Hvað með Fellini - Síðari hluti. Hugarangur, efi og ótti við endalok kvikmyndarinnar Eftir HILMAR ODDSSON Þunglyndi hrjáði Fellini á tímabili, hann tók að efast um getu sína og hæfni og samstarfsmenn tóku að kvarta undan ofríki leikstjórans.

Hvað með Fellini - Síðari hluti. Hugarangur, efi og ótti við endalok kvikmyndarinnar Eftir HILMAR ODDSSON Þunglyndi hrjáði Fellini á tímabili, hann tók að efast um getu sína og hæfni og samstarfsmenn tóku að kvarta undan ofríki leikstjórans. Síðasta myndin varð ekki ein af meistaraverkunum. Fellini lézt 31. október á síðasta ári.

úlía og andarnir er um margt sérkennileg mynd. Einhver sagði að hún væri um frelsun sjálfsins (hvað sem það nú í raun þýðir). Það er alla vega hægt að slá því föstu að hún fjalli um sálarlíf konu. Konuna leikur að sjálfsögðu Giulietta Masina, enda má gera ráð fyrir að Fellini hafi þekkt sálarlíf hennar betur en annarra kvenna. Júlía og andarnir markar endalok samstarfsins milli Fellinis og meðskrifaranna Pinellis og Flaianos. Samstarfs sem hafði kallað fram það besta í Fellini og víst munu margir halda því fram að hann hafi aldrei náð sömu hæðum með arftakanum, Bernardino Zapponi, þótt vissulega hafi þeir endrum og eins flogið hátt.

En áður en nýr tími rann í hönd þurfti Fellini að ganga í gegnum þunglyndi, tímabil þar sem hann tók að efast um getu sína og hæfni. Myndinni um Júlíu var fremur illa tekið og nokkrir samstarfsmenn tóku að kvarta yfir ofríki og yfirgangi leikstjórans, hann væri farinn að ganga fram af þeim, líkamlega sem andlega. Það hefði einhvern tíma þótt tíðindum sæta, því Fellini hafði alla tíð verið frægur fyrir óbilandi bjartsýni og uppörvandi fídonskraft. Nú varð hann, eins og svo margir listamenn verða einhvern tíma á göngu sinni, fórnarlamb efans. Hann lenti í stökustu vandræðum með fyrirhugaða mynd, (Il viaggio di G. Mastorna ­ Ferðalög G. Mastorna) sem á endanum var aldrei gerð, og lenti upp á kant við framleiðandann Dino De Laurentis. 10. apríl 1967 fékk hann taugaáfall og var fluttur á sjúkrahús með brjósthimnubólgu. Eftir heilsudvöl í Manziana, þar sem hann skrifaði bókina La mia Rimini, (hann rifjar þar upp ýmislegt úr æsku sinni í Rimini), tók honum smám saman að batna. Það hjálpaði til að framleiðandinn Alberto Grimaldi keypti hann burt frá skuldbindingum við De Laurentis.

Við tók annað samvinnuverkefni, í þetta skiptið með frönsku leistjórunum Louis Malle og Roger Vadim. Samnefnari þríleiksins voru sögur eftir Edgar Allan Poe. Hlutur Fellinis nefndist TOBY DAMMIT og var lauslega byggður á sögunni "Never Bet the Devil your Hand". Í aðalhlutverki var hinn enski Terence Stamp.

Árið 1969 sendi Fellini svo frá sér heimildarmyndina Block-notes di un regista, Minnisbók leikstjóra. Hún var tekin á rústum leikmyndar sem byggð hafði verið fyrir "Mastorna-myndina" og skoðast sem eins konar uppgjör við verk sem aldrei var gert.

Þá er komið að Satyricon, myndinni sem Háskólabíó sýndi á mánudögum, eins og svo mörg meistaraverkin. Satyricon er byggð á samnefndri bók eftir Petronius Arbiter, og þótti lítt til kvikmyndunar fallin. Hún gerist að mestu í hinni fornu Róm, þar sem menn lifa lífinu lifandi dauðu.

I clowns, Trúðarnir, var gerð í samvinnu við Ítalska sjónvarpið RAI og frumsýnd þar um jólin árið 1970. Trúðana gerði Fellini fyrst og fremst í virðingarskyni við fjölleikahúsið og þá mörgu fjöllistamenn sem höfðu gefið honum ógleymanlegar stundir og örvað anda hans.

Við tóku tilviljanakenndar tökur í heimaborginni Róm, tökum sem átti að ljúka þegar filmuhráefnið væri uppurið. Ekki var stuðst við handrit og engin tilraun gerð til að segja samfellda sögu. Útkoman var brot minninga og andrúms, Roma, Róm Fellinis, Róm okkar tíma á tveimur klukkustundum undir skondinni leiðsögn Fellinis.

Amarcord, sem frumsýnd var árið 1973, er uppfull af skemmtilegum minningum frá Rimini. Fellini hafði sem sagt fengið minnið, eða skáldað uppúr óljósum minningarbrotum, og hrært svo öllu saman í bráðskemmtilegan nostalgíugraut. Hér ægir saman ýmsum af manndómsraunum unglingsáranna þar sem klerkar og fasistar keppa um sálirnar. Fyrir Fellini var Amarcord meira en persónulegt uppgjör við æskuna, með henni vildi hann m.a. vara við uppgangi fasisma á síðari árum.

Þá er komið að mynd sem olli skapara sínum ómældu hugarangri. Hann virtist óþreytandi í að fárast yfir eigin verki, hvað hann tæki út að filma þessi leiðindi, hann væri jú einungis að uppfylla gamlan samning. Meginástæða þessara ummæla er sú að Fellini hafði staka óbeit á söguhetjunni, og slík tilfinning var ný fyrir honum. Sá sem verðskuldaði þessa andúð skapara síns var enginn annar en kvennamaðurinn og graðfolinn Casanova. Il Casanova di Federico Fellini, Casanova Fellinis, fjallaði að mati leikstjórans um tómleika og dauða. Síðar, þegar hann var orðinn eitthvað sáttari við viðfangsefnið sá hann ákveðna samsvörun milli sín og söguhetjunnar, að því leyti að Casanova væri maður sem sífellt hefði haldið sýningar á sjálfum sér, og fyrir bragðið gleymt að lifa. Casanova varð dýrasta mynd Fellinis og nánast allt Cinecitta var undirlagt meðan á tökum stóð. Hvað sem olli, neikvæðni Fellinis, eða önnur lögmál, þá fékk Casanova, með Donald Sutherland í titilhlutverkinu, slæmar viðtökur víðast hvar. Það þarf ekki að taka það fram að mikið tap var á fyrirtækinu.

Fellini var ekki maður til að standa í stórræðum eftir Casanova. Næsta mynd var því lítil, á fellinískan mælikvarða. Hins vegar var hún um margt ákaflega vel heppnuð. Prova d'orchestra, Hljómsveitaræfingin, var aðallega gerð fyrir sjónvarp, en eins og aðrar myndir Fellinis rataði hún víða upp á hvíta tjaldið.

Myndin gerist alfarið á hljómsveitaræfingu og lýsir kostulegum samskiptum hljóðfæraleikaranna innbyrðis og við stjórnandann. Auðvitað fjallar myndin í raun og veru um eitthvað allt annað en hljóðfæraleik.

La citta delle donne, Kvennabærinn, er ein af þessum kostulegu Fellini-myndum sem áhorfandinn á í stökustu vandræðum með að mynda sér ákveðnar skoðanir á.

Það gekk sannarlega á ýmsu við gerð Kvennabæjarins. Nino Rota, nánasti samstarfsmaður og vinur Fellinis, dó 10. apríl, 1979. Fellini var sem hálfur maður við fráfall vinar síns. Ettore Manni, einn af aðalleikurum myndarinnar, framdi sjálfsmorð áður en tökum lauk. Tökur voru stöðvaðar, en hófust stuttu síðar aftur. Þá handleggsbraut Fellini sig og önnur slys á starfsliði fylgdu í kjölfarið. Næst dó nuddari leikstjórans og skömmu síðar móðir aðalleikarans, Mastroiannis.

Auðvitað vakti Kvennabærinn sterk viðbrögð, annað var nánast útilokað. Viðbrögðin voru þó ekki einhlít, þótt ýmis kvenréttindasamtök tækju henni óstinnt. Við höfum þegar fjallað örlítið um samband Fellinis og kvenna: "Sumir óttast Guð, ég óttast konur" er haft eftir Fellini. Í Casanova lagði hann ímynd karlmannsins sem elskhuga í rúst, í La citta delle donne ímynd karlmannsins sem yfirdrottnara.

E la nave va, Og skipið siglir áfram, sem frumsýnd var árið 1983, er fantasía sem gerist á skemmtiferðaskipi, en hefur verið túlkuð sem óður til bíósins, til bíómyndarinnar, en jafnframt viðvörun við áhrifamætti sjónvarpsins, sem að mati Fellinis var að ganga af kvikmyndinni dauðri. Fellini óttaðist ragnarök kvikmyndarinnar, í því formi sem hann unni henni.

Það var því rökrétt framhald að ráðast á gerviveröld sjónvarpsins. Það gerði hann í myndinni Ginger e Fred, Ginger og Fred, þar sem uppáhaldsleikararnir Giulietta Masina og Marcello Mastroianni fara á kostum í hlutverkum gamals danspars sem er dubbað upp fyrir framkomu í sjónvarpsþætti. Ginger e Fred var frumsýnd árið 1985 og gekk illa.

Þegar hér var komið sögu ríkti kreppa í ítalskri kvikmyndagerð. Myndir listamanna á borð við Fellini gengu illa og erfitt var að fjármagna þær. Samt fannst Fellini hann ekki hafa játað kvikmyndinni nógsamlega ást sína. Það gerði hann enn einu sinni á ljúfsáran hátt í næstsíðustu mynd sinni, Intervista, Viðtalið, frá árinu 1987. Intervista er að mestu leyti tekin í Cinecitta-myndverinu og hefur yfirbragð sviðsettrar heimildarmyndar. Við fylgjumst með nokkrum japönskum kvikmyndagerðarmönnum fylgjast með Fellini og nánustu samstarfsmönnum, við leik og (aðallega) störf.

Síðasta mynd Fellinis var La voce della Luna. Hennar verður ekki minnst sem eins af meistaraverkum leikstjórans mikla. Hún er af flestum álitin veikur endurómur fyrri afreka. Intervista hefði í sjálfu sér verið verðugri og fallegri kveðja í lok starfsævinnar, en Fellini vissi ekki fremur en aðrir hvenær kallið kæmi. Fellini lést á sjúkrahúsi í Róm 31. október á síðasta ári. Hann fékk hjartaáfall tveimur vikum áður og lá í dái, tengdur við öndunarvél, síðustu tíu dagana.

Það er erfitt að bera Fellini saman við aðra kvikmyndaleikstjóra. Það hefur þó verið gert og sérfræðingar hafa komist að ýmsum athyglisverðum niðurstöðum. Margir hafa nefnt Bunuel og Bergman sem andleg skyldmenni Ítalans, en athyglisverðastur þykir mér samanburðurinn við Tarkovski.

Við fyrstu sýn virðast þeir eiga fátt sameiginlegt, en þegar dýpra er kafað kemur ýmislegt í ljós. Báðir taka sér fyrir hendur ótal ferðir á vit minninganna og töfra fram stórfenglegar sýnir úr iðrum undirmeðvitundarinnar. Rússinn sveipar boðskap sinn dulúð og alvöru, en Ítalinn dregur upp kostulegar skopmyndir af manneskjunni án þess að hæðast að henni. Tarkovski dáði Fellini, sérstaklega ljóðrænu hans. Þetta gæti verið æðsti dómur dauðlegs manns um verk Federicos Fellinis, við skulum alltént gera hann að lokaniðurstöðu, því hann er kveðinn upp af mesta ljóðskáldi hvíta tjaldsins.

Höfundur er kvikmyndaleikstjóri.

1)

Úr Júlía og andarnir, frá 1965. Myndin er um sálarlíf konu , eða frelsun sjálfsins.

2)

Satyricon,frumsýnd 1969, gerist í hinni fornu Róm, þar sem menn lifa lífinu lifandi dauðir.

3)

Amarcord var frumsýnd 1973. Í myndinni eru skemmtilegar minningar Fellinis frá Rimini, en um leið uppgjör við æskuna - og fasismann.

4)

Fellini við upptöku á "Hljómsveitaræfingunni", sem frumsýnd var 1979.

5)

Úr einni af síðustu kvikmyndum Fellinis, Ginger og Fred, sem frumsýnd var 1985.