Frímann Sigmundur Þorkelsson fæddist að Sveinagörðum í Grímsey 13. september 1917. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi, Garði, 6. október síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Þorkell Árnason, útvegsbóndi Neðri-Sandvík og organisti í Grímsey í fjörutíu ár, f. 18.8. 1878, d. 28.6. 1941, sonur Árna Þorkelssonar merkisbónda sem ættaður var frá Núpum Aðaldal, og kona hans Hólmfríður Ólafía Guðmundsdóttir, f. 10.6. 1878, d. 3.6. 1969, dóttir Guðmundar Ásgrímssonar, bónda á Staðarhóli við Siglufjörð. Frímann var yngstur af 7 systkinum. Systkini Frímanns voru: 1) Kristjana Jóna, f. 9.1. 1900, d. 28.11. 1992, 2) Guðrún Dýrleif, f. 17.6. 1902, d. 30.4. 1997, 3) Hólmfríður Selma, f. 29.5. 1904, d. 14.5. 1958, 4) Árni, f. 6.10. 1907, d. 27.10. 1950, 5) Guðvarður Finnur, f. 23.7. 1910, d. 28.3. 1982, og 6) Björn Friðgeir, f. 9.5. 1913, d. 9.2. 1981.
Hinn 12. nóv. 1940 kvæntist Frímann, Ósk Þórhallsdóttur frá Bakka í Viðvíkursveit í Skagafirði, f. 20.5. 1918, d. 17.5. 2004. Foreldrar hennar voru Björn Þórhallur Ástvaldsson bóndi, f. á Á í Unudal í Skagafirði 6.11. 1893, d. 30.9. 1962 og kona hans Helga Friðbjarnardóttir húsfreyja, f. í Brekkukoti ytra í Blönduhlíð í Skagafirði 7.12. 1892, d. 20.4. 1986. Frímann og Ósk eignuðust sex börn. Þau eru: 1) Helga Hólmfríður, f. 9.7. 1940, maki Hjalti Sigurðsson. 2) Þórhallur Þorkell, f. 23.10. 1942, maki Gréta Björk Jóhannesdóttir. 3) Dýrleif Eydís, f. 18.12. 1946, maki Gísli Steinar Eiríksson. 4) Anna, f. 16.3. 1948, maki Hartmann Óskarsson. 5) Ægir, f. 9. 1. 1952, maki Valdís S. Sigurbjörnsdóttir. 6) Kristjana Björg, f. 7.7. 1953, maki Bjarni Halldórsson. Uppeldissonur Frímanns var Þorkell Árnason, f. 20.7. 1944, d. 7.5. 2002. Afkomendur eru nú um 80.
Frímann ólst upp að Sjálandi í Grímsey. Þar stundaði hann sjómennsku frá 17 ára aldri. Þá varð hann útvegsbóndi að Básum í Grímsey frá 1938, uns hann flutti með fjölskyldu sína að Ártúnum við Hofsós 1946. Þar stundaði hann búskap, sjómennsku og fór á vertíðar í 15 ár. Frímann flutti þá suður í Garð, Gerðahreppi, 1961 og hóf störf hjá blikksmiðju Íslenskra aðalverktaka á Keflavíkurflugvelli. Þar starfaði hann næstu áratugina, þar til að hann lét af störfum vegna aldurs.
Útför Frímanns verður gerð frá Útskálakirkju í Garði í dag og hefst athöfnin klukkan 15.
Guðleg elska, guðleg náð
gætir barna sinna,
hans er vilja rækja ráð
rétta leið þau finna.
(Árni Þorkelsson Grímsey.)
Í dag er elskulegur faðir minn til moldar borinn eftir að hafa dvalið um 4 ár á hjúkrunarheimilinu Garðvangi Garði. Þar bjó hann við gott atlæti og umönnun góðs fólks og vil ég þakka fyrir það. Síðustu mánuðina var hann rúmliggjandi. Það smádró af honum þar til hann lést aðfaranótt 6. október. Við systkinin og makar umvöfðum hann kærleika og ást allt til leiðarloka. Örlagavefur okkar er margslunginn af leikni, ofinn gleði og sorg, ljósi og skugga. Þessa nótt var rok og rigning og eins og kraftur himins endurspeglaði líf manns og átök hans við dauðann.
Það er alltaf sárt að kveðja elskulegan föður. Það koma svo ótal margar minningar upp í hugann. Það er svo mikils virði fyrir börn að alast upp við ástríki foreldra. Í Ártúnum við Hofsós þar sem við systkinin sex talsins ólumst upp, tókum við þátt í öllu, jafnt sorg sem gleði. Þegar við stækkuðum og urðum fullorðin varst þú ætíð til staðar pabbi minn og veittir okkur kærleika og ást.
Pabbi og mamma ólu einnig upp bróðurson pabba frá 6 ára aldri. Móðir pabba var líka hjá okkur allan búskap þeirra, og man ég aldrei eftir öðru en að kærleikur og hlýja ríkti á heimilinu. Oft var mikið að gera, enda margir munnar að metta. Pabbi var jafnvígur á sjó og landi enda hraustur og duglegur alla tíð. Aldrei man ég eftir að honum yrði misdægurt. Stundum gaf hann sér þó tíma til að leika við okkur í slagbolta eða fallin spýta. Þá var hann jafningi okkar, skemmtilegur og mikill prakkari.
Pabbi og mamma voru ákaflega samhent og ekki hægt að tala um annað nema minnast hins. Sem dæmi var ég einu sinni búin að leggja hárið á mömmu og hún labbaði til pabba sem ljómaði allur þegar hann sá hana, knúsaði hana og sagði svo: „Get ég fengið alla dansana á kortinu þínu í kvöld, fallega konan mín?“ Svona var ástin þeirra.
Börnin okkar og barnabörn hafa einnig notið ástríkis þíns og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig svona lengi hjá okkur. Ég gæti endalaust haldið áfram, þær eru svo margar minningarnar sem renna gegnum huga og hjarta mitt.
Nú leiðist þið elsku pabbi og mamma, gömlu hjónin frá Kárastöðum, um guðs ríki eins og þið leiddust hvern morgun í gegnum allt lífið.
Ég elska þig pabbi minn og minnist þín sem góðs og göfugs föður.
Þín dóttir,
Dýrleif Eydís Frímannsdóttir.
Englar guðs þér yfir vaki og verndi, pabbi minn.Vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér,því hamingjuna áttum við með þér.
Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú.Þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund
og gaman var að koma á þinn fund.
Með englum guðs nú leikur þú og lítur okkur til.Nú laus úr viðjum þjáningar að fara það ég skil.Og þegar geislar sólar um gluggann skína innþá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.
Vertu góðum guði falinn er hverfur þú á braut,
gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunautog ferðirnar sem fórum við um landið út og inner fjársjóðurinn okkar, pabbi minn.
(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)
Ástarkveðjur,
Dýrleif og Gísli.
Börnum mínum og barnabörnum varstu alltaf mjög góður og þótti þeim afskaplega vænt um afa sinn. Á jóladag voru þið mamma alltaf hjá okkur hjónum, og verður ykkar sárt saknað um næstu jól. Þær eru ófáar stundirnar sem við höfum átt saman eftir að þú varst einn, ég kom til þín á hverjum degi, ef ég var heima við. Þá var alltaf spurt um allt og alla, hvernig er veðrið og hvernig hafa krakkarnir það og svo framvegis. Og meðan við bræðurnir stunduðum sjóinn, þá varst þú alltaf að fylgjast með og fá upplýsingar um hvernig fiskaðist. Hringdir í okkur út á sjó til að fylgjast með strákunum þínum. Eins er við hjónin vorum uppi í sumarbústað þá hringdir þú alltaf í okkur til að vita hvernig við hefðum það og hvernig veðrið væri. Þú hafðir því miður ekki getu til þess að hringja í okkur síðustu mánuðina, eða eftir að þú brotnaðir. Þú vildir fylgjast með öllu, sérstaklega eftir að sjónin og heyrnin voru farin að gefa sig. Hvíl í friði, elsku pabbi.
Þinn sonur,
Ægir.
Þú varst orðinn svo þreyttur og varst alveg tilbúin að kveðja þennan veraldlega heim. Þó söknuðurinn sé mikill hjá okkur sem horfum á eftir yndislegum, pabba, tengdapabba, afa, langafa og langalangafa, þá vitum við nú að þér líður betur. Stríðinn varst þú, það er engin spurning, hafðir mjög gaman að stríða, en það var bara góðlátleg stríðni. Og þú naust þess svo sannarlega að hafa barnabörnin og barnabarnabörnin í kringum þig. Þeim þótti svo vænt um þig.
Við áttum margar yndislegar stundir saman. Og þið tengdamamma komuð öll okkar búskaparár í mat á jóladag, það bara tilheyrði jólunum. Þannig að næstu jól verða hálf tómleg, fyrst vantaði tengdamömmu síðan mömmu og svo nú þig. Þú talaðir alltaf um að þér þætti svo gott að koma til okkar, en okkur þótti líka svo gott að fá þig.
Það er margs að minnast, og eru þær minningar í hjarta mínu. Þú varst mjög næmur eftir að árin gengu yfir, þú vissir t.d. alltaf er Ægir kom í heimsókn, því að drengurinn okkar sem við misstum kom alltaf til þín á undan. Þú lýstir honum sem ljóshærðum hnokka, sem kæmi alltaf á undan pabba sínum. Nú tekur þessi litli drengur á móti afa sínum opnum örmum við hlið ömmu sinnar, og þið haldið utan um hann fyrir mig.
Elsku Frímann, ég kveð að sinni. Hvíl í friði.
Þín tengdadóttir,
Valdís Sigríður.
Liljur og rósir
þær skreyta þitt beð
með þeim er barrtré
sem blómstrar þar með
Allt er svo litríkt
svona rétt eins og þú
því beðið er líf þitt
en því lokið er nú
Nú amma er hjá þér
og þið saman á ný
um litfagra dali
hönd í hönd haldið í
Ég bið bara að heilsa
því lítið annað get gert
vona að líf þitt á himnum
verði yndislegt
– Ég elska þig, afi minn!
(Clara Regína)
Ástarkveðja,
Frímann Þór, Fríða,
Daníel Ómar, Bjarki Þór og Andrea Ósk.
Þegar æviröðull rennur,
rökkvar fyrir sjónum þér,
hræðstu eigi, hel er fortjald,
hinumegin birtan er.
Höndin, sem þig hingað leiddi,
himins til þig aftur ber.
Drottinn elskar, Drottinn vakir
daga og nætur yfir þér.
(Sig. Kr. Pétursson.)
Ég var á sjötta ári þegar við mamma fluttum til ykkar ömmu í Garðinn. Ég var lítil stelputítla og mjög óörugg með lífið og tilveruna. En eftir að við fluttum til ykkar breyttist allt og framtíðin varð bjartari og fallegri. Þú varst afi af guðs náð, alltaf með bros á vör og tilbúinn að svara öllum mögulegum og ómuglegum spurningum.. Það var ótrúlegt hvað þú varst þolinmóður og hafðir alltaf svör á reiðum höndum. En þannig varstu gerður, traustur, trúr og alltaf til staðar.
Afi var glaðvær, skemmtilegur og stundum stríðinn. Við barnabörnin vorum fljót að sjá við stríðninni og áttum það til að hrekkja þegar þú dottaðir yfir fréttunum í sjónvarpinu. Þá földum við okkur einhvers staðar í stofunni og biðum eftir því að þú sofnaðir. Þá skreið eitthvert okkar undir hægindastólinn og kitlaði þig undir iljarnar og ekki stóð á viðbrögðunum. Þú kipptist til, en aldrei vorum við skömmuð fyrir uppátækin.
Alltaf var gott að koma í heimsókn til þín og ömmu á Kárastaði enda réð ást hlýja og virðing þar ríkjum. Móttökurnar hjá ykkur voru alltaf yndislegar, líka eftir að þið fluttuð á Garðvang. En stuttu eftir flutninginn þangað dó amma og þú saknaðir hennar mjög mikið. Það er ekki auðvelt að kveðja þann sem maður elskar. Það var bjargföst trú þín að amma biði þín fyrir handan og tæki á móti þér þegar kallið kæmi. Ég er sannfærð um að svo sé, að núna séuð þið sameinuð á ný.
Elsku afi, minning þín mun ávallt lifa í hjarta mér.
María Ósk.
Nú ertu dáinn elsku afi minn.
Ástúð þín ei gleymist nokkurt sinn.
Það var svo ljúft að halla höfði að kinn
og hjúfra sig í milda faðminn þinn.
(Þ.G.)
Elsku afi, það er svo sárt að þurfa að kveðja þig en allar þær minningar um þig og þær sem við áttum með þér munu aldrei hverfa. Þær munu alltaf sitja fastar í hjörtum okkar.
Alltaf var stutt í prakkarann og knúsið frá þér og þú áttir svo gott með að fá alla til þess að brosa og líða vel í kringum þig. Þannig munum við og fjölskyldur okkar alltaf muna eftir þér.
Það var alltaf jafn yndislegt að koma í heimsókn til þín hvort sem það var á Kárastaði eða Garðvang. Þú tókst alltaf svo vel á móti okkur og lumaðir alltaf á einhverju góðgæti í kommóðunni. Hlýlegri móttökur er ekki hægt að finna.
En nú vitum við að þér líður loksins vel og þú ert kominn til ömmu, tvær fallegar sálir búnar að sameinast á ný.
Megi guð og allir hans englar vernda þig í himnaríki
Ástar- og saknaðarkveðjur,
Kristín, Steinunn Lilja
og Gísli Árni.
Alltaf var gott að koma til þín á Garðvang, ég fylltist alltaf einhverri ró eftir að vera hjá þér, og börnin mín elskuðu að koma til langafa síns, þó sérstaklega hún Lovísa Bríet sem ávallt hélt í hönd þína þegar hún kom, hún söng stundum fyrir þig hin ýmsu lög og alltaf brostirðu út að eyrum, þó svo að þú hefðir ekki heyrt allt sem hún sagði. Oft sagðir þú okkur hinar ýmsu vísur og var alveg ótrúlegt hvað þú mundir þær allar vel.
Mín fyrsta minning um þig og ömmu er á Kárastöðum. Þær minningar eru ófáar og góðar. Ætíð var ég velkomin til ykkar og alltaf var jafn gott að koma til ykkar, ávallt var bakkelsi á borðum, kleinur, ástarpungar og partar sem amma hafði bakað. Þetta var það besta sem maður fékk. Þið voruð alltaf svo yndisleg í alla staði og samheldin, löbbuðuð um Garðinn hönd í hönd, fólk dáðist alltaf að því hve samheldin þið hjónin voruð. Þegar ég hugsa til ykkar ömmu þá sé ég ávallt fyrir mér ykkur leiðast hönd í hönd. Þið voruð eins og ég sagði áður samheldin og góð hjón.
Elsku afi, þakka þér fyrir að hafa verið þáttur í mínu lífi. Þú og amma eigið ávallt stóran stað í mínu hjarta. Ég kveð þig nú með söknuð í mínu hjarta, veit ég þó að núna ertu komin á betri stað og ert loks á ný hjá henni ömmu. Kæri afi. Guð geymi þig, takk fyrir að hafa verið partur af mínu lífi.
Þín sonardóttir
Hafrún.
Garðurinn við Kárastaði er stór og í honum var mikið farið í leiki svo sem einakrónu, tvítví , fallna spýtu og feluleik. Fyrir ofan Kárastaði er stór mói sem við fórum oft að tína ber í, þar voru einnig amma og afi með kartöflugarð eða „jarðepli“ eins og amma sagði alltaf.
Afi fór oft í sjómann við okkur barnabörnin sín og leyfði hann okkur oft að vinna. Hann var mikið fyrir talstöðvar og allt sem að því snerist, á heimili hans og ömmu inní borðstofu voru talstöðvargræjurnar hans afa, ég fékk oft að prufa að fikta í þeim og kalla á aðra sem voru með talstöðvar, þetta fannst mér æði. Alltaf er maður kom í heimsókn til þín og ömmu þá voru kræsingar bornar fram, svo sem kleinur, heitir ástarpungar, smurt brauð, grjónagrautur með rúsínum eða hafragrautur, eitt var víst, að alltaf var nóg til af öllu. Vatnið hjá ykkur ömmu var ávallt það besta og lagði ég á mig að fara krókaleið bara til þess eins að ná mér í vatnssopa er ég var úti að leika mér.
Á annan í jólum var alltaf matarboð hjá ykkur ömmu, þar sem öll systkinin og barnabörnin hittust. Það var alltaf mikið fjör þann dag, við eldri frændsystkinin brölluðum margt saman þennan dag. Við földum okkur stundum í köldu kompunni hennar ömmu til að vera laus við litlu krakkana, í þeirri kompu geymdi amma kartöflur, tólg og fleira. Stundum földum við fjögur sem erum jafn gömul okkur inni í litlum fataskáp til að fá frið og sögðum hvert öðru leyndarmál. Stundum fórum við einnig alveg efst í stigann alveg undir hlerann og pískruðum okkar á milli.
Það var einnig alltaf tekið slátur á Kárastöðum og þá fékk ég að sauma keppi, allt var þetta svo gaman. Amma færði okkur alltaf brjóstsykur, hvítan og rauðan, uppáhaldið mitt, kónga, fylltan og svo var það auðvitað alltaf kandísinn.
Amma og afi löbbuðu mikið í seinni tíð og héldust alltaf hönd í hönd, þau sátu gjarnan úti á litla sólpallinum sínum og nutu sólarinnar. Ég á ótal fleiri minningar um ykkur ömmu sem ég geymi í hjarta mínu um ókomna tíð. Afi, núna ertu komin til hennar ömmu og nýtur hinstu hvíldar. Ég mun sakna þín sárt, en er ég hugsa til þín man ég allar þær yndislegu stundir er ég átti með ykkur á Kárastöðum.
Guð geymi þig.
Þín sonardóttir,
Mona Erla.
Þórhallur, Þorkell og Arnar Björnssynir.