Eftir Þórð Snæ Júlíusson thordur@mbl.is SJÓÐSFÉLAGAR í peningamarkaðssjóði Glitnis, Sjóði 9, fengu greitt út í gær. Útgreiðsluhlutfallið var 85,12 prósent af þeirri stöðu sem sjóðurinn var í þann 6.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@mbl.is

SJÓÐSFÉLAGAR í peningamarkaðssjóði Glitnis, Sjóði 9, fengu greitt út í gær. Útgreiðsluhlutfallið var 85,12 prósent af þeirri stöðu sem sjóðurinn var í þann 6. október síðastliðinn þegar síðast var lokað fyrir viðskipti í honum. Áður höfðu sjóðsfélagar í Sjóði 9 tekið á sig tæplega sjö prósent lækkun og því er samanlögð rýrnun eigna þeirra í sjóðnum 20,78 prósent frá stöðu hans þann 26. september. Sjóðsfélagar hafa því tapað um fimmtungi þess sem þeir áttu í sjóðnum þann dag.

Stoðabréf keypt út

Sjóði 9 var fyrst lokað þann 29. september eftir að ríkið tilkynnti aðkomu sína að Glitni. Sama dag fóru Stoðir, áður FL Group, fram á greiðslustöðvun, en félagið hafði verið stærsti hluthafinn í Glitni. Samkvæmt árshlutareikningi Glitnis frá 30. júní síðastliðnum skulduðu Stoðir Sjóði 9 um 18,4 milljarða króna þann 30. júní síðastliðinn og sjóðum Glitnis alls um 24 milljarða króna.

Þegar sjóðirnir voru opnaðir aftur þann 1. október var tilkynnt að Glitnir hefði keypt öll bréf Stoða út úr sjóðum sínum. Nokkrum dögum síðar yfirtók íslenska ríkið bankann á grundvelli neyðarlaga.

Gert á viðskiptalegum grunni

Morgunblaðið óskaði eftir upplýsingum hjá Glitni um hvert útgreiðsluhlutfall Sjóðs 9 hefði verið ef bankinn hefði ekki keypt út bréf Stoða. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum eru upphæðir bréfa einstakra viðskiptavina aldrei gefnar upp, þar með talin viðskipti með bréf Stoða. Búið er að fjarlægja allar upplýsingar um Sjóð 9 af heimasíðu Glitnis.

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir ákvörðunina um kaup á bréfum Stoða hafa verið tekna af fyrri stjórn Glitnis þegar allt aðrar aðstæður voru í samfélaginu. „Þetta var gert á viðskiptalegum grundvelli á þeim tíma sem þetta átti sér stað og menn töldu þetta hafa verið rétt mat þá. Síðan geta menn haft sína skoðun á því eftir á, hvort það hafi verið óeðlilegt í ljósi þess sem síðar gerðist.“