Ölvir Karlsson, fv.

oddviti, Þjórsártúni

Fæddur 1. febrúar 1915

Dáinn 24. september 1991

Snemma sumars 1943 var norðlenskur maðurí búferlahugleiðingum að skoða jarðir hér sunnanlands. Hann kom að Þjórsártúni. Þegar hann hafði staðið um stund þar sem tröppurnar eru á núverandi íbúðarhúsi og virt fyrir sér fjallabogann vestan frá Ingólfsfjalli og norður til fjallanna ofan byggðar í Árnesþingi mælti hann: "Ég þarf ekki að leita lengur. Hér vil ég eiga heima. Hér ætla ég að lifa og starfa." Þessi maður var Ölvir Karlsson fv. mjólkurbílstjóri á Þelamörk í Eyjafirði.

Það var svo um miðjan ágúst þetta sama sumar að hann flutti ásamt fjölskyldu sinni að Þjórsártúni. Þá hafði jörðin verið í eyði um skeið og öll hús staðið mannlaus. Aðkoman var því ekki uppörvandi: Þakið var fokið af fjóshlöðunni, þegar íbúðarhúsið var opnað voru rottur hlaupandi þar um öll gólf og í fyrstu rigningunni lak þakið hverjum dropa. Neysluvatnið varð að sækja í skjólum drjúgan spöl. Það var því ekkert undarlegt þótt flestir teldu að "þetta nýja fólk", "yrði aldrei lengi" í Þjórsártúni. Mörgum konum hefðu fallist hendur við slíka aðkomu en frúin hún Kristbjörg var nægjusöm.

Þar kom að öll hús voru endurbyggð í Þjórsártúni. Glæsilegt íbúðarhúsið sem blasir við þegar komið er austur að Þjórsá ber miklum stórhug vitni. Ræktun var aukin og búskapurinn blómgaðist. Og það var ekki síður að þakka henni Kristbjörgu. Það mætti ætla að það væri meira en nóg verk að starfa innanhúss þar sem níu manns voru í heimili þegar mest var. En Kristbjörg var slíkur dugnaðarforkur, að hún gekk í mörg störf utanhúss. Mjög mæddi á henni í þessum efnum þegar bóndi hennar var langtímum fjarverandi vegna hinna ýmsu félagsmálastarfa. Börnin urðu og snemma liðtæk við heimilisstörfin.

Ölvir var kjörinn í hreppsnefnd Ásahrepps árið 1954 og oddviti fjórum árum síðar. Því starfi gegndi hann í 32 ár. Í hreppsnefndinni varð mönnum ljóst að Ölvir var á réttum "vígvelli". Hann var mikill félagsmálamaður, greindi vel meginatriði hvers máls frá aukaatriðum, var gætinn í ákvarðanatöku en stefndi hins vegar fast að settu marki þegar ákvarðanir höfðu verið teknar. Honum voru sífellt falin fleiri og ábyrgðarmeiri trúnaðarstörf. Hann sat í stjórn eftirtalinna félaga og stofnana: fræðsluráði Suðurlands, Jarðefnaiðnaði hf., Eldbergi hf, Iðnþróunarsjóði Suðurlands, skólanefnd Skálholtsskóla, Lánasjóði sveitarfélaga, fiskeldisstöðinni í Fellsmúla, Veiðifélagi Þjórsár, Veiðifélagi Holtamannaafréttar, Kaupfélagi Rangæinga, Mjólkurbúi Flóamanna, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (um árabil sem formaður) og í Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Auk þess sat hann í fjölda nefnda á vegum sveitarfélaga og ríkis.

Hann var í skólanefnd Laugalandsskóla. Árið 1972 réðst ég að Laugalandi sem skólastjóri. Frá þeim tíma og um átta ára skeið áttum við gott og náið samstarf um málefni skólans. Fljótlega áttaði ég mig á því hversu mikill yfirburðamaður Ölvir var: Hann gjörþekkti öll lög skólamálanna út í hörgul og tilheyrandi reglugerðir enda hafði hann sjálfur tekið þátt í að semja lögin og reglugerðirnar. Hann var afskaplega hreinskiptinn maður og aldrei heyrði ég hann baktala nokkurn mann. Ef honum þótti eitthvað miður fara, þá sagði hann það fyrir "opnum tjöldum" og á "tungumáli" sem skildist. Það þurfti engan túlk til að útskýra hvað hann átti við.

Hann lét sig miklu varða málefni skólans og strax haustið 1972 hafði hann uppi hugmyndir um framkvæmdir á Laugalandi. Ekki voru allir ginnkeyptir fyrir því í upphafi og allt þarf sinn tíma. Fyrst voru málin rædd óformlega, - síðar á fundum, - arkitekt var ráðinn, - teikningar lagðar fram, - málin enn rædd, - teikningum breytt. Og þannig þokuðust málin áfram. Ég man að Ölvir varð glaður þegar endanlegar teikningar höfðu verið samþykktar og framkvæmdir ákveðnar. Svo var það hann, sem gjörþekkti "kerfið" og vissi nákvæmlega hvaða leiðir ætti að fara til þess að fá þetta mannvirki samþykkt á æðri stöðum. Sumir telja að þær miklu byggingar sem nú eru á Laugalandi ("Menningarmiðstöðin") væru betur komnar annars staðar, svo þær gætu þjónað stærra svæði. Ekki legg ég dóm á slíkt. En vegir atburðakeðjunnar eru margslungnir: Hefði Ölvir Karlsson ekki sest að í skólahéraði Laugalands, þá hefðu þar engar framkvæmdir hafist vorið 1981. Hann einn átti hugmyndina og hann náði að vinna þeim hugmyndum fylgi þeirra sem til þurfti. Þó eru ekki enn allar hugmyndir hans þar orðnar að veruleika, því fyrir 21 ári talaði hann um nýja sundlaug og sánaböð.

Þegar Ölvir flytur að Þjórsártúni hafði hann skipað sér í raðir Framsóknarflokksins. Það vekur furðu mína það dómgreindarleysi forystumanna framsóknar í Suðurlandskjördæmi að þeir skyldu aldrei velja hann til að skipa eitthvert af tveimur ­ þremur efstu sætum listans í kjördæminu. Hann var þannig staðsettur að Árnesingar ekki síður en Rangæingar hefðu litið á hann sem sinn þingmann. Ég þekki fólk bæði í uppsveitum Árnessýslu og þéttbýli Þorlákshafnar sem hefði fylgt Ölvi persónulega í kosningum, þótt það hafi að öðru leyti fremur talið sig til annarra stjórnmálaflokka. Ég held að þarna hafi framsóknarmenn verið sjálfum sér verstir hvað kosningafylgi snertir og öðrum slæmir líka, því Ölvir hefði orðið afskaplega notadrjúgur þingmaður, ekki aðeins fyrir dreifbýlið heldur líka fyrir fólkið í þéttbýli Árnessýslu. Ég minnist þess hvernig þessi stillti maður hækkaði röddina og fór að tala örar þegar hann ræddi um væntanlega framtíðarþróun byggðakjarnanna vestast í Árnessýslu.

Ölvir var fæddur á Tyrfingsstöðum í Akrahreppi í Skagafirði. Hann stundaði nám í tvo vetur við héraðsskólann á Laugum og síðan einn vetur við Lýðháskólann í Askov í Danmörku. Um sumarið vann hann svo á dönskum búgarði. Þetta nám og starf nýttist honum vel, síðar á lífsleiðinni. Ölvir var sonur Karls Júlíusar b. að Vöglum, Eyjafirði, f. 1890, Hallgrímssonar í Siglufirði og b. á Minna-Hofi á Höfðaströnd f. 1861, Jónssonar á Nausti f. 1819, Hallgrímssonar b. víða í Skagafirði f. 1787, Jónssonar á Lómatjörn f. 1737, Sigurðssonar á Ljótsstöðum S-Þing. Guðbrandssonar, Jónssonar.

Kristbjörg kona Ölvis var fædd 10. september 1917 að Ábæ í Austurdal í Skagafirði. Faðir hennar Hrólfur b. að Ábæ f. 1886 var sonur Þorsteins Lárusar b. á Skatastöðum f. 1860, Sigurðssonar í Gilhagaseli f. 1819, Sigurðssonar í Laxárdal, Hún. f. 1790, Þorleifssonar b. Stóru-Mörk, Hún. f. 1760, Þorleifssonar. Móðir Hrólfs í Ábæ var Ingibjörg Guðríður f. 1859, dóttir Guðmundar á Hömrum í Skagafirði. Móðir Guðmundar á Hömrum var Ingibjörg dóttir Hrólfs að Grófargili f. 1734, Þorsteinssonar á Álfgeirsvöllum f. 1701, Hrólfssonar b. sst. f. 1654, Þorsteinssonar lögréttumanns sst. f. 1616, Bjarnasonar b. sst. f. 1566, Hrólfssonar hins sterka sem kunnur er úr þjóðsögum.

Börn Ölvis og Kristbjargar eru sem hér segir: 1) Valgerður starfsmaður hjá Glettingi og húsfr. Þorlákshöfn. M: Gunnar H. Snorrason frá Vogsósum. 2) Lilja b. Grafarbakka, Hrun. M: Emil Rafn Kristófersson. 3) Kristjana Ingibjörg starfsm. á bæjarskrifstofu Seltjarnarness. M: Jón Ármann Sigurðsson starfsmaður hjá Plasos. 4) Karl b. Þjórsártúni. M: Jóhanna B. Hilmarsdóttir. 5) Guðrún Gyða hjúkrunarfræðingur á Blönduósi. M 1: Geir Þórðarson, bankamaður. M 2: Guðmundur Unnar Agnarsson meinatæknir. 6) Hrólfur fv. framkvæmdastjóri Tímans, Rvík. M: Irma Sjöfn Óskarsdóttir aðstoðarprestur í Seljasókn.

Hina síðustu mánuði fyrir andlát sitt var Ölvir veikur maður. Ég kom þá að Þjórsártúni. Kannske sá ég þá fyrst hvað hún Kristbjörg er mikil manneskja. Þegar Ölvir - vegna veikinda sinna - fór með rangt mál, svaraði hún aðeins: "Heldurðu það, Ölvir minn, sagði hann Jónas okkur ekki í gær að . . ." Og þegar hann hélt áfram sinni skoðun voru engar þrætur frá hennar hendi, því þarna umgekkst hún veikan maka sinn með mildi og nærgætni.

Ölvir var meðalmaður á hæð og fremur þrekvaxinn. Eftir því var tekið hversu snyrtilega hann var klæddur og vel til fara. Hann var alvarlegur í yfirbragði, stilltur og yfirvegaður. Þó gat hann gefið mönnum þunga "ráðningu" ef honum var misboðið. Hann var athugull, glöggur og bjó yfir góðri dómgreind. Hann var mjög fær og hæfur embættismaður og hafði glögga sýn yfir þá málaflokka sem hann hafði til umfjöllunar. Hann vildi mönnum vel og lagði sig fram um að mál leystust farsællega. Þó var hann mikill málafylgjumaður fyrir sveit sína og hagsmuni stéttar sinnar.

Þessi síðbúnu eftirmæli eru þakklæti fyrir samstarfið og fyrir það sem ég tel mig hafa af Ölvi lært.

Gunnar Guðmundsson

frá Heiðarbrún.