Björn Ellertsson

Minningarorð

Björns Ellertssonar verður lengi minnst fyrir mannkosti. Hann var hæfileikaríkur drengskaparmaður, hlýr og óeigingjarn og mun verða sárt saknað.

Kunningsskapur okkar hófst í Los Angeles árið 1989 og snerist upp í vináttu sem ég met mikils og þakka. Margt hafði ég heyrt um Björn, manninn sem gæti töfrað fram heilar orðabækur á tölvu og lægi flest í augum uppi. Þetta voru goðsagnir nánast því að fæstir vissu fyrir víst hvað Björn var að gera enda kom í ljós við kynni að hann var manna hógværastur og lítillátastur. En orðabók samdi hann, íslensk-þýska, sem núna er komin fyrir augu almennings og hitt var líka rétt, honum virtist liggja flest í augum uppi.

Við Björn dvöldumst samtímis í Los Angeles á fyrri hluta síðastliðins árs og ég naut gestrisni hans og greiðvikni sem hvorug átti sér nein takmörk. Aldrei þreyttist hann á að aka mér um þvera og endilanga borgina til að sýna mér eitthvað forvitnilegt, venjulega utan ferðamannaslóða. Bandarískir Íslandsvinir sögðu að Björn þekkti þessa borg flestum betur og væri manna best að sér um bandarískt þjóðlíf og menningu. Björn neitaði þessu þegar og hló sínum hvella og smitandi hlátri, sagðist ekki þekkja neina Bandaríkjamenn, aðeins útlendinga í Los Angeles. Þetta voru dæmigerð viðbrögð Björns.

Allt vildi Björn fyrir mig gera og öll vandamál leysa, fyrirhyggja hans og natni voru einstök. Mér fannst hann hugsa meira um minn hag en eigin hag og hef sjaldan kynnst öðru eins. Ég umgekkst líka stórvinkonur hans, Siggu og Hafdísi, sem voru mér afar elskulegar af því að þeim fannst svo undurvænt um Bjössa.

Björn var ekki aðeins örlátur að sýna mér Los Angeles, hann fór líka með mig til Mexíkó, hafði dvalist við spænskunám þar í landi, enda fengið áhuga á mexíkósku þjóðlífi. Nú vildi hann deila þessu áhugamáli með mér. Ég spurði hvort ekki væri ráð að koma við í bandarísku borginni San Diego í leiðinni, væri víst svo fallegt þar. Björn sagði að það væri svo sem sjálfsagt en bætti við um borgina: "Hún er svona eins og Hótel Saga." Mér fannst þá ekki mikil ástæða til að fara þangað og það var ekki rætt frekar.

Mexíkó var furðuleg og framandi, á örfáum mínútum hurfum við frá Bandaríkjunum inn í þriðja heiminn. Björn var lærimeistari minn í mexíkósku þjóðlífi og spænskri tungu. Hann lét mig m.a. spreyta mig á að skilja texta skilta, t.d. leiðbeiningar til ökumanna og örnefni. Ég greip til takmarkaðrar latínukunnáttu og Björn beindi mér inn á réttar brautir þegar skilningurinn vaknaði seint. Í þessari skemmtun hans birtust hinn næmi málamaður og natni kennari. Á kvöldin sátum við á mexíkóskum veitingastöðum og fróðleiksfús og lífsþyrstur heimsborgari kynnti fyrir mér þarlenda rétti og drykki. Þegar leið á kvöld spjölluðum við mest um íslenska tungu, kannski skrýtnar beygingar og þversagnir, uppruna orða og skemmtilegar skýringar. Aldrei töluðum við um að hann ætti ekki langt eftir ólifað og aldrei sýndi hann nein merki þess að hann væri að ferðast um sína kæru Mexíkó í síðasta sinn. Slíkur var styrkur hans og æðruleysi.

Björn sóttist hvorki eftir virðingum né jarðneskum eigum. Honum var margt ríkulega gefið og hann naut hæfileika sinna. Hann var vinnusamur og kappsamur í því sem hann tók sér fyrir hendur, sökkti sér niður í fræðileg viðfangsefni af ástríðu. Margþætt áhugamál hans, líka utan fræðanna, sýna að það var enginn lífsflótti, hann lifði auðugu lífi.

Öllum aðstandendum Björns sendi ég hugheilar samúðarkveðjur.

Helgi Þorláksson.