvort sem það var að hjálpa ykkur við að vinna í landinu, sinna búinu sem við krakkarnir bjuggum til við hlið safnhaugsins eða fara og veiða fisk í Þingvallavatni. Minnist frasans sem þú varst svo vanur að segja ef maður meiddi sig: „Þetta grær áður en þú giftir þig.“ Svo náttúrlega að skella bara júgursmyrsli á sárið og þá átti allt að batna.

Þú varst líka duglegur að minna mann á að lyfta fótunum ef maður dró lappirnar, það ætti sko ekki að ganga svoleiðis. Það var líka alltaf svo gott að vera heima hjá ykkur ömmu í Rjúpufellinu. Fékk svo oft að gista hjá ykkur og þá borðuðum við hafragraut saman á morgnana sem amma eldaði alltaf handa þér. Nú á síðari árum var gaman að sitja með þér í eldhúskróknum og hlusta á þig segja frá gamla tímanum, þegar þú vannst sem málari, frá því þegar þú byggðir húsið ykkar á Suðurlandsbrautinni og fleiri skemmtilegar sögur, þá hlóstu mikið og hafðir gaman af. Sé þig fyrir mér þar sem þú sast alltaf í eldhúskróknum að leggja kapal eða í stólnum þínum inni í stofu að horfa á fréttirnar.

Elsku afi, ég get ekki lýst því með orðum hvað ég sakna þín mikið. Þakka allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Þín afastelpa,

Karen Andrea.

Hann afi Símon er fallinn frá. Við munum það báðir þegar við vorum litlir og vorum í pössun hjá ömmu og afa. Ef það var ekki hér í bænum þá vorum við á Þingvöllum að leika okkur í sumarbústaðnum eða úti að veiða í vatninu – bústaðnum vínrauða með græna torfþakinu sem okkur bræðrunum þótti gaman að príla upp á og leika okkur á. Afi var ekki ýkja sáttur við það og vorum við oftast reknir niður, en við príluðum strax aftur upp þegar hann leit af okkur.

Afi var hress karl og var hann alltaf að brasa eitthvað í sumarbústaðnum, sem hann byggði frá grunni með aðstoð fjölskyldu sinnar. En nú erum við orðnir eldri, búið að selja bústaðinn og hann afi okkar fallinn frá, 89 ára að aldri.

Hann hafði gaman af því að sitja og hlusta á útvarpið og lesa bækur. Hann var ekki mjög tæknisinnaður og lærði aldrei að nota gsm-símann en fjarstýringunni á sjónvarpinu stjórnaði hann einn.

Nánast alltaf þegar maður hitti hann var hann hlæjandi eða brosandi. Jafnvel á síðustu dögunum. Við fórum að heimsækja hann á spítalann og fundum hann inni í eldhúsi með starfsfólkinu og körlunum á deildinni, að fá sér smáhressingu fyrir svefninn. Hann var mjög félagslyndur maður.

Á efri árum hans hittum við hann ekki eins oft og við hefðum viljað. Þá helst þegar þau komu í mat, því að afi elskaði eldamennskuna hans pabba.

Við kveðjum hann með söknuði og biðjum Guð að varðveita hann og veita ömmu okkar styrk.

Reynir Óli og Ívar Smárasynir.

Ég kynntist Símoni Konráðssyni þegar ég var 10 ára gamall og kunningsskapur okkar hefur haldist óslitinn síðan. Það er margs að minnast þegar ég hugsa til baka og rifja upp okkar góðu kynni. Símon var einstaklega góður drengur, alltaf léttur í lund og hafði þægilegt skap. Það var engin lognmolla þar sem Símon var. Seinna bundumst við Símon ennþá sterkari böndum þegar ég giftist systur hans, en fram að þeim tíma má segja að ég hafi verið heimagangur á heimili móður hans. Við Símon gerðum margt saman, fórum t.d. saman í sumarfrí þar sem við áttum margar góðar stundir. Á þeim árum vorum við starfandi málarar og báðir virkir í starfi stéttarfélags okkar. Það varð þess valdandi að oftar en ekki vorum við saman á árshátíðum og oft fórum við saman í ógleymanlegar ferðir með Málarafélaginu.

Ég vil með þessum orðum kveðja góðan vin og samferðamann. Ég minnist hans með þakklæti og þakka fyrir þær stundir sem við áttum saman. Ég votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð. Hvíl í friði.

Guðmundur Þ. Björnsson.