Björn Ellertsson ­ Minning

Björn Ellertsson var kennari okkar þýskunema í málfræði og málvísindum við háskólann. Framkoma hans var frá byrjun látlaus og kumpánleg, en þó gneistaði af honum þegar hann lagði fram niðurstöður fyrsta skyndiprófs haustið 1979, var það þeim mun áhrifaríkara að við fundum að þar fóru saman varnaðarorð, hvatning og umhyggja í okkar garð. Stemmningin varð rafmögnuð meðan farið var í gegn um hinar óhjákvæmilegu fyrstu síur námsins og margir heltust úr lestinni eins og gengur. En fljótt varð hópurinn samrýndur og Björn var hrókur alls fagnaðar í góðra vina hópi.

Í kaffihléum var gjarnan rætt vítt og breitt um fjölbreytileg efni, jafnt um sanskrít og samanburðarmálfræði, sem um stefnur og strauma í málvísindum, og alltaf var Björn náma af fróðleik, opinn og áhugasamur. Ekki tók hann annað í mál en að borga fyrir allan hópinn þegar setið hafði verið á kaffihúsi. Þegar vorpróf nálguðust bauð hann okkur eins marga aukatíma í námsaðstöðu okkar í þýska bókasafninu og við nenntum að sitja, en það var ekki nóg, því hann kom líka með veitingar; þannig var Björn.

Kennsluna kryddaði hann gjarnan með léttri kímni um leið og hann dró fram mismunandi hugmyndir og sjónarmið, vildi láta okkur vega og meta sjálfstætt í stað þess að mata okkur. Hann sýndi okkur fram á að umfjöllunarefnið væri í deiglu frekar en fullmótað, víða væru lausir endar í fræðunum og spennandi verkefni fyrir okkur, þarna væri áhugavert verkefni til BA-prófs, en þarna annað viðameira, sem eitthvert okkar ætti ef til vill eftir að líta á síðar. Það var eins og hann vildi hefja okkur upp um leið og hann reyndi að taka fræðin ofan af stalli og færa þau nær okkur, svo við gætum ódeig fengist við þau. Þetta fór saman við virðingu og væntumþykju gagnvart okkur nemendum og var því ekki að sökum að spyrja að áhuginn glæddist.

Það er dýrmætt að hafa kynnst Birni, hann var umfram allt góður maður. Blessuð sé minning hans.

Gamlir nemendur.