Fjölskyldan Guðlaug Rún Margeirsdóttir ásamt portúgölskum eiginmanni sínum, Augusto Jose Da Silva Neto og börnunum, Jóhönnu Dís og Vilhelm Þór.
Fjölskyldan Guðlaug Rún Margeirsdóttir ásamt portúgölskum eiginmanni sínum, Augusto Jose Da Silva Neto og börnunum, Jóhönnu Dís og Vilhelm Þór. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú þegar Guðlaug Rún Margeirsdóttir er flutt til Íslands með fjölskylduna eftir meira en 20 ára búsetu í Portúgal ætlar hún að bjóða fjölskyldunni upp á saltfisk í jólamatinn þó íslenska hangikjötið hafi verið í öndvegi á jólaborðinu í Portúgal.

Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur

joinhanna@gmail.com

Var litla Jesúbarnið gott við þig?“ er gjarnan spurt í Portúgal þegar forvitnast er um það hjá yngstu kynslóðinni hvað jólapakkarnir hafi haft að geyma. Og í Portúgal er það soðinn saltfiskur með soðnum kartöflum, gulrótum, grænkáli og soðnu eggi sem er í aðalhlutverki á aðfangadagskvöld. Þá skiptir það máli að eiga vel valinn árgang af ólífuolíu til að bera fram með og rétta rauðvínið til að dreypa á, að sögn Guðlaugar Rúnar Margeirsdóttur, sem er nýlega flutt heim til Íslands eftir rúmlega tuttugu ára búsetu í Portúgal.

Guðlaug Rún starfar nú hjá bandaríska sendiráðinu og er auk þess að vinna að þýðingum íslenskra bókmenntaverka yfir á portúgölsku fyrir portúgölsk bókaforlög. Nú þegar hefur hún þýtt Engla alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson, Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness og Sér grefur gröf eftir Yrsu Sigurðardóttur. Um þessar mundir vinnur hún svo að þýðingu Brekkukotsannáls eftir Laxness. Guðlaug Rún fór fyrst á unglingsárum sem skiptinemi til Leiria í Mið-Portúgal og ákvað svo að afloknu stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands að skella sér á ný til Portúgals til að nema bókmenntir og portúgölsku. Fyrir valinu varð háskólabærinn Coimbra þar sem hún hitti svo portúgalska eiginmanninn, Augusto Jose Da Silva Neto, sem á þessum árum nam við Herakademíuna í Lissabon. Þau eiga börnin Jóhönnu Dís, 11 ára, og Vilhelm Þór, 15 ára, sem nú stunda nám í Austurbæjarskóla. Lengst af bjuggu þau í bænum Figueira Da Foz, 60 þúsund íbúa strandbæ norður af Lissabon.

Kóngakaka í öndvegi

„Portúgalar eru ekkert að stressa sig mikið í aðdraganda jólanna. Þeir skreyta þó að venju jólatréð fyrsta dag desembermánaðar og jólaljós eru sífellt að verða meira áberandi í gluggum og gróðri við híbýli manna. Á mörgum heimilum er sett upp jata með Jesúbarninu, Maríu, Jósef og vitringunum þremur og sumir ganga svo langt að búa til heilu þorpin sem eiga að minna á fæðingu frelsarans. Litlar dúkkur eru seldar út í búð og svo safnar fólk saman trjágreinum og mosa til að endurskapa þessa veröld heima í stofu. Fólk hugar auðvitað líka að jólagjafakaupum á aðventunni, en matarundirbúningurinn hefst svo ekki fyrir alvöru fyrr en á sjálfan aðfangadaginn. Verslunum er lokað þann dag klukkan 18.00 og á aðfangadag fer fólk svo að keppast við að búa til alls konar sætabrauð og eftirrétti, sem þurfa ekki kælingar við og fá að standa á borði alla jólanóttina og langt fram á jóladag. Kóngakakan er í hávegum höfð á jólum, en hún er ýmist keypt úti í bakaríi eða bökuð heima. Kakan er mótuð í hring og inniheldur rúsínur, súkkat og hnetur og svo eru sykurhjúpaðir ávextir, til dæmis appelsínur, grasker, kirsuber og gráfíkjur settir ofan á og flórsykri stráð yfir í lokin. Portúgalar kaupa saltfiskinn sinn heilan og útflattan og er sjálf saltfiskmáltíðin ekki fram borin fyrr en eftir 22.00 á aðfangadagskvöld. Jólasaltfiskurinn er því í mjög einfaldri útfærslu þó Portúgalar kunni að búa til svakalega flotta saltfiskrétti. Portúgalar eru kaþólskrar trúar og sumir fara í miðnæturmessu að máltíð lokinni og taka svo upp jólapakkana þegar heim er komið, en aðrir bíða með pakkana fram á jóladagsmorgun. Ekki tíðkast það meðal portúgalskra barna að setja skó í glugga í þrettán daga fyrir jól heldur setja fjölskyldumeðlimir allir einn skó af sér við jólatréð og er réttum pökkum raðað í kringum rétta skó og litlu pökkunum gjarnan stungið inn í þá. Á aðfangadag er umferð á götum úti mikil þar sem margir nota daginn og kvöldið til að hitta vini og fjölskyldur og borða þá saman enda þætti Portúgölum það ekkert tiltökumál þó ég tilkynnti vinkonu minni það að fyrra bragði að ég myndi mæta með fjölskylduna mína í mat til hennar á jólunum. Það væri litið á það sem bæði sjálfsagt og eðlilegt,“ segir Guðlaug.

Átveisla á jóladag

Íslenska hangikjötið var hins vegar venju fremur á jólaborði Guðlaugar á aðfangadagskvöld í Portúgal í stað saltfisksins við góðar undirtektir annarra fjölskyldumeðlima því mamma hennar og pabbi sendu henni alltaf slíkan nauðsynjavarning frá Íslandi fyrir jólin. „Á jóladagsmorgun fórum við til messu og brunuðum svo í mat til tengdaforeldra minna í Coimbra og hittum þar stórfjölskyldu mannsins míns. Þá tók við mikil átveisla, sem kallaðist hádegisverður, en var ekki fram borinn fyrr en um eða upp úr klukkan 14.00. Byrjað var á kjúklingaseyði og risarækjum, þá tók við hrísgrjónaréttur með alls kyns kjötmeti og grænmeti í og loks ofnbakað kiðlingakjöt með bökuðum kartöflum og grænmeti. Kampavín var svo borið fram með eftirréttahlaðborðinu. Í Portúgal er það til siðs að bera fram vín með matnum. Ég hef þó ekki upplifað það enn að sjá fólkið mitt kennt, hvað þá drukkið. Menn dreypa á einu staupi eða tveimur og láta þar við sitja. Á sumum heimilum er á jóladag búinn til réttur sem í daglegu tali kallast „Gömlu fötin“, en þá eru saltfisksafgangar frá aðfangadagskvöldi teknir og settir í nýtískulegri búning og hafðir sem aukaréttur með aðalréttinum, sem ýmist er kalkúnn, lambakjöt eða svínakjöt,“ segir Guðlaug Rún sem gefur uppskriftir að portúgölskum saltfiskrétti í aðalrétt, kóngakökunni góðu, graskersástarpungum og eggjabúðingi, sem eru réttir sem tilheyra á portúgalska eftirréttaborðinu.

Saltfiskur í hátíðarbúningi

500 g útvatnaður saltfiskur,

roð- og beinlaus

200 g gulrætur

200 g laukur

100 g smjör

1 brauðsneið án skorpu , bleytt í 1 1 dl af mjólk,

Salt og pipar,

Rifinn ostur

Béchamel-sósa fyrir fiskinn:

2 msk. smjör

2 msk. hveiti

5 dl mjólk

Salt, pipar og múskat,

Safi úr einni sítrónu

2 eggjarauður

1 dl. rjómi

1 eggjahvíta

Aðferð: Gulræturnar eru rifnar niður og laukurinn saxaður. Saltfiskurinn skorinn í fína strimla. Gulrætur og laukur hitað í smjörinu á pönnu og látið malla smávegis. Það má notast við smjör og ólífuolíu til helminga. Saltfiskurinn settur út í og látinn sjóða í nokkrar mínútur í viðbót. Bleytta brauðinu bætt saman við. Allt hrært saman og kryddað með salti og pipar.

Béchamel-sósan er búin til með því að hræra saman smjör og hveiti í potti, þynna með mjólk og krydda með salti, pipar og múskati. Að síðustu er sítrónusafanum og saltfiskblöndunni bætt út í helming sósunnar og þessu hellt í eldfast mót. Afgangur sósunnar er síðan blandaður eggjarauðum, rjómanum og stífþeyttri eggjahvítunni og þessu hellt yfir réttinn. Rifnum osti stráð yfir. Bakað í ofni í 170°C þar til rétturinn er orðinn gullinbrúnn að lit. Borið fram með kartöflum, brauði og einföldu salati.

Kóngakaka

750 g hveiti

30 g pressuger

150 g smjör eða smjörlíki

150 g sykur

150 g súkkat og/eða sykur-húðaðir niðurbrytjaðir ávextir

150 g blandaðar hnetur og rúsínur

4 egg,

Rifinn börkur af 1 sítrónu og 1 appelsínu

1 dl púrtvín

1 tsk gróft salt

Aðferð: Súkkatið, ávextir og hnetur lagðar í bleyti í púrtvíninu. Pressugerið leyst upp í 1 dl af volgu vatni og blandað saman við 1 bolla af hveitinu. Deigið látið hefa sig í 15 mín. Smjörið, sykurinn og börkur af sítrónu og appelsínu hrært saman. Eggjum bætt út í, einu í senn, og að lokum gerdeigið. Þegar allt hefur blandast vel saman er afgangurinn af hveitinu sigtaður út í ásamt saltinu. Hnoðað vel svo deigið verði mjúkt og teygjanlegt. Smávegis af volgri mjólk bætt út í ef nauðsyn þykir. Síðan eru ávexirnir og púrtvínið hrært saman við og búinn til hringur. Hveiti stráð yfir. Þá er klútur breiddur yfir og kakan látin hefast á hlýjum stað í allt að 5 klukkustundir. Þegar kakan hefur hefast, er hún hnoðuð aftur og búinn til hringur, í þetta sinn á smurðri ofnplötu. Látið hefast aftur í 1 klukkustund. Síðan er kakan pensluð með eggjarauðu og skreytt með sykruðum ávöxtum eða heilum hnetum, til dæmis blöndu af valhnetum, heslihnetum og furuhnetum. Flórsykri stráð yfir að lokum. Bakað í frekar heitum ofni. Setja má eldfast hringlaga ílát í miðjuna svo að opið lokist ekki.

Jólabúðingur

225 g sykur

1 tsk. maizenamjöl

2 egg og 4 eggjarauður

Rifinn börkur og safi úr 1 appel-sínu

1 dl púrtvín

500 ml mjólk

Aðferð: Um 150 grömm af sykrinum eru brædd á pönnu svo úr verði dökkbrún karamella. Bökunarform klætt. Afganginum af sykrinum og maizenamjölinu hrært saman og eggjum og eggjarauðum bætt út í ásamt appelsínusafanum og berkinum, púrtvíninu og mjólkinni. Öllu blandað vel saman og hellt í gegnum sigti í formið. Sett í vatnsbað og bakað í 1 klukkustund í 160°C heitum ofni. Látið kólna áður en búðingurinn er tekinn úr forminu.

Graskersástarpungar

2 kg grasker

80 g hveiti

4 egg

4 msk. sykur

2 appelsínur

Kanelsykur

Aðferð: Graskerið soðið í söltu vatni. Það síðan tekið úr vatninu og maukað. Sett í síu svo að allt vatn leki úr graskersmaukinu. Eggjarauðum, sykri og safa úr appel-sínum ásamt rifnum appelsínuberki blandað saman við graskersmaukið og hrært vel saman. Að lokum skal blanda saman við stífþeyttar eggjahvíturnar. Mótið litla punga í höndunum, djúpsteikið þá í heitri olíu og láta þorna á eldhúspappír. Pungunum er síðan velt upp úr kanelsykri og raðað á fat.

Fylltar gráfíkjur

Gráfíkjur skornar til helminga og fylltar með því að setja inn í þær hnetukjarna eða möndlur.