Gautaborgaróperan Forseti Íslands í ráðgjafarnefnd VIGDÍS Finnbogadóttir, forseti Íslands, hefur fallist á að taka sæti í sérstakri ráðgjafarnefnd sem ákveðið hefur verið að koma á fót við Gautaborgaróperuna í Svíþjóð.

Gautaborgaróperan Forseti Íslands í ráðgjafarnefnd

VIGDÍS Finnbogadóttir, forseti Íslands, hefur fallist á að taka sæti í sérstakri ráðgjafarnefnd sem ákveðið hefur verið að koma á fót við Gautaborgaróperuna í Svíþjóð.

Að því er fram kemur í frétt Svenska Dagbladet hefur Per G. Gyllenhammar, fyrrum forstjóri Volvo, einnig þegið boð um að sitja í þessu nýja ráði Gautaborgaróperunnar, sem verður stjórn hennar til aðstoðar. Gunnar Stenmar, talsmaður stjórnarinnar, segir í samtali við Svenska Dagbladet að ráð þetta muni koma saman einu til tvisvar á ári hverju og fjalla um þróun og framtíð Gautaborgaróperunnar. Hann lætur þess getið að það sé mikið fagnaðarefni að forseti Íslands, hafi fallist á að taka sæti í ráðgjafarnefnd þessari. Vigdís Finnbogadóttir muni án efa efla starf ráðsins auk þess sem hún búi yfir langri reynslu á sviði leiklistar. Ennfremur sé stefnt að því að tveir til þrír þekktir listamenn taki sæti í ráðgjafarnefndinni.