Friðrik E. Möller - viðbót

Friðrik fæddist hinn 4. september 1914 í Haganesvík í Skagafirði. Hann var sonur hjónanna Pálínu Margrétar Jóhannesdóttur, húsfreyju, og Eðvalds Eilert Möller verslunarstjóra. Ungur að árum flutti hann ásamt fjölskyldu sinni til Akureyrar.

Friðrik lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1934 með ágætiseinkunn og hugurinn stefndi til frekara náms. Hann innritaðist sama ár í Kaupmannahafnarháskóla, en hann hafði fengið styrk frá Dansk-islandsk forbundsfond til að stunda nám í Danmörku. Hann var cand. phil. þaðan 1935, en lagði síðan stund á nám í plöntulíffræði í tvö ár. Hann sneri þá aftur til Íslands og nam íslensku og norsku við Háskóla Íslands og seinna meir tók hann fyrst áfanga í læknisfræði. Veikindi komu í veg fyrir að Friðrik gæti haldið áfram námi en við þau átti hann að etja allt síðan. Friðrik var ákaflega víðlesinn og varði tíma sínum vel við lestur ýmissa fræðibóka og rita.

Hinn 29. maí 1968 var vistheimilið Bjarg opnað, en það er rekið af Hjálpræðishernum í samvinnu við Ríkisspítalann. Friðrik var á meðal þeirra sem fluttust þangað þann dag og var það heimili hans allt til dauðadags.

Kynni okkar, sem búum og störfum á Bjargi, af Friðriki, voru mjög góð. Sum okkar hafa þekkt hann í langan tíma og þá verða kynnin óneitanlega náin og aðskilnaðurinn erfiður. Tveir af heimilismönnum komu samtímis Friðriki á Bjarg fyrir tæpum 26 árum og tveir fyrir rúmum tuttugu árum. Þar á meðal er Ingólfur Aðalbjarnarson, herbergisfélagi og nánasti vinur Friðriks, sem eins og aðrir á Bjargi finnur sárt fyrir því skarði sem kom í hópinn við fráfall hans. Friðrik var ákaflega traustur og heill í öllu sínu hátterni. Hann var lítillátur og hógvær og auðsýndi öllu fólki virðingu og kurteisi.

Friðrik vitnaði gjarnan um að á Bjargi hafi hann eignast lifandi trú á Jesúm Krist. Hann hafði yndi af því að syngja sálma og taka þátt í helgiathöfnum. Okkur verður sérstaklega minnisstætt hve vel hann gat túlkað fyrir erlenda gesti sem komu á Bjarg og gilti þá einu hvort þeir töluðu norræn mál eða ensku.

Trú Friðriks var honum mikil stoð undir það síðasta, þegar hann háði hetjulega baráttu við þann illkynja sjúkdóm sem dró hann til dauða. Við erum fullviss um að trúin hans hefur heldur ekki brugðist þegar að dauðastundinni kom, heldur að sá Drottinn sem hann trúði á, hafi tekið á móti honum á himnum.

Við þökkum Guði fyrir líf Friðriks E. Möller, fyrir þá minningu sem við eigum um góðan félaga og fyrir þá fyrirmynd sem hann var okkur öllum.

Við biðjum Guð að blessa og styrkja alla ættingja og vini.

Heimilisfólk og starfsfólk

á Bjargi.