gið Fimm milljarðar á lausu Á verðbréfamarkaði hefur athyglin undanfarna daga mjög beinst að spariskírteinum ríkisins í flokknum 1.fl. D1989-5 ár sem koma til innlausnar í dag.

gið Fimm milljarðar á lausu Á verðbréfamarkaði hefur athyglin undanfarna daga mjög beinst að spariskírteinum ríkisins í flokknum 1.fl. D1989-5 ár sem koma til innlausnar í dag. Þetta er stærsta innlausn í manna minnum hjá ríkissjóði, samtals um fimm milljarðar króna, enda hefur Lánasýsla ríkisins lagt mikið kapp á að sannfæra eigendur þessara bréfa um að skynsamlegt sé að kaupa nú nýjan flokk spariskírteina sem boðinn var út á mánudag. Í útboðinu tókst að selja um 1,5 milljarða í spariskírteinum eða sem nemur um 30% af innlausnunum. Eigendum gömlu skírteinanna gefst einnig kostur á sérstökum skiptikjörum, þ.e.a.s meðalverði samþykktra tilboða frá því í útboðinu á mánudag. Þetta er um 5% ávöxtum auk verðtryggingar.

Sumir áttu reyndar von á því að ríkissjóður myndi reyna að þrýsta þessum kjörum ennþá neðar en raun ber vitni eða hugsanlega í 4,5%. Í þessu sambandi er bent á að ríkissjóður hafi verið að taka lán með 3,5% raunávöxtun í Bandaríkjunum nýlega og sömuleiðis hafi kaup Norræna fjárfestingarbankans á tveimur milljörðum í spariskírteinum styrkt vígstöðu Seðlabankans til að geta haldið áfram að keyra vextina niður. Vextir af spariskírteinum eru mikilvæg viðmiðun við kjör af innlánsreikningum bankanna með langtímasparnaði eins og t.d. Landsbók Landsbankans, Metbók Búnaðarbankans o.fl. þar sem þungi innlána liggur. Þessir reikningar þykja mjög næmir fyrir vöxtum á spariskírteinum þannig fólk hefur ríka tilhneigingu til að flytja fé af þessum reikningum yfir í spariskírteini ef vextirnir á þeim eru ekki samkeppnisfærir. Er bent á að núverandi kjör á spariskírteinum valdi bönkunum erfiðleikum að þessu leyti þar sem þeir hafa orðið að láta undan þrýstingi um miklar lækkanir á útlánsvöxtum undanfarið.

Ríkið ber ægishjálm yfir

aðra á verðbréfamarkaði

Innan verðbréfafyrirtækjanna hafa verið ýmsar vangaveltur uppi um hverjir séu eigendur fimm milljarðanna. Bent er á að þar sé án efa um að ræða bæði stærri stofnanafjárfesta, lífeyrissjóði, banka, tryggingafélög og einstaklinga svo eitthvað sé nefnt. Sú spurning stendur því eftir í hvaða farvegi fjármagnið muni leita á næstunni. Sum verðbréfafyrirtækin hafa upp á síðkastið haldið á lofti verðbréfasjóðum sínum í tengslum við innlausnirnar. Þessir sjóðir hafa reyndar farið hratt vaxandi að undanförnu enda hefur ávöxtun þeirra verið afar góð upp á síðkastið í framhaldi af miklum gengishagnaði vegna vaxtalækkana. Má ætla að einhver hluti fjárins renni í þessa sjóði. Það kemur reyndar ríkissjóði til góða því verðbréfasjóðirnir hafa í miklum mæli fjárfest í ríkistryggðum skuldabréfum. Í öðru lagi má ætla að einhverjir muni vilja setja fjármuni í skammtímaverðbréf, t.d. ríkisvíxla og ríkisbréf þar sem vextir af langtímaverðbréfum eru í sögulegu lágmarki. Í þriðja lagi kann lítill hluti fjárins að fara til útlanda í erlend verðbréf enda hafa íslenskir fjárfestar sýnt þeim möguleika vaxandi áhuga á þessu ári. Þetta eru væntanlega þeir sem eru nýjungagjarnir og vilja leita eftir nýjum og spennandi fjárfestingarkostum.

Loks er ekki loku fyrir það skotið að ný skuldabréf Iðnlánasjóðs hafi orðið fyrir valinu hjá einhverjum.

Þegar á heildina er litið má hins vegar ætla að fjármagnið sem losnar í dag muni að stærstum hluta með einum eða öðrum hætti skila sér aftur til ríkisins beint í nýjum eða eldri spariskírteinum, ríkisbréfum, ríkisvíxlum eða gegnum verðbréfasjóðina. Ríkið ber ægishjálm yfir aðra aðila á verðbréfamarkaðnum og fáir aðrir kostir eru núna í boði varðandi fjárfestingar í markaðsverðbréfum.

KB