Tölvur Marinó G. Njálsson Internetinu kastað Alþjóðleg tölvusamskipti um Internet bjóða upp á mikla möguleika Maður les varla svo tölvublað eða -tímarit að ekki sé minnst á Internet þetta og Internet hitt.

Tölvur Marinó G. Njálsson Internetinu kastað Alþjóðleg tölvusamskipti um Internet bjóða upp á mikla möguleika Maður les varla svo tölvublað eða -tímarit að ekki sé minnst á Internet þetta og Internet hitt. Nýlega hafa fjármálablöðin einnig varpað kastljósi sínu að þessu vinsæla samskiptakerfi. Það fer ekkert á milli mála að Internet er "inni".

Eins og lesendur pistla minna hafa líklegast tekið eftir er ég einn af þeim sem nýlega hafa fengið aðgang að þessu alþjóðaneti. (Þetta hef ég gefið til kynna með því að bæta vistfangi mínu neðanmáls í lok pistlanna.) Á ferðalögum mínum um netið og við lestur fjölmargra greina hef ég verið að velta því fyrir mér hvers vegna var ég ekki búinn að fá þessa tengingu fyrir löngu.

Hvað er Internet?

Upphaf Internets tölvusamskiptakerfisins má rekja til sjöunda áratugarins. Því var komið á fót af bandarískum stjórnvöldum til að auðvelda vísindamönnum, sem unnu að rannsókunum fyrir varnarmálaráðuneytið í háskólum á víð og dreif um Bandaríkin, að skiptast á upplýsingum um störf sín. En það fór víðar en búist var við.

Lykillinn að örri útbreiðslu Internets er hve auðvelt er að tengjast netinu. Það eina sem þarf er mótald og samskiptabúnaður til að ná sambandi, símanúmer (til að hringja í), notendanafn (vistfang) og að fylgja opinberum samskiptareglum. Um sautján milljón tölvunotenda í 50 löndum hafa einmitt gert það. Umferð um netið eykst með hverjum deginum sem líður og er áætlað að aukningin nemi um 15% á mánuði.

Notandinn tengist netinu með einu símtali til samskiptastöðvar og sendir skilaboð, sem þeytast á örskots stundu heimshorna á milli. Hægt er að taka þátt í ráðstefnum, leita í gagnabönkum, fara í gegnum spjaldskrár bókasafna, fá upplýsingar um rannsóknarniðurstöður, lesa lista yfir eftirlýsta glæpamenn og svona mætti lengi telja. Flestir nota Internet til að eiga í samskiptum við einstaklinga um víða veröld eða taka þátt í alls konar ráðstefnum.

Internet er sá samskiptamáti, sem fleiri þúsund vísindamenn og háskólamenn í Evrópu nota við samskipti sín. Ríkisstjórnir í Evrópu fóru að dæmi þeirrar bandarísku og fjármögnuðu tölvunet, sem tengja saman háskóla hver í sínu landi. Þar til nýlega hefur vantað tengingu milli landa, þannig að Internet hefur þjónað því hlutverki. Það hljómar einkennilega, en hið fullkomna háskólanet á Bretlandi er með sérstaka háhraðalínu til Bandaríkjanna til að tengjast Internet.

Hér á landi hefur Háskóli Íslands verið í fararbroddi. Aðrir skólar hafa fengið tengingu við netið með því að tengjast Íslenska menntanetinu og er svo komið að nær allir skólar landsins tengjast því núna. Svo merkilega vill til að það eru nokkrir framhaldsskólanna sem hafa verið seinastir í gang.

Óþrjótandi möguleikar

Alls konar sögur eru til um hvernig nota má þjónustu Internets. Hér á eftir fylgja nokkrar:

Philippe Kahn, stofnandi og stjórnandi Borland hugbúnaðarfyrirtækisins, er alltaf með litla ferðatölvu hjá sér hvert sem hann fer. Hann er nefnilega búinn að uppgötva hvað hann getur sparað mikinn tíma með því að nýta sér Internet og tölvupóst. Hann notar tölvupóst til að senda boð til starfsmanna sinna og þá skiptir ekki máli hvort hann er í París, New York eða Auckland á Nýja-Sjálandi eða þess vegna í einhverri fjallaferð í nágrenni heimilis síns. Það eina, sem hann þarf til að tengjast fyrirtæki sínu, er sími og farsíminn gerir honum kleift að hringja hvaðan sem er hvenær sem er. Einu sinni stjórnaði hann Borland fyrirtækinu á þennan máta á meðan hann tók þátt í siglingakeppni milli San Francisco og Hawaii.

Hjá vísindamönnum frá Austur-Evrópu er það nýjasta að skarta Internetfangi á nafnspjöldum sínum.

Í Fíladelfíu í Bandaríkjunum eru einmenningstölvur notaðar við lestrarkennslu fyrir lágtekjufólk. Enginn kom á kvöldnámskeið, sem voru auglýst, en 100 manns skráðu sig á námskeið á Internet þar sem hægt var að fá lánaða tölvu heim.

Tískufyrirbrigði eða sjálfsagt

Ég er einn af þeim, sem vandist að nota tölvupóst á háskólaárum mínum. Fyrst á VAX/780 tölvu Háskóla Íslands og síðar á sambærilegri tölvu við háskóla í Bandaríkjunum. Svo byrjaði ég að vinna við PC tölvur og neyddist til að byrja nota símann aftur. Þeir sem hafa vanið sig á að nota tölvupóst fyrir innanhússamskipti eru flestir sammála mér í því að fátt er þægilegra. Það sama á við um alþjóðleg samskipti.

Nýir notendur fara yfirleitt hægt af stað, en áður en langt um líður hækka símreikningarnir all ískyggilega. Ég hef heyrt af dæmum hér innanlands, sem auka tekjur Pósts og síma dável. Einn samstarfsmaður minn sagði eftir að hafa kynnst Internet í gegnum Íslenska menntanetið, að hann skildi vel að fólk gleymdi sér á netinu, það byði upp á svo mikla möguleika.

Vissulega hafa margir komist ágætlega af án Internets hingað til og munu áfram hafa það gott án þess. Á sama hátt og faxtæki er Internet eða aðrar samskiptatengingar fyrst og fremst til hagræðis fyrir notendur sem vilja hröð og örugg samskipti.

Athugasemd vegna greinar

27. janúar

Í grein minni 27. janúar sl. ræddi ég m.a. um tvöfalt siðferði í skólum landsins varðandi ólöglega dreifingu hugbúnaðar. Ég fékk nokkur viðbrögð við greininni og meðal annars eina frá yfirmanni tölvumála á Skólaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Hann mótmælti harðlega að skólaskrifstofan gerði ekki ráð fyrir hugbúnaðarkaupum í fjárhagsáætlunum, vandinn væri bara að skólarnir notuðu ekki allir það litla, sem komið hefði í hlut hvers og eins, í hugbúnaðarkaup (u.þ.b. 200 þúsund krónur fyrir 8 til 12 tölvur). Þessi upphæð er, að mínu áliti, ákaflega knöpp nema þess betri samningar náist.

Raunar var það ekki ætlun mín að beina spjótum mínum að skólaskrifstofunni í grein minni 27. janúar sl. því ég vissi að þar hafði verið gert margt gott. Klaufalegt orðaval varð þess þó valdandi að skilja mátti orð mín þannig að sökin væri alfarið þeirra. Það er ekki rétt og biðst ég afsökunar á því.

Hitt stendur óbreytt að ýmsir skólar nota ólöglega fenginn hugbúnað, þrátt fyrir að Námsgagnastofnun selji kennsluhugbúnað á málamyndaverði og seljendur innflutts hugbúnaðar séu allir af vilja gerðir til að bjóða eins hagstætt verð og kostur er. Það ánægjulega við umfjöllun mína um daginn er að komin er af stað umræða meðal skólamanna um þessi mál. Stofnað var til ráðstefnu á Íslenska menntanetinu um þau og hvet ég alla sem áhuga hafa að taka þátt í umræðunni.

Höfundur er tölvunarfræðingur. Vistfang á Internet og Íslenska menntanetinu: mgnÊismennt.is