27. nóvember 2008 | Minningargreinar | 3517 orð | 1 mynd

Theodóra Þórðardóttir

Theodóra Þórðardóttir fæddist 22. febrúar 1945 á Stokkseyri, hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 17. nóvember sl. Foreldrar hennar voru Agnes Guðnadóttir, f. 18.11. 1927, d. 21.3. 1986, og Þórður Sigurgeirsson, f. 22.7. 1916, d. 6.10. 1992. Bróðir Theodóru er Sigurgeir Guðni, f. 2.12. 1952.

Theodóra giftist 27.2. 1963 Þorgeiri Daníelssyni, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Þórður, f. 12.11. 1964, maki Helga Dís Hálfdánardóttir, dóttir þeirra er Aþena, f. 29.3. 2005, fyrir á Þórður son, Kristin Reyr, f. 13.10. 1988, móðir hans er Inga Jóna Kristinsdóttir. 2) Daníel Ben, f. 20.1. 1968, sonur hans a) Kjartan Ben, f. 25.2. 1988, móðir hans er Anna María Kjartansdóttir. b) Aron Ben, f. 3.6. 2004, c) Daníel Ben, f. 17.8. 2007, móðir þeirra er Elfa Björk Rúnarsdóttir. 3) Agnes Linda f. 18.9. 1977, maki Matthías Karl Þórirsson, synir þeirra eru a) Þórir Símon, f. 24.9. 2005, og b) Theodór Kristinn, f. 25.9. 2008. Fyrir á Agnes son, c) Fannar Inga Ingvarsson, f. 31.1. 2000, faðir hans er Ingvar Hermannsson.

Theodóra giftist 28.12. 1991 Þorleifi Kristni Valdimarssyni, f. 17.3. 1940. Börn hans eru: 1) María Kristín, f. 17.1. 1962, maki Sigurður J. Finnsson, dóttir þeirra er a) Inga. Fyrir á María b) Ásgerði Ottesen og c) Jónu Ottesen, faðir þeirra er Sveinbjörn Ottesen. Sonur Maríu og Björns Valberg var Marinó Kristinn, f. 24.2. 1995, d. 9.10. 1997. 2) Hafdís, f. 24.7. 1964, maki Haukur Ingi Jónsson. Börn Hafdísar eru a) Þorleifur Árni, faðir hans er Björn Stefánsson, b) Hafþór Örn, c) Erna Margrét, faðir þeirra er Oddur Gunnar Hauksson. Stjúpdóttir Þorleifs er Esther ósk Estherardóttir.

Theodóra lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands og starfaði lengst framan af við skrifstofustörf. Einnig starfaði Theodóra um árabil við módel- og tískusýningar. Síðan starfaði hún við ýmis fyrirtæki þeirra hjóna þar til fyrir nokkrum árum.

Útför Theodóru Þórðardóttur fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.

Ég á svo erfitt með að trúa því að þú sért farin, að þessi illvígi sjúkdómur hafi tekið þig frá mér. Þetta er svo ósanngjarnt. Það var svo margt sem við áttum eftir að gera saman, t.d að fara saman til Tyrklands. Við ferðuðumst rosalega mikið þegar við bjuggum bara tvær saman.

Manstu þegar við vorum eitt skipti í flugvél og vélin var að fara lenda, þú tókst upp snyrtibudduna þína og settir á þig maskara og svo tókstu upp varalitinn sem var með pínulitlum spegli að aftan og þú varst að rembast við að setja hann á þig en það tókst ekki því ég brjálaðist úr hlátri og þú líka og þetta endaði með að maskarinn var farinn að leka niður kinnarnar þínar. Við eigum óendanlega margar minningar saman enda bestu vinkonur.

Þú varst alltaf svo glæsileg mamma, það tóku allir eftir því og það töluðu allir um það. Ég var alltaf svo stolt að segja: „Þetta er mamma mín.“ Við áttum yndislega tíma saman í Flórída. Okkur fannst sko alls ekki leiðinlegt að fara saman að versla og fara á Starburcks og fá okkur stóran frabbachino með rjóma. Þetta allt eigum við Þorleifi að þakka. Við vorum heppnar að fá hann inn í okkar líf elsku mamma mín. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af Þorleifi þínum mamma mín, ég mun passa hann eins og ég lofaði þér. Þú barðist eins og sönn hetja í baráttunni við krabbann – þrátt fyrir að þú fengir endalaust bakslög stóðst þú alltaf upprétt og barðist til endaloka.

Ég átti yndislega tíma með þér þessa 7 mánuði sem þetta tók. Þú gekkst í gegnum meðgönguna með mér, svo loksins þegar Theodór Kristinn lét sjá sig kom litli gleðigjafinn sem þú varst búin að bíða svo lengi eftir. Í skírninni spurði ég þig hvort þú treystir þér til að halda á Theodóri og þú vildir það svo sannarlega en sagðir: „Þá verð ég að fá að vita nafnið.“ Ég hvíslaði nafninu að þér og þú grést gleðitárum, loksins fékkstu nafna þinn. Það kom aldrei neitt annað til greina elsku mamma mín. Síðustu dagarnir á spítalanum voru yndislegir sem við áttum saman.

Fimmtudaginn 13. nóvember fórum við saman í föndur – létum gifsa hendurnar þínar, ætluðum að búa til skál úr þeim. Ég mun varðveita hana vel. Svo var það sunnudagurinn 16. nóvember, þegar við fjölskyldan komum öll saman, þann dag kvaddir þú okkur öll, einnig pabba, ég veit að það gladdi hjarta þitt mikið. Ég á eftir að sakna þín óendanlega mikið elsku mamma mín en ég veit að þú verður ávallt hjá mér, Matta, ömmuling, afaling og ljúfling. Ég veit ekki hvernig ég fer að án þín elsku mamma mín en ég mun gera mitt besta.

Takk fyrir að vera besta og yndislegasta mamma sem nokkur getur hugsað sér, takk fyrir þetta yndislega líf sem þú gafst mér, takk fyrir að vera besta amma barnanna minna, takk mamma mín fyrir allt. Sendu mér styrk til að takast á við tómarúmið í kringum mig og fylltu það með hlýjum og yndislegum minningum um þig. Hafðu það sem allra best elsku mamma mín og góða ferð á þinni nýju braut.

Megi minning þín lifa skært en sál þín hvíla í friði.

Ástar- og saknaðarkveðja.

Þín dóttir,

Agnes Linda.

Elsku tengdamamma.

Það var sannur heiður og forréttindi að fá að kynnast jafn yndislegri og fallegri konu og þér, elsku Tedda mín. Þessi tími sem við áttum saman var yndislegur og mun ég varðveita hann ávallt í hjarta mér. Þín verður sárt saknað en mundu, elsku Tedda mín, ég verð ávallt góður við Agnesi þína og mun ég passa hana vel eins og ég lofaði þér.

Ég bið góðan Guð að geyma þig, varðveita þig og gefa þér frið. Góða nótt, elsku fallega tengdamamma mín.

Ástar og saknaðarkveðja,

Þinn tengdasonur,

Matthías Karl.

Elsku Thea mín, eða mamma tvö eins og ég kallaði þig alltaf þegar við vorum að skrifast á þegar þið pabbi voruð á Flórída þar sem þið áttuð ykkar annað heimili. Þakka þér elsku Thea mín fyrir allar frábæru stundirnar sem við áttum saman á Flórída, golfið, mollferðirnar þar sem þú hjálpaðir mér að finna það sem ég ætlaði að kaupa mér, alltaf varst þú tilbúin að hjálpa mér. Siggi minn sagði alltaf þegar við vorum að setja upp gardínur eða hengja upp myndir: fáum Theu í „Theu“-heimsókn og látum hana ráðleggja okkur því hún hefur svo góðan smekk. Ég vil líka þakka þér fyrir að vera svona góð við hana Ingu mína, henni þótti rosalega vænt um Theu ömmu sína eins og hún kallaði þig alltaf. Núna hefur hún misst tvær ömmur á einu ári og er það mjög mikið fyrir svona lítið hjarta. Takk líka, elsku mamma tvö, fyrir að hafa staðið eins og klettur við hliðina á pabba mínum. Núna ert þú hjá Guði og öllum sem við elskum svo heitt.

Við elskum þig.

Þín

María Kristín Þorleifsdóttir,

Sigurður Finnsson

og Inga Sigurðardóttir.

Elsku fallega amma okkar.

Það var rosalega sárt að heyra að amma okkar væri farin til Guðs. Við trúðum því svo innilega að Guð myndi lækna hana af krabbameininu. Hún var besta amma í öllum heiminum, var svo góð við okkur, lifðir fyrir okkur. Við eigum eftir að sakna hennar svo. Mamma sagði við okkur að amma yrðir alltaf hjá okkur, núna væri hún engillinn okkar. Megi góður Guð vaka yfir henni ávallt. Bless elsku amma, við elskum þig og góða nótt.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér.

Því veit mér feta veginn þinn

og verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Þinn,

Fannar Ingi (ömmulingur),

Þórir Símon (afalingur) og

Theodór Kristinn (ljúflingur.)

Elsku besta Thea amma. Mér finnst ennþá eins og þú sért hérna með okkur, hafir bara farið til Flórída með afa og komir aftur. Það er svo skrítið að hugsa til þess að ég fái ekki að sjá þig aftur og ég kem aldrei til með að skilja af hverju lífið er svona erfitt stundum.

Það er ekki langt síðan afi sagði að við yrðum sennilega með ykkur um jólin á Flórída, en svo varðstu mikið veik, fórst á spítalann og komst aldrei aftur heim. Ég gleymi því aldrei þegar ég sá þig fyrst, því þú varst svo falleg og fín, með yndislegt bros og alltaf í nýjustu tísku. Ég var alltaf að monta mig af því að afi minn væri giftur fyrrverandi ungfrú Reykjavík sem mér fannst sko ekki leiðinlegt. Þú varst alger puntudúkka og allt heima hjá ykkur var svo fallegt og skínandi hreint. Myndir af öllum barnabörnunum út um allt og svo auðvitað hlaupabretti því alltaf vildi hún amma vera í góðu formi og líta vel út. Þegar þið afi sögðuð okkur fréttirnar af veikindum þínum þá trúði ég því að allt myndi fara á besta veg og þú gerðir það svo sannarlega líka. Þú varst ótrúlega jákvæð og ætlaðir nú alls ekki að láta þetta mein buga þig. Við héldum öll í vonina en á endanum sigraði sjúkdómurinn og eftir sitjum við með tárin í augunum.

Þær stundir sem ég átti með þér á spítalanum þykir mér ótrúlega vænt um. Við spjölluðum um lífið og tilveruna og þú varst alltaf með þitt fallega bros og þinn frábæra húmor sem fékk okkur öll til að hlæja. Ég er ólýsanlega þakklát fyrir kveðjustundina sem þú gafst okkur daginn áður en þú kvaddir, að ég hafi látið þig hlæja svona dátt er mér mikils virði og hvað þú naust þess vel að drekka tvöfaldan cappuccino með sem þú baðst mig um að lofa þér. Ég veit að núna ertu hjá Marinó bróður og öllum hinum sem bíða eftir okkur þegar að því kemur. Ég lofa að hugsa vel um afa fyrir þig á meðan.

Allt eins og blómstrið eina

upp vex á sléttri grund

fagurt með frjóvgun hreina

fyrst um dags morgunstund,

á snöggu augabragði

af skorið verður fljótt

lit og blöð niður lagði

líf mannlegt endar skjótt.

Ég lifi' í Jesú nafni,

í Jesú nafni' eg dey,

þó heilsa' og líf mér hafni,

hræðist ég dauðann ei.

Dauði, ég óttast eigi

afl þitt né valdið gilt,

í Kristí krafti' eg segi:

Kom þú sæll, þá þú vilt.

(Hallgr. Pétursson.)

Elska þig ávallt.

Þín

Ásgerður Ottesen.

Elsku amma mín.

Ég var 7 ára þegar þú og afi kynntust og fallegri konu hafði ég ekki séð. Þarna eignaðist ég ömmu sem var fegurðardrottning og með fallegt hjarta. 9 ára þá kem ég til Flórída með Ásu og Agnesi og þar var gaman að vera og þar áttuð þið svo sannarlega heima. Þangað var alltaf gaman að koma og verðum við þar þessi jól en ég mun sakna þess að hafa þig ekki þar, fara með okkur krakkana í golf og sýna okkur nýja húsið. Þú og afi áttuð svo vel saman og sárt er að hann sé nú búinn að missa besta vin sinn, en elsku amma, eins og þú sagðir við mig þá ertu ekki farin því þú ert í hjartanu mínu og okkar allra.

Þar sem þið afi voruð svo mikið úti þá skrifuðumst við á og töluðum saman á msn og ég man þegar við vorum að spjalla í febrúar eða mars og ég sagði þér að ég væri búin að kynnast æðislegum strák og þú óskaðir mér til lukku með það og sagðir að þú hefðir beðið guð um að ég myndi kynnast góðum strák. Svo að bæn frá Flórída barst alla leið til Íslands. Svo kvöddumst við því þú varst á leiðinni í golf með afa. Stuttu efir þetta þá komst þú heim til að fara í rannsóknir og varst þá komin með krabbamein. Þá hófst erfiður tími og það versta var að í hvert skipti sem þú og afi fenguð von og fóruð að plana eithvað þá komu alltaf slæmar fréttir og veikindin náðu yfirhöndinni.

Á þessum tíma flyt ég til Ameríku og enn og aftur eru okkar samskipti í gegnum tölvupóst, þannig sendi ég þér mína strauma og hlýju á þessum erfiða tíma. Þegar ég kom heim þá áttum við margar góðar stundir; þú og afi komuð að heimsækja mig í sveitina; þú, ég og Ása að hlusta á tónlist og setja á okkur ilmvatn; pönnukökuboðið þar sem var mikið hlegið og grínast. Þrátt fyrir veikindin þá varstu glæsileg, einlæg og með húmorinn í lagi.

Elsku amma, takk fyrir allar stundirnar sem við höfum átt saman, takk fyrir að hafa verið afa svona góð og okkur öllum í fjölskyldunni. Þú lifir í hjörtum okkar allra og ég mun gera þig stolta af mér. Kysstu Marinó, Ásgerði ömmu og allar kisurnar og voffana frá mér.

Elsku afi, Agnes og fjölskylda, megi guð vera með ykkur og styrkja.

Jóna Elísabet Ottesen.

Hún Tedda var ein af þeim konum sem settu mikinn svip á líf mitt.

Þegar ég kom inn í fjölskyldu hennar fyrir þrjátíu og fjórum árum sem kærasta bróður hennar, hans Sigurgeirs, tók Tedda mér opnum örmum. Það er alls ekki sjálfsagt að maður fái slíkar móttökur, sérstaklega ekki þegar maður rænir litla og eina bróðurnum frá stóru systur. Þegar við ungu hjúin fluttum í raðhúsið á ská á móti henni í Ásbúðinni var oft hlaupið yfir götuna til að leysa ýmislegt eða bara til að slúðra saman.

Það var gott að hafa Teddu svona nálægt.

Ég veit að æska Teddu og Sigurgeirs var ekki alltaf auðveld og trúlega hefur það sett djúp merki á þau bæði.

Á lífsleiðinni hittir maður marga og það eru ekki margir sem sitja eins mikið í minningunni eins og Tedda gerir í minningu minni.

Kæri Þorleifur, Þórður, Danni og Agnes, ég veit að minningin um góða eiginkonu og móður mun ylja ykkur í þessari miklu sorg og minning hennar mun lifa í ykkar hjörtum.

Gult lauf fauk af tré

hvarf út í bláinn

Hvert fór lítið lauf?

Lítið lauf kom aftur

varð blað í bók minni

gult lítið blað.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Guðrún Þóra Hjaltadóttir.

Elsku vinkona okkar hún Theodóra er látin, langt um aldur fram. Við vorum búin að gera svo margt skemmtilegt saman, en áttum samt eftir að gera svo mikið.

Það eru margar minningar sem fljúga í gegnum hugann. T.d. þegar við komum í fyrsta sinn heim til þín og Þorleifur kynnti okkur, hvað þú tókst okkur vel, umfaðmaðir okkur með svo mikilli hlýju eins og þér einni var lagið. Þegar þið buðuð okkur í íbúðina ykkar á Flórída, þar sem við áttum oft eftir að dvelja saman, og þegar við sögðumst ekki skilja hvernig þið gátuð þolað að hafa okkur inni á ykkur svona oft og lengi, svaraðir þú með þínu einstaka brosi: „Það er ekki sama hver er“ og okkur hlýnaði um hjartaræturnar eins og svo oft þegar þú áttir í hlut. Þegar við fórum í siglingarnar í Karíbahafinu. Þegar við fórum saman til Mallorca. Þegar við fórum saman til Kína. Þegar við fórum saman um landið okkar, t.d. frábæru ferðina síðastliðið sumar austur að Laugarvatni um helgi. Allar samverustundirnar sem við hlógum og gerðum að gamni okkar. Búðarferðirnar, rjómakaffið og súkkulaðikökurnar, svona mætti lengi telja. Aldrei bar skugga á okkar samverustundir sem er einstakt, í ljósi þess hve mikið og náið samband okkar var.

Þú varst einstök kona elsku Tedda, þú heillaðir alla með brosi þínu og elsku, tókst á við erfiðleika og veikindi af æðruleysi og sannri trú á að til væri almætti sem styrkti okkur þegar á móti blési. Elsku Theodóra okkar, við kveðjum þig nú í hinsta sinn, fullviss um að við munum hittast á ný, faðmast og hlæja saman sem aldrei fyrr.

Elsku Þorleifur, okkar kæri vinur, við biðjum Guð að gefa þér og fjölskyldunni allri styrk á erfiðum tímum, því missir ykkar er mikill.

Jóhanna og Brynjólfur.

Það er margt sem kemur upp í hugann þegar ég minnist frænku minnar, hennar Teddu. Við vorum systradætur og áttum fallegar sameiginlegar bernskuminningar. Bæði frá Varmadal á Stokkseyri þar sem við vorum saman hjá afa Guðna og ömmu Sigurbjörgu, en einkum úr Þrastaskógi, þar sem mæður okkar Agnes og Rósa voru nokkur sumur samtímis í sumarbústöðum með börnin sín. Tedda var nokkrum árum eldri en ég og var því mikilvæg fyrirmynd, sem ég leit upp til í öllum leikjum. Einkum var búaleikurinn vinsæll, spilamennskan um helgar svo og svokallaður vinkleikur í skóginum. Þá vorum við duglegar að finna þrastahreiður og sýna yngri bræðrum okkar eggin og ungana. Einnig var gaman að veiða með þeim síli í Álftavatni, og Tedda var sérlega laghent við þau stóru. Um helgar komu feður okkar í heimsókn, en þá var það leikur okkar barnanna að fara upp á svokallaðan háahól og geta sér til um hver af bílunum sem birtust í fjarska væri bíllinn þeirra. Þá var tekið á rás á móti þeim, eða til að láta mæður okkar vita, enda ávallt eitthvað spennandi að fá úr bænum. Sjaldan hef ég öfundað nokkra manneskju af nokkrum hlut, meira en Teddu af gifsinu þegar hún handleggsbrotnaði. Gifsið var allt útpárað með teikningum og nöfnum, af vinum og vinkonum. Hjörtu og örvar út um allt, mjög flott, þegar hún var 11 ára og ég sjö.

Á unglingsárum skildi leiðir, enda bjuggum við ekki í sama bæjarfélaginu. Það var þó ávallt gaman að koma í heimsókn til Agnesar og Bubba bæði í sumarbústað þeirra við Álftavatn og á Nesveginn að hitta þau Teddu og Geir bróður hennar. Auðvitað fylgdist ég vel með þegar Tedda frænka tók þátt í fegurðarsamkeppni, lék í kvikmynd eða birtist á síðum blaðanna af ýmsu tilefni. Einnig fylgdist ég með þegar hún eignaðist mann og börn og síðar nýjan mann og barnabörn.

Það var afar kærkomið að hitta þau Teddu og Þorleif í brúðkaupi Hjördísar systur minnar og rifja upp gömul kynni. Þar sagði hún mér frá dvöl þeirra Þorleifs á Flórída, og frá lífi þeirra þar. Ég heyrði af nýja húsinu þeirra sem hún hafði innréttað smekklega eins og hennar var von og vísa. En skjótt skipast veður í lofti, hjá henni eins og Agnesi móður hennar. Illvígur sjúkdómur dró hana til dauða á örskömmum tíma.

Theódóra var bráðfalleg, hlý og yndisleg við mig og mína bæði sem barn og síðar á lífsleiðinni. Eftir á að hyggja hefur sá vandi sem fólst í því að höndla fegurðina og frægðina vafalaust átt þátt í að gera líf hennar erfiðara en ella. Ég þakka henni samfylgdina og sendi Þorleifi og allri fjölskyldu Teddu mínar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Theódóru Þórðardóttur.

Guðný Guðbjörnsdóttir.

Theodóra okkar er horfin úr þessum heimi langt fyrir aldur fram. Við eigum eftir að sakna hennar mikið. Theodóra var ekki allra og þegar Þorleifur, okkar besti vinur, kom með hana inn í líf okkar fannst okkur það ekki auðsótt mál að kynnast henni. En þegar við komumst inn úr skelinni þá fundum við hvaða mann hún hafði að geyma. Hún var góð og falleg bæði innan sem utan. Það var aðdáunarvert að fylgjast með sambandi þeirra hjóna. Samheldni og virðing skipaði þar háan sess. Theodóra var afar skemmtilegur golffélagi og hafði gífurlegt keppnisskap. Við gátum hlegið endalaust eftir að hafa tekist á á golfvellinum. Nú eru þessar stundir ógleymanlegar.

Okkur fannst oft að Theodóra hefði átt að verða innanhússarkitekt, þvílík var smekkvísi hennar og ber heimili þeirra vitni um það.

Elsu Þorleifur, þú varst kletturinn í lífi hennar. Við vitum að undanfarnir mánuðir hafa ekki farið mjúkum höndum um þig né aðra sem að henni stóðu.

Elsku Agnes, það var yndislegt að fylgjast með sambandi ykkar mæðgna, missir þinn er mikill. Hugur okkar er hjá ykkur og öllum þeim sem syrgja Theodóru.

Vertu ekki grátinn við gröfina mína

góði, ég sef ekki þar.

Ég er í leikandi ljúfum vindum,

ég leiftra sem snjórinn á tindum.

Ég er haustsins regn sem fellur á fold

og fræið í hlýrri mold.

Í morgunsins kyrrð er vakna þú vilt,

ég er vængjatak fuglanna hljótt og stillt.

Ég er árblik dags um óttubil

og alstirndur himinn að nóttu til.

Gráttu ekki við gröfina hér –

gáðu – ég dó ei – ég lifi í þér.

(Þýð. Ásgerður Ingimarsdóttir.)

(Höf. ókunnur.)

Við vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Rósa og Árni.

Theodóra mín. Það var gaman að kynnast þér. Þú varst alltaf svo hress og kát. Ég trúi því ekki að þú sért farin, það var alltaf svo gott að tala við þig um daginn og veginn þegar við hittumst á ganginum í blokkinni okkar. Ég vona að Guð geymi þig í framtíðinni. Farðu í friði.

Stefán Konráðsson sendill.

Hinsta kveðja

Elsku fjölskylda. Við sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur vegna fráfalls fallegrar og yndislegrar konu.

Guð veiti ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Útrétt hönd,

faðmlag á erfiðum degi,

lífið lyftir sínum refsivendi.

Ég verð ávallt á þínum vegi.

Aldrei slitna okkar vinabönd,

alltaf þinn vinur þótt ég deyi.

(Höf. ók.)

Kveðja.

Heiða, Maria, Svava, Sandra og Ruth.

Við, bekkjarsystkini Teddu í Melaskóla í 7 ára til 12 ára G, á árunum 1952-1958, kveðjum Teddu okkar í dag. Hún var bæði elskuleg og falleg. Hún gerði okkur enn fallegri með nærveru sinni. Guð geymi hana og blessi hana.

Fyrir hönd 12 ára bekkjar G,

Helga S. Guðmundsdóttir.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.