16. nóvember 2008 | Innlent - greinar | 2036 orð | 2 myndir

Bókarkafli

Enginn guð gerir svona lagað

Ævisaga úr íslenskum samtíma eftir Sigmund Erni Rúnarsson

Sagan Sigmundur Ernir Rúnarsson ritaði ævisögu Magneu Guðmundsdóttur.
Sagan Sigmundur Ernir Rúnarsson ritaði ævisögu Magneu Guðmundsdóttur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnea Guðmundsdóttir hefur mætt margs kyns mótlæti í lífinu, barnamissi og öðru andstreymi.
Magnea Guðmundsdóttir hefur mætt margs kyns mótlæti í lífinu, barnamissi og öðru andstreymi. Hún fæddist í Reykjavík árið 1951, dóttir einstæðrar móður, og ólst upp í Garðastræti en síðar flutti stórfjölskyldan á Sogaveginn þar sem reykvísk alþýða reisti sér hús af misjöfnum efnum á sjötta áratugnum. Magnea giftist ung og eignaðist fjögur börn. En tilvera fjölskyldunnar varð öðruvísi en ætlað var. Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar sögu Magneu Guðmundsdóttur en bókin kemur út hjá Veröld. Morgunblaðið birtir hér nokkur kaflabrot með góðfúslegu leyfi útgefanda.

Ég leyfi mér líka að gráta

Magnea Guðmundsdóttir varð ófrísk aðeins 17 ára að aldri og Sverrir, frumburður hennar og Kjartans Ólafssonar, kom í heiminn árið 1969. Fimm árum síðar fæddist þeim dóttirin Erla Hjördís. Skömmu eftir fyrsta afmælisdag litlu hnátunnar dregur til tíðinda, börnin tvö eru í pössun hjá ömmu á Sogaveginum á laugardagskvöldi í nóvember:

„Mamma hringir í mig og segir að sér lítist ekki á þá litlu; finnist hún venju fremur dauf og uppburðarlítil og svo virðist sem hún hafi ekki mikla meðvitund. Ég stirðna upp með símtólið í hendinni, kveðst strax ætla að hringja í lækni og hann hvetur mig til að fara undir eins með stelpuna upp á sjúkrahús. Kjartan og mamma keyra í ofsaköstum upp á Landspítala. Ég sit eftir með Sverri í fanginu. Ég get ekki beðið eftir að þau komi aftur. Loksins hringir Kjartan í mig ofan af spítalanum og segir að Erla Hjördís verði lögð inn, en ekkert okkar megi fylgja henni inn á stofu. Það finnst mér hart eins og ýmislegt annað í spítalamenningunni. Enda fer það svo að við sitjum öll heima í litla húsinu fram á kvöld eins og steinrunnin tröll í óbyggðum.

Það er hringt klukkan tíu. Kjartan svarar. Ég sé það á honum hvað hefur gerst. Erla Hjördís er dáin. Kjartan minnkar við tíðindin. Ég sé hann skreppa saman þar sem hann stendur með þagnað símtólið. Við hin minnkum líka, hörfum inn í okkur. Leitum ásjár í innstu kimum sálarinnar.

Kjartan segir okkur að læknirinn, sem hann talaði við, hafi ráðlagt okkur að koma ekki upp á spítala. Það þurfi að kryfja líkið. Það eru þessi orð sem hrifsa mig út úr kytrum hugans. Ég leggst á gólfið heima í stofu hjá mömmu og ber það af öllum lífs og sálar kröftum. Það er runnið á mig eitthvert dýrslegt eðli. Ég berst eins og ljón við ljósa teppið á stofugólfinu og langar að rífa það í tætlur. Ég bölva lífinu, bölva dauðanum og öllu þar á milli. Ég bölva guði – og ég bölva líka læknunum sem mér finnst að hafi rænt mig litla barninu mínu. Ég bölva þangað til ég á ekki lengur eitt aukatekið orð. Engu skiptir þótt amma og afi séu komin niður og eins hann Mansi og allar stelpurnar. Ég ligg í dýrslegum ham á gólfinu. Amma reynir að koma vitinu fyrir mig með þeim orðum að góður guð geti linað hvaða þjáningu sem er. Ég velti mér á gólfinu og horfi grimmdarlega á hana í eitt stjarft og stirðnað sekúndubrot – og grýti því svo framan í hana að hún skuli ekki dirfast að nefna guð á nafn á þessari stundu; það sé enginn helvítis guð til sem geri svona lagað.

Amma er kjaftstopp. Sömuleiðis allir aðrir í stofunni. Það má heyra kertin ósa á skenknum. Þögnin er þykk og seig.

Nokkrum dögum síðar stend ég með líkfötin í höndunum. Ég er nýkomin frá Þresti mínum Laxdal sem segir mér að allt verði gert til að finna dánarmein Erlu Hjördísar. Líklegast hafi þó hjartað bilað á endanum. Nú verði að skoða Sverri frá hvirfli til ilja að nýju til að komast að raun um hvort eitthvað ami að gangverkinu í hans líkama. Líkurnar á að svo sé verði að teljast allnokkrar, enda drengurinn óvenjulega hægur í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Ég er við það að brotna í mél eins og stökkur postulínsvasi fyrir framan lækninn. Ætlar þetta engan enda að taka? Hvað hef ég gert rangt í þessu lífi? Þröstur hvetur mig til dáða með orðum, snertingu og nærveru; allt í þeim skömmtum sem lífsreynslan hefur kennt honum. Hann kveður mig með þeim orðum að koma fljótt aftur með nýtt barn; ég eigi nóg eftir að gefa heiminum.“

Og ekki líður á löngu þar til barnahópurinn stækkar, Ólafur og Hjördís koma í heiminn, – en áföllunum átti líka eftir að fjölga. En þó að líf Magneu Guðmundsdóttur hafi fráleitt verið dans á rósum, mótlætið verið ærið, stendur hún óbuguð eftir og segir: „Ég leyfi mér að sakna. Mér finnst það mikilvægt. Allar eðlilegar kenndir er mikilvægt að rækta. Einnig söknuðinn. Ég leyfi mér líka að gráta.“

Hringur, trans og talsamband

Foreldrar bregðast misjafnlega við sorginni og lýsir Magnea í bók þeirra Sigmundar Ernis hvernig hún reyndi að finna huggun á öðrum tilverustigum:

„Ég leita í dulspekina. Enn á ný. Og núna botnlaust. Mig langar að komast í almennilegt samband við mömmu. Mig langar að umvefja hana Erlu Hjördísi mína. Mig langar að vita hvað verður um Sverri, fá veður af því hvort Óli minn sé ekki örugglega heilbrigður og hvaða örlög bíða Hjördísar litlu. Öll svörin í þessari jarðvist eru jafnan svo torræð og í besta falli tvíræð að lítið sem ekkert gagn er að þeim. Þau nægja mér einfaldlega ekki. Þess þá heldur að leita fyrir sér á öðrum tilverustigum. Þar er engu að tapa. Mér er slétt sama þótt einhverjir samferðamenn mínir horfi á mig forviða þegar ég segi þeim að ég ætli að vera með andakvöld heima hjá mér. Fólk getur verið svo rammlega jarðbundið að það nær ekki einu sinni upp fyrir höfuðið á sér. En mér er nokk sama. Fólk má vera af öllu tagi fyrir mér. Bara að það hafi til að bera sæmilegt umburðarlyndi hvað fyrir öðru. Einhver slatti af víðsýni hefur aldrei skaðað nokkurn mann. Og heldur ekki væntumþykja.

En nóg um það. Andakvöldin, já. Þau eru mögnuð. Þau eru andleg næring sem fyllir mig orku. Þau gera mig að mildari og meiri manneskju en ég á að mér dagsdaglega. Þau veita mér styrk og leiðsögn sem hollt er að taka tillit til, án þess þó að láta stjórnast af. Þau laga kompásinn, en ráða ekki endilega ferðinni. Lyfta sálunni, en leggjast ekki á hana. Þau hefja mig upp úr álútum líkamanum og leyfa sálartetrinu að flæða óbeisluðu um sjálft algleymi lífsins. Það er nú bara talsvert, finnst mér – og það fyrir engan pening. [...]

Alltaf finnst mér súrefnið heldur minnka þegar litla kjallaraholan okkar umbreytist í samkomusal framliðinna og lifandi fólks. Andarnir þurfa sitt pláss og eru misjafnlega fyrirferðarmiklir. Sumir mæta alltaf. Aðrir stundum. Enn aðrir aðeins stöku sinnum. Það er eins og framliðnir hafi jafn misjafna hæfileika til að ná til okkar lifenda og þeir eru margir. Á meðal fastagestanna er maður sem kveðst heita Magnús og hefur dáið sem ungur maður. Hann hefur numið lækningar hinum megin sviðsins og gefur okkur oft og tíðum haldgóð svör um það sem betur má fara í skrokknum okkar. Iðulega kemur líka eldri karl til okkar sem segist heita Einar, vel skeggjaður og skáldmæltur og talar föðurlega til okkar um það sem við getum lagað í samskiptum okkar hvert við annað. Eins er afi Bínu oft á ferðinni, háheilagur prestur að norðan sem kann öðrum betur að styrkja smáar sálir í lífsvafstrinu. Okkur reynist auðvelt að ræða við þessa framliðnu menn; Sigga er tengingin og á það til að skipta á milli þeirra eins og hver önnur símstöð með greiðum tengilínum. Og við fáum svör, mikil ósköp, misgóð...sum hver illskiljanleg í fyrstu og önnur brilljant. Og enn önnur fá nýja merkingu nokkrum dögum síðar. Sum hver aldrei bofs.

Þannig gengur þetta. Vikuleg andakvöld. Súrefnislaust í kjallaraholunni. Hringur, trans og talsamband. Mest um vert er að ég finn svo þægilega fyrir mömmu á þessum kvöldum og sömuleiðis dagana á eftir. Ég næ að vísu ekki beinu sambandi við hana – og vil það reyndar síður innan um annað fólk, en hún lætur sig samt aldrei vanta þegar sambandið er komið á. Og svo er hún Erla Hjördís alltaf til staðar á þessum kvöldum okkar. Alltaf nálæg. Alltaf umlykjandi. Það merkilega við nálgun Erlu Hjördísar er að ég upplifi hana ekki sem lítið barn í herberginu. Aldrei sem lítið barn. Alltaf sem konu. Ég skynja hana sem þroskaða manneskju, vel yfir tvítugu. Ég sé hana fyrir mér með sítt fagurt hár og slegið niður á axlir – og svo er hún í kjól með band um sig miðja. Hún kemur til mín eins og ljós ...fagurmilt ljós – og nándin verndar og hlýjar. Orðlaus samveran stappar stálinu í mig þar sem ég sit endurnærð á kollinum mínum. Það streyma um mig vellíðunarkraftar. Ég er á mörkum þess að vera til og verða til að nýju. Erla Hjördís verkar sterkast á mig af þeim sem ég skynja í herberginu. Það er eins og hún fylli upp í alla kima þess. Og fylli mig nýju lífi. Ég fyllist stolti af því að sjá hana fyrir mér sem vel gerðan og hamingjusaman engil sem fylgist grannt með móður sinni.“

Skrautlegt samfélag á Sogaveginum

Magnea Guðmundsdótir segir í bók þeirra Sigmundar Ernis frá fyrstu árum ævi sinnar á loftinu fyrir ofan Víkingsprent í Garðastræti en þar kynntist hún fólki úr ýmsum áttum. Hún rifjar meðal annars upp kynni sín af prenturunum á gólfinu, Ragnari í Smára sem gaukaði að henni lakkrísrörum úr Kiddabúð og spjátrungnum með yfirvaraskeggið sem spígsporaði um prentsmiðjuna og fékk skömmu síðar Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Stórfjölskyldan flutti úr Garðstrætinu að Sogavegi 132 þar sem hún reisti sér hús. Magnea lýsir í bókinni því fjölskrúðuga samfélagi sem þar myndaðist:

„Ömmu svíður það mest hvað mikið er drukkið í hverfinu, oft með háreysti fram á rauðanótt. Karlarnir og stöku kerling eiga það til að vega salt á vömbinni á handriðunum framan við hús – og það er ekki sjón að sjá elstu krakkana reyna að rembast með liðið inn í hús. Það er á svona stundum sem mölin í sundinu öðlast sjálfstætt líf og kippir fótunum undan illa þrútnum byttunum. Og það er eiginlega á við besta leikhús að sjá þær reyna að standa aftur í lappirnar. Skrýtið hvað vínið rænir menn jafnvæginu, já og vitinu. Og enn undarlegra hvað þetta litla hverfi okkar getur snúist á hvolf um helgar þegar löggan kemur með sín blikkandi ljós að skakka leikinn í einu húsinu af öðru, ef leik skyldi kalla. Svívirðingarnar skella á húsunum eins og brotsjór. Blótsyrðin bergmála um hverfið – og stöku ælukast á sér einnig aumleg hljóð. Það er brennivínsstækja yfir hverfinu, segir amma oft við afa á kvöldin og sá gamli getur nú eiginlega ekki annað en tekið undir með konunni sinni, þótt ekki sé það nú nema til tilbreytingar. Hann reynir þó að hugga gömlu konuna með þeim orðum að ennþá verra sé þetta niðri í Múlakampi og álíka hörmungarhverfum. Hvergi sé risið jafnlágt á nokkrum Íslendingi og í árans hermannakömpunum sem standi eins og svöðusár í bæjarlandinu. Nei, afi getur ekki hætt að tala um þá frelsun að þurfa ekki að búa í kampi. Og keyra sig í þrot af kogara og öðrum óþverra. Hvorugt þeirra afa og ömmu er fyrir brennivínið og það kemur ekki til greina að læða ljótum vodka inn fyrir þeirra varir, jafnvel þótt hann sé hraustlega blandaður volgu kóki. Amma segir mér að láta allt kók í hverfinu í friði. Það séu meiri líkur en minni á að það sé blandað þessum bévítans vodka upp á ein 75 prósent, eða því sem sé öllu verra; bölvuðum prentaraspíranum sem flæði yfir allt hverfið. Ömmu finnst í lagi að blóta þegar svona ber við. Og puttinn er á lofti, enn einn ganginn; ekkert kók, ekkert kók. Ég hlýði því auðvitað... en þó með einni undantekningu – og hún sannar auðvitað tilgátu ömmu. Þá er ég í heimsókn hjá Ara mömmubróður austur í Mosfellssveit og stelst í kókið hans seint um kvöld. Mig svíður niður í rassgat...já, það var þá kókið. Síðan drekk ég bara sinalco sem stundum er keypt á heimilinu og geymt innst í búrskápnum undir súð. Sinalcobirgðirnar eiga það til að rýrna þegar ég fyllist einmanaleikanum heima á daginn. Þá læt ég mig hverfa upp á háaloft með sykurvatnið sanna. En, vel að merkja, þangað kemst ekki amma.“

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.