Tölvur Tölvusamskipti hf. meðal útvaldra hjá Microsoft VONIR eru nú bundnar við að Microsoft hugbúnaðarfyrirtækið velji Skjáfax-hugbúnaðinn frá Tölvusamskiptum til uppsetningar á skrifstofum sínum í Redmond í Bandaríkjunum.

Tölvur Tölvusamskipti hf. meðal útvaldra hjá Microsoft

VONIR eru nú bundnar við að Microsoft hugbúnaðarfyrirtækið velji Skjáfax-hugbúnaðinn frá Tölvusamskiptum til uppsetningar á skrifstofum sínum í Redmond í Bandaríkjunum. Upphaflega valdi Microsoft átta faxkerfi til skoðunar en hefur nú þrengt valið niður í þrjú kerfi og er Skjáfax þar á meðal. "Þetta staðfestir að Skjáfaxið er eftirsótt og gjaldgeng vara á markaðnum þó svo við yrðum ekki fyrir valinu. Þá sýnir þetta að Microsoft ætlar ekki að setja eigið faxkerfi á markaðinn fyrir stærri fyrirtæki sem er hvað mikilvægast," sagði Ásgrímur Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Tölvusamskipta.

Skjáfax er komið í dreifingu í flestum löndum Evrópu og í Bandaríkjunum og hefur nú verið þýtt á 11 tungumál. Ásgrímur sagði sagði að heildarsalan á sl. ári hefði verið um 47 milljónir sem er fjórföldum frá árinu á undan. Vegna mikils kostnaðar við markaðssetningu á árinu væri afkoma fyrirtækisins hins vegar neikvæð. Sumarið hefði einnig verið erfitt í rekstri og salan dræm en hún hefði tekið við sér síðustu mánuði ársins. Kvaðst hann búast við jákvæðri afkomu á þessu ári og gerðu áætlanir ráð fyrir að salan yrði tvöföld til þreföld miðað við sl. ár þó hún hefði verið dauf í janúar eins og jafnan á þeim tíma árs.

Ákveðið hefur verið að fyrirtækið taki þátt í hinni árlegu tölvusýningu í Hannover í Þýskalandi í mars sem er sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu. Þá efna Tölvusamskipti til ráðstefnu um næstu helgi á Hótel Esju fyrir erlenda dreifiaðila fyrirtækisins þar sem kynnt verður ný útgáfa af skjáfaxi eða 3.0. Þessi nýja útgáfa er afrakstur af samstarfi fyrirtækisins við Microsoft undanfarna mánuði og felur í sér ýmsar nýjungar. Í kerfinu er m.a. hægt að hanna forsíðu með merki fyrirtækisins og viðeigandi upplýsingum um mótttakanda, hægt verður að skrifa og teikna beint á móttekin föx á skjánum, senda þau aftur út með athugasemdum og breyta mótteknum föxum í textaskjöl. Á ráðstefnuna hafa boðað komu sína 15 fulltrúar erlendra dreifiaðila en þeir koma hingað á sinn eigin kostnað. "Þessi fundur er gífurlega mikilvægur og sparar okkur miklar fjárhæðir við markaðssetningu. Þetta að erlendu aðilarnir leggja mikla áherslu á Skjáfaxið í sinni dreifingu," sagði Ásgrímur.