Óskar Þórir Guðmundsson fæddist 8. júlí 1920. Hann andaðist á Droplaugarstöðum fimmtudaginn 25. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðmundur Guðmundsson sjómaður, f. 7. nóvember 1885, d. 14. október 1921, og Guðlaug Jónsdóttir húsfreyja, f. 12. janúar 1887, d. 2. desember 1975. Systkini Óskars voru: Elín, f. 16. júlí 1912, d. 12. júní 2003, Steinunn, f. 9. júlí 1915, d. 28. apríl 1936; Guðrún, f. 23. desember 1916, d. 2. maí 2008; Þórunn, f. 7. júlí 1918, d. 8. september 2005; og Guðmundur, f. 29. apríl 1922, d. 21. apríl 2006. Systur sammæðra: Sigrún Lárusdóttir, f. 9. september 1910, d. 2. febrúar 1977, og Þórdís Jóna Sigurðardóttir, f. 15. október 1926.

Óskar kvæntist 24. nóvember 1942 Jónu Guðbjörgu Guðmundsdóttur, f. 13.12. 1920, d. 21.7. 2002. Þau skildu. Sonur þeirra er Sölvi Óskarsson, f. 15.8. 1942, maki Oddný J. Eyjólfsdóttir, f. 8.12. 1946, sonur þeirra er Óskar, f. 19.2. 1979, unnusta Katrín Sif Stefánsdóttir, f. 2.10. 1979. Önnur eiginkona Óskars var Lissi Gudmundsson, f. 11.3. 1930, d. 1993. Þau skildu. Sonur þeirra er Ragnar Óskar Stefán Gudmundsson, f. 17.4. 1948. Búsettur í Danmörku. Börn hans og Bodil Gudmundsson, f. 8.8. 1948, eru: a) Marianne Gudmundsson, f. 29.1. 1970, dóttir hennar Rebecca, f. 12.12. 1994, b) Stefan Gudmundsson, f. 1.3. 1971, Börn hans Rikke Gudmundsson, f. 16.3. 1994 og Lucas Gudmundsson, f. 8.10. 2002, c) Renata Gudmundsson, f. 27.1. 1972. Sonur hennar Oliver, f. 17.12. 1995. d) Jeanette Gudmundsson, f. 4.3. 1974. Sonur hennar Frederik, f. 7.2. 2007. e) Ragnar Gudmundsson, f. 26.2. 1974. Börn hans Pernille Camilla Gudmundsson, f. 24.4. 1994, Katrine Camilla Gudmundsson, f. 13.4. 1995, Nikolaj Ragnar Gudmundsson, f. 17.11. 1997, og Yasmin Camilla Gudmundsson, f. 5.11. 2003. f) Gudmundur Gudmundsson, f. 28.12. 1976. Dóttir hans Isabella Gudmundsson, f. 20.5. 2007. g) Christina Gudmundsson, f. 12.4. 1977. h) Atli Gudmundsson, f. 28.7. 1980 Börn hans Nicole Gudmundsson, f. 17.9. 2000, Attila Gudmundsson, f. 26.7. 2003, og Filluca Gudmundsson, f. 16.9. 2008. Þriðja eiginkona Óskars var Erla Vídalín Helgadóttir, f. 11.9. 1928, d. 1999. Þau skildu. Dóttir þeirra er Ragnheiður, f. 14.2. 1957, maki, Hallgrímur Thorsteinsson, f. 14.9. 1955. Börn þeirra: a) Ásta Ólafsdóttir, f. 16.5. 1979, maki Jónas Rafn Bjarkason. Börn hennar Erla Rós Bjarkadóttir, f. 2.8. 2000, og Kristófer Bergmann Jónasson, f. 13.2. 2007. b) Hildigunnur H. Thorsteinsson, f. 16.2. 1980. c) Victor Pétur Ólafsson, f. 27.4. 1983. Dóttir hans Björk Dögun, f. 10.7. 2005. d) Vera Elísabet Thorsteinsson, f. 12.12. 1994. Óskar kvæntist 7.2. 1959 Sigríði Benjamínsdóttur, f. 10.2. 1934, d. 16.1. 2001. Börn þeirra eru 1) Þröstur, f. 28.6. 1958, d. 15.1. 1995. 2) Guðmundur Logi, f. 5.2. 1960. Börn hans og Hrafnhildar Geirsdóttur, f. 10.6. 1959 eru: a) Eva María, f. 11.8. 1979, maki Steinþór Jakobsson. Börn þeirra Rebekka Rut, f. 10.10. 2005 og óskírð, f. 3.9. 2008. b) Davíð, f. 6.5. 1984. Börn Guðmundar og eiginkonu hans, Rögnu Dagmarar Sölvadóttur, f. 16.4. 1964, d. 6.2. 2007, eru c) Tinna Dögg, f. 14.9. 1987, unnusti Bjarki Þór Runólfsson sonur þeirra óskírður, f. 25.8. 2008. d) Rakel Ósk, f. 15.14. 1994, e) Andrea Rut . 31.3. 2000. 3) Klara f 1.7. 1961. Búsett í Svíþjóð. Maki Sixten Lindstrøm, f. 5.2. 1950. 4) Skorri, f. 7.8. 1966. Börn hans og Bjarghildar Sólveigar Káradóttur, f. 14.12. 1971, eru Svala, f. 27.4. 1995, og Dröfn, f. 31.1. 2000. 5) Björn, f. 6.12. 1968. Búsettur í Noregi. Sambýliskona Marte Benedicte Green, f. 11.7. 1973. Sonur þeirra Thröstur Brage Björnsson, f. 9.5. 2007.

Útför Óskars Þóris fór fram frá Fossvogskirkju 6. október.

Mig langar að minnast Óskars Guðmundssonar sem var kurteis og mikill séntilmaður. Hann vann ungur hjá afa mínum Guðlaugi A. Magnússyni við smíðar á silfurborðbúnaði, þar kynntist hann föður mínum og vini sínum Reyni Guðlaugssyni sem þá var ungur. Óskar fór út í söngnám og það var ekki fyrr en löngu seinna að Óskar fékk aðstöðu hjá föður mínum í Gull- og silfursmiðjunni Ernu og ég kynntist honum þá sem barn. Hann smíðaði aðallega hluti úr nýsilfri, ausur, skartgripi, horn og fleira. Hann hafði mjög skemmtilegan stíl í hönnun sinni. Hann hjálpaði okkur í borðbúnaðinum fyrir jólin og smíðaði þá aðallega jólaskeiðar og svo síðar jólasveinaskeiðar. Á kaffistofunni var oft mikið rætt og margar skemmtilegar sögur sagðar, ég man að ég hugsaði oft að Óskar þyrfti að skrifa bók því sögurnar voru svo ótrúlegar og ævintýralegar, enda góður að segja frá. Slíperíið var og er örugglega ekki uppáhaldsstaðurinn á verkstæðinu þótt það sé gott að láta hugann reika á meðan verið er að slípa hluti. En til að halda sér hreinum er best að pakka sér inn eins og Óskar var vanur að gera til að losna við óhreinindin og man ég einn kaldan vetrarmorgun rétt fyrir jól að Óskar var að slípa í slíperísmúnderingunnni en hafði gleymt að taka loðfeldshúfuna af sér. Eins og honum einum var lagið þakkaði hann mér kurteislega fyrir að láta sig vita. Það var erfitt að koma á fallega heimilið hans Óskars jólin 2001 og tilkynna honum að vinur hans og faðir minn hefði fallið frá, því fyrr á sama ári missti Óskar eiginkonu sína, hana Sigríði Benjamínsdóttur. Sísí, eins og hún var kölluð, var stoð hans og stytta og yndisleg kona. Ég veit að þetta tók mjög á Óskar og sagði hann mér að nú væri hann „síðasti móhíkaninn“ eins og hann orðaði það og heimsóknir Óskars á verkstæðið voru ekki margar eftir það. Við systkin mín ræddum fyrir stuttu að það væri gaman að bjóða Óskari upp á verkstæðið til að spjalla, en áður en úr varð kvaddi hann. Ég vil þakka þér Óskar fyrir allar skemmtilegu sögurnar, fallega sönginn og samverustundirnar á verkstæðinu okkar og óhætt er að segja að verkstæðið hafi alla tíð verið lánsamt að hafa frábæra starfsmenn. Óskar, það var eitt sem þú kenndir mér – það er að hafa svolítið gaman af lífinu.Guðs ljós varðveiti þig. Ég votta aðstandendum þínum innilega samúð.

Ragnhildur Sif Reynisdóttir.

Smátt og smátt hverfur gamalt handverk og þekking með hagleiksmönnum sem kveðja. Óskar Þórir Guðmundsson starfaði um áratugaskeið hjá Gull- og silfursmiðjunni Ernu. Þegar framleiðsla á silfurborðbúnaði hófst 1936 var gamalt handverk nýtt við smíðar. Óskar lýsti því oft fyrir okkur sem nú störfum við silfursmíði. Mikla leikni þurfti til að ná afköstum og gæðum. Í þá daga voru skartgripir fjöldaframleiddir með sandsteypu og var Óskar fenginn til að sjá um hana þar sem hann náði góðum tökum á henni og miklum afköstum. Síðustu árin sem hann starfaði við silfursmíði var það starf hans að smíða jólasveinaskeiðar sem 12 ára börn teiknuðu. Það veitti honum gleði og okkur öllum sem fylgdumst með. Börnin sem komu í heimsókn til að sjá hugmyndir sínar verða að veruleika fengu greinargóða lýsingu á því sem fram fór hjá Óskari. Óskar var hámenntaður tónlistarmaður og mikill heimsborgari. Óteljandi sögur sagði hann okkur frá horfnum heimi frá því er Ísland tengdist meir menningu Evrópu en í dag. Hann hafði sjálfur verið viðstaddur ýmsa viðburði og stangaðist frásögn hans stundum á við seinni tíma söguskýringar. Við viljum þakka honum og fjölskyldu hans langa órofa vináttu og biðjum þess að þeim veitist huggun og styrkur.

F.h. starfsfólks Gull- og silfursmiðjunnar Ernu,

Ásgeir Reynisson.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Elsku pabbi minn, ég vil kveðja þig með þessum ljóðlínum Gustavs Frödings:

Og maðurinn reikar um heiminn hér,

og hulið er öllum, hvaðan hann ber,

og hulið er öllum, hvert hann fer,

og hulið er öllum, hvað lífið er.

(Þýð. Magnús Ásgeirsson)

Klara.