Eitthvað glænýtt „Svo kynnist ég strákunum og þá eru þeir alltaf smælandi á tónleikum og alltaf að fíflast. Mér fannst það meiriháttar. Þetta var eitthvað glænýtt, maður hafði ekki átt að venjast þessu,“ segir Snorri Helgason um fyrstu kynni sín af hljómsveitarfélögunum.
Eitthvað glænýtt „Svo kynnist ég strákunum og þá eru þeir alltaf smælandi á tónleikum og alltaf að fíflast. Mér fannst það meiriháttar. Þetta var eitthvað glænýtt, maður hafði ekki átt að venjast þessu,“ segir Snorri Helgason um fyrstu kynni sín af hljómsveitarfélögunum. — Morgunblaðið/Valdís Thor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sprengjuhöllin kom inn í íslenskt tónlistarlíf með ... ja ... mikilli sprengingu fyrir hartnær tveimur árum.

Sprengjuhöllin kom inn í íslenskt tónlistarlíf með ... ja ... mikilli sprengingu fyrir hartnær tveimur árum. Þessi mikla spútniksveit gefur út hina margfrægu „erfiðu plötu númer 2“ á föstudaginn sem er að sjálfsögðu „mun betri“ en síðasta verk að áliti sveitarmeðlima, sem eru að vanda með munninn kirfilega fyrir neðan nefið. Arnar Eggert Thoroddsen ræddi við tvo þeirra á Ruby Tuesday, af öllum stöðum.

Eftir nokkuð magnaða ljósmyndunartörn við Rauðavatn, þar sem Sprengjuhöllin var í bókstaflegri merkingu á hálum ís keyrum ég, Bergur Ebbi Benediktsson og Snorri Helgason, söngvarar og gítarleikarar, rakleitt inn í Árbæinn. Förinni er heitið á Blástein, hinn einstaka hverfisveitingastað, þar sem ætlunin er að spjalla saman og snæða. Staðurinn er hins vegar lokaður, blaðamanni til mikillar hrellingar, og því er stímt á Ruby Tuesday í staðinn. Ekki nálægt því eins svalt, það verður að viðurkennast...

Góðærið kreist

„Við höfum alltaf verið með góð plön,“ segir Snorri, spurður um hugsanlegar skýringar á gríðarlegri velgengni Sprengjuhallarinnar á síðasta ári en þá staflaði sveitin upp smellum, spilaði fyrir alla og engan og seldi fyrstu plötu sína, Tímarnir okkar , í þúsunda tali. „Við setjumst niður og drögum upp áætlanir. Í alvörunni. En þetta gekk mun hraðar fyrir sig en við áttum von á, ég viðurkenni það.“

Bergur bætir í: „Þetta var eiginlega eins og að vera í tölvuleik. SimCity eða eitthvað. En bandið er a.m.k. vel rekið, það er klárt.“

Bandið spilaði og spilaði og vílaði ekki fyrir sér að taka inn árshátíðir. Sá bandið ekki heilmikla peninga?

„Við náðum að kreista síðustu dropana úr góðærinu,“ segir Snorri kankvís.

„En við urðum ekki ríkir af þessu spileríi,“ bætir Bergur við. „Það fer mikið í skatta og skyldur og við unnum allir fasta vinnu með. Við fórum ekki alla leið í að gera þetta að útgerð. Við sláum ekki hendinni á móti giggum en markmiðið var ekki að gera þetta að peningamaskínu. Markmiðið er listrænt – en um leið höfum við ekkert á móti því að fá greitt fyrir að spila.“

Ný plata Sprengjuhallarinnar ber heitið Bestu kveðjur . Í poppfræðum er ávallt talað um „hina erfiðu plötu númer 2“, því að þá kemur fyrst í ljós hvort fyrsta platan hefur verið nýjabrum eitt, jafnvel hundaheppni.

Ekki tími

„Við erum búnir að vera stanslaust að síðan fyrsta platan kom út og höfum hreinlega ekki haft tíma til að velta þessu fyrir okkur,“ segir Snorri. Bergur segir þá hins vegar hafa mjög gaman af öllum svona minnum úr poppsögunni, en platan „erfiða“ er hugtak sem lifir nær eingöngu í fagritum af þeim toga og í munni gagnrýnenda.

„Við elskum allar poppklisjur,“ segir Bergur með festu. „Við höfum ekkert á móti því að það gangi illa líka. Ég væri alveg til í að standa í málaferlum við útgáfuna, af því að slíkir hlutir gerast reglulega í poppheimum. Ég fíla allt þetta í kringum það að vera í hljómsveit og við erum alveg meðvitaðir um þennan „leik“ sem þetta er.“

Bergur og co. hafa þá væntanlega fagnað því þegar „smáskífa“ þeirra frá því í sumar „floppaði“ og sló „ekki í gegn“ eins og öll síðustu lög sveitarinnar sem sett hafa verið í spilun. Partur af prógramminu? Bergur hlær.

„Ja...við vorum ekki svekktir eða neitt svoleiðis. Við höfum ekki pælt mikið í þessu. Og „Fló á Skinni“ lagið sem við sendum frá okkur fyrr á árinu gerði heldur ekki neinar gloríur. En ég hef trú á því að fólk uppgötvi lagið eftir ca. tuttugu ár. Þetta verður svona „falinn fjársjóður“ þegar saga Sprengjuhallarinnar verður reifuð (hlær).“

Snorri segir enda að þetta hafi að sjálfsögðu verið markmiðsbundið flopp til að halda poppfræðingunum á tánum. „Við erum alltaf að passa okkur á því að halda þeim vel við efnið...“

Það var ekki svo að blaðamaður legði upp með að grilla þá Berg og Snorra eins og hamborgarana sem við gæddum okkar á. En það virðist hægðarleikur einn, auk þess sem það er freistandi, að skjóta svolítið á þá. En þeir hrökkva aldrei í vörn, heldur svara bara með hægð – og það af miklu öryggi. Óþolandi!

„Ég held að við séum nú orðnir nokkuð þéttir,“ svarar þannig Bergur og brosir þegar blaðamaður ber það undir þá að þeir hafi verið kallaðir óþéttir, textarnir rími ekki, hann sé vita laglaus auk þess sem hann kunni ekki að spila á gítarinn.

„En við verðum aldrei „fullkomnir“. Við erum ekki að leita eftir þessum „þéttleika“ sem ballbönd vilja vera haldin. Og þetta með textana, ég kann alveg þessa bragfræði en stundum er bara sjarmerandi að ríma Herjólfur við „berja mig“ eða hvað það nú er. Það setur svona kæruleysislegt „twist“ á þetta.“

Í taugarnar

Snorri segir að þeir félagar hafi komið vel undirbúnir í allar upptökur í Gróðurhúsi Valgeirs Sigurðssonar. Allir grunnar hafi verið klárir og vel æfðir en tónlistin flóði úr þeim í kjölfar fyrstu plötunnar og þessi plata hefði þess vegna getað komið út fyrir löngu. Bandið sé nánara en nokkru sinni, mikil gengistilfinning sé í hópnum enda voru þeir saman upp á hvern einasta dag í sumar.

Snorri minnist þeirra tíma er hann var í grasrótardæminu eins og hann kallar það (hann var í hljómsveitinni SAAB ásamt Sigga trommara og Högna úr Hjaltalín) og þá var spilað á efri hæðinni á Dillon og slíkum stöðum

„Það dæmi snerist bara um það að vera kúl,“ rifjar hann upp. „Svo kynnist ég strákunum og þá eru þeir alltaf smælandi á tónleikum og alltaf að fíflast. Mér fannst það meiriháttar. Þetta var eitthvað glænýtt, maður hafði ekki átt að venjast þessu. Það var hressandi að losna við þennan endalausa alvarleika“

Það var nefnilega mikið rætt og ritað um Sprengjuhöllina á sínum tíma og hún sögð leiða inn nýja bylgju í íslenskri tónlist þar sem gáska og gleði var skipt inn á fyrir alvarlegheit og íbyggni. Meðlimir horfðu hlæjandi fram í sal í stað þess að horfa djúpspakir niður á skóna sína. Þá vantaði ekki yfirlýsingarnar frá meðlimum, þeir voru (og eru) kokhraustir og hafa verið sakaðir um sjálfumgleði og spjátrungshátt vegna þessa. Þetta minnir helst á það þegar The Smiths kom fram á sínum tíma. Fyrir þeim voru hlutirnir einfaldir: Við erum bestir.

„Maður veit alveg af þessu umtali,“ segir Snorri. „Þetta fer ekkert í taugarnar á mér ...en ég skil vel að við förum í taugarnar á fólki! (hlær).“

Sameinumst

Snorri segir að velgengni sé nefnilega í eðli sínu pirrandi, að maður tali ekki um svona „glimrandi success“ eins og Sprengjuhöllin naut í fyrra eins og hann orðar það.

Og Bergur botnar:

„Mig langar ekki til að gera neitt nema að því tilskildu að ég standi við það og fylgi því eftir – í riti sem ræðu,“ segir hann. „Það var búinn að vera þessi andi í gangi hjá íslenskum hljómsveitum, „Ja...þeir hlusta bara sem vilja hlusta,“ sem er gott fyrir sinn hatt. En ég held að það séu þúsundir manna þarna úti sem þarf bara að ganga upp að og segja: „Hlustaðu á mig!“ Ekki misskilja mig, við lítum ekki á okkur sem einhverja bjargvætti rokksins. Við erum ekki veruleikafirrtir. En með þessa nýju tíma ... ég var a.m.k. búinn að horfa of lengi á tónlist sem sundraði fólki frekar en sameinaði. Það var voða kúl að fíla þetta og þetta og mikil gjá á milli þessara hópa. Mér finnst þvert á móti fallegt ef tónlist nær að sameina þessa hópa alla – og það var það sem við lögðum upp með frá byrjun.“

Sprengjó og Springsteen!?

ÞIÐ ráðið hvort þið trúið því eða ekki, en margir textar og lög á plötunni eru undir sterkum áhrifum frá Brúsa frænda, Bruce Springsteen. Snorri og Bergur eru forfallnir aðdáendur og standa linnulaust í því að kristna félaga sína. Það sem heillar er sú sterka rómantík og þeir brostnu draumar sem leika um plötur eins og Born to Run og Darkness on the Edge of Town.

„Ég sendi einu sinni innblásið bréf til Bergs um hversu stórkostleg Born to Run væri,“ segir Snorri. „Ég var með tárin í augunum. Þetta er það sem kallast að verða „brucified“.“ Þá var Bergur einu sinni rekinn út af bar fyrir að tala stanslaust um Bruce Springsteen.

Umslag plötunnar vísar þannig í þennan hetjubundna rómans og textar við lögin „Draumur í „D““, „Vegurinn“ og „Á meðan vatnið velgist“ eru undir beinum áhrifum frá kveðskap Stjórans.

arnart@mbl.is

Sprengjuhöllin heldur útgáfutónleika vegna plötunnar nýju í Íslensku óperunni, þriðjudaginn 11. nóvember.