Friðrik E. Möller ­ Minning

Fæddur 4. september 1914

Dáinn 1. febrúar 1994

Mig langar til að minnast með nokkrum orðum frænda míns, sem lauk lífsgöngu sinni fyrsta febrúar á áttugasta aldursári. Atvikin höguðu því svo að við Páll bróðir minn ólumst upp á heimili afa og ömmu, foreldra Friðriks, Eðvalds F. Möller kaupmanns og Pálínu Margrétar Jóhannesdóttur Möller, frá barnæsku til fullorðinsára í Þórunnarstræti 1 á Akureyri.

Friðrik Eðvald Möller var fæddur 4. september 1914 í Haganesvík í Skagafirði. Eðvald faðir hans var verslunarstjóri hjá Hinum sameinuðu íslenzku verzlunum og síðar kaupmaður á Akureyri. Eðvald var fæddur á Skagaströnd 1875 og andaðist á Akureyri árið 1960. Pálína, móðir Friðriks, var fædd á Brekku í Þingi árið 1871 og andaðist á Akureyri 1946.

Friðrik var yngstur fjögurra barna Pálínu og Eðvalds. Systur hans, Sigríður móðir mín og Ragnheiður, eru látnar fyrir allmörgum árum, en á lífi er Hanna Sigurlaug.

Friðrik heitinn var framúrskarandi námsmaður og menntabrautin blasti við honum. Hann var semidúx á stúdentsprófi á Akureyri 1934 og innritaðist við Kaupmannahafnarháskóla um haustið. Cand. phil-prófi lauk hann 1935 og hóf nám í lífeðlisfræði. Eftir tveggja ára nám fékk hann heilahimnubólgu. Heilsan brast og hann varð að hverfa frá námi heim til Íslands. Eins og klippt væri á þráð brustu framtíðarvonir ungs manns. Það var reiðarslag, og sorgin þungbær hjá fjölskyldunni heima. Friðrik náði sér aldrei. Eftir þetta var hann í umsjá annarra og fyrst móður sinnar og föður en mjög var kært með þeim mæðginunum. Pálína andaðist 1946 og var það mikill missir fyrir Friðrik. Hann fluttist þá til Reykjavíkur og átti heima fyrir sunnan alla tíð síðan. Eðvald faðir hans var orðinn rúmlega sjötugur og naut umhyggju Hönnu dóttur sinnar á Akureyri.

Friðrik bjó lengi á heimili Ragnheiðar systur sinnar á Langholtsvegi. Þar átti hann heimili og þar var hlynnt að honum. Ragnheiður var einstaklega ástúðleg og góð við bróður sinn alla tíð. Sama má segja um Hönnu systur hans sem fylgdist með honum og lét sér annt um hann. Friðrik bjó svo á vistheimilinu Bjargi, sem Hjálpræðisherinn rekur, frá 1968 til dauðadags.

Þegar ég kom í heimsókn að Bjargi til þess að heilsa upp á frænda settumst við niður í herberginu hans eða í sjónvarpsstofunni og ávallt var boðið upp á kaffi. Venja hefur verið á Bjargi árum saman að bjóða vinum og vandamönnum að koma í heimsókn í matsalinn og þiggja veitingar, kaffi, kökur og súkkulaði, spjalla og syngja saman. Friðrik naut þess mjög þegar farið var að syngja og var alltaf tilbúinn að segja til um hvaða ljóð hann vildi að sungið væri. Hann naut samverustundanna og hafði unun af söng.

Og meðan ævin endist,

eg elska söng og ljóð,

þótt annað allt um þrotni,

eg á þann dýra sjóð.

(Margrét Jónsdóttir) Frænda þótti vænt um heimsóknir mínar. Við ræddum gamla daga á Akureyri og minnugur var hann. Bækur urðu athvarf hans og veittu honum gleði og veraldarsýn. Það var alltaf stutt í bækur. Hann las kynstrin öll, mest fræðibækur og bækur á erlendum málum, einkum Norðurlandamálum.

Oft komu erlendir gestir að Bjargi og héldu erindi um trúmál. Friðrik var þá stundum fenginn til þess að túlka þann kristilega boðskap á íslensku. Hann trúði á guðlegan mátt sem rétta mundi hjálparhönd þegar dauðinn nálgaðist.

Í fyrra veiktist frændi af hvítblæði. Hann var á Borgarspítalanum en náði sér allvel og fór aftur heim að Bjargi. Hann sagði mér að hann vildi vera sem lengst á Bjargi og njóta þar aðhlynningar til dauðadags. Varð það svo.

Ég vil fyrir hönd frændfólks Friðriks flytja Erlingi forstöðumanni Bjargs, Rannveigu, Ingibjörgu, Óskari og öðru starfsfólki kærar þakkir fyrir vinsemd og góðvild í garð Friðriks.

Hvíl þú í friði, kæri frændi.

Olgeir Möller.