Skólakerfið sem verkfæri Vinstri slagsíða í kennslubókum Eftir SIGLAUG BRYNLEIFSSON Gluggað í kennslubækur í Íslandssögu og mannkynssögu fyrir grunnskóla, "Uppruna nútímans" eftir Gunnar Karlsson og Braga Guðmundsson, og "Samferða um söguna" eftir Svíann...

Skólakerfið sem verkfæri Vinstri slagsíða í kennslubókum Eftir SIGLAUG BRYNLEIFSSON Gluggað í kennslubækur í Íslandssögu og mannkynssögu fyrir grunnskóla, "Uppruna nútímans" eftir Gunnar Karlsson og Braga Guðmundsson, og "Samferða um söguna" eftir Svíann Bengt Ake H¨ager. Þar er gengið út frá marxískri söguskoðun, víða hallað réttu máli en annað beinlínis falsað.

augardaginn 6. nóvember sl. birtist leiðari í Morgunblaðinu: "Skólastefna á villigötum". Höfundurinn ræðir skólastefnu undanfarinna tveggja áratuga og í sambandi við það er vitnað í viðtal við Helgu Sigurjónsdóttur, en hún hefur ritað mjög athyglisverðar greinar um skólakerfið og árangur þess undanfarna áratugi, sem er vægast sagt ákaflega bágborinn. Minnst er á kennslutilhögun í Íslandssögu í þessu sambandi og dregur Helga upp mynd af þekkingarstigi nemenda í sögu þjóðarinnar eftir að hafa notið fræðslu í þeirri grein í ríkisútgefnum kennslubókum. Samkvæmt niðurstöðu hennar virðist þekking nemenda eftir grunnskóla í Íslandssögu vera tilviljunarkennt hrafl, og kemur sú niðurstaða heim við reynslu nemenda og kennara ef þeim bókakosti undanfarin tuttugu ár. En það býr hér meira að baki. Í þessum kennslubókum í Íslandssögu virðist fylgt vissum hugmyndafræðilegum kenningum og innrætingu. Það þarf ekki að blaða mikið í þessum ritum til að merkja útlistun á viðfangsefnunum til ákveðinnar hugmyndafræðilegrar áttar. Leiðarahöfundur skrifar: "Spyrja má hvort litið hafi verið á skólakerfið sem verkfæri til að vinna að ákveðnum hugmyndum varðandi þjóðfélagsþróunina." Hvað snertir grunnskólakerfið þá er svarið játandi. Ekki þarf annað en að athuga ríkisútgefnar kennslubækur í þeim greinum, sem móta hugmyndir nemenda um sögu þjóðarinnar fyrr og síðar og einnig svonefndar kennslubækur í "félagsfræði" og "bókmenntum". Bækur þessar eru afhentar nemendum endurgjaldslaust svo að ekki kemur til notkun annarra bóka í grunnskólakerfinu.

Stefna fræðsluyfirvalda hefur hingað til mótast af kenningum um "samfélagsfræði" varðandi sögukennslu, eins og þær kenningar birtast í auglýsingu um gildistöku aðalnámskrár grunnskóla - Samfélagsfræði - frá 1977. Þótt reynt væri að hamla gegn "samfélagsfræðinni" og "samfélagshópnum" á sínum tíma og hann leystur upp, þá hafa "samfélagsfræðasinnar" verið iðnir við að setja saman bækur í svipuðum dúr og hópurinn sálugi og efninu síðan dreift í skólana. Þannig hefur ríkisútgáfan - Námsgagnastofnun dreift hugmyndafræðinni frá 1977. Þær hugmyndir byggjast í öllum aðalatriðum á marxískri söguskoðun, sjálfkrafa "þróun" þjóðfélagsins í átt til fullkomnunar hins "vísindalega sósíalisma" til hins endanlega samfélags, þar sem allar andstæður upphefjast. í þessu lykilriti samfélagsfræðinnar í íslensku skólakerfi er m.a. lögð mikil áhersla á að "skýra af hvaða rótum þjóðfélög nútímans eru sprottin". Samkvæmt kenningum marxista voru vestræn þjóðfélög og eru, þjóðfélög auðmagnsins og arðránsins og því fordæmanleg samkvæmt kenningum "vísindalegs sósíalisma". Þjóðfélög sem grundvallast á persónufrelsi, eignarrétti, lagasetningu sem var og er mótuð af virðingu fyrir einstaklingnum og kristnum siðahugmyndum eru samkvæmt marxískri kenningu leikvöllur græðginnar og arðránsins. Hatur á ríkjandi þjóðfélagsgerð Vesturlanda varð að magna á allan hátt, enda segir í títtnefndum bæklingi "Samfélagsfræði", að "fornar dyggðir" komi að litlu haldi við uppbyggingu hinnar nýju samfélagslegu vitundar. Spyrja má hvað höfundar bæklingsins eiga við með "fornum dyggðum"? Eru það grundvallarkröfur um mennska og mannlega hegðun, t.d. þú skalt eigi stela, myrða, ljúga og svíkja, eins og þessar kröfur birtast í hinum fornu boðorðum kristninnar og skilyrðislausri kröfu Kants? Þessar kröfur marka öll lög siðmenntaðra þjóða og hafa alltaf gert og gera. Eru þetta hinar "fornu dyggðir, sem höfundar kversins um samfélagsfræði eiga við? Höfundar velja söguleg viðfangsefni til þess að "skýra af hvaða rótum þjóðfélög nútímans eru sprottin". Því nefndist kennslubók, sem er ætluð framhaldsskólum í Íslandssögu frá 850 til níunda áratugs 20. aldar: "Uppruni nútímans", sem kom út í fyrstu útgáfu 1988, eftir Braga Guðmundsson og Gunnar Karlsson. Höfundar skrifa í inngangi að kennarahandbók sem var gefin út sama ár með kennslubókinni: "Okkar hugmynd er að þessi bók sé fyrsta skrefið í áttina til að samþykkja kennslu í sögu og félagsvísindum í framhaldsskólum . . ." Þetta þýðir, að frásögn um liðna atburði og viðhorf fyrri tíðar manna eru rakin að nokkru, en megin þungamiðjan eru "félagsvísindi" undir forteiknum marxískrar söguskoðunar í gervi þróunar til þess sem höfundar nefna aukið lýðræði í mynd aukinnar stöðlunar og aukins ríkisvald, sem er ætluð forsjárhyggjan yfir þegnunum. Þar með hefur lýðræðið snúist upp í andstæðu sína.

Stefna marxískra félagsvísinda 1988 í ríkjum Austur-Evrópu var talin stefna að kórréttri þróun til samstillts og hnökralítils sameignarsamfélags, að dómi marxískra félagshyggjumanna þar og á Vesturlöndum. Smávegis ágallar yrðu lagfærðir í tímanna rás og þrátt fyrir vafasamar tiltektir vissra valdamanna, stefndi þó í rétta átt. Fyrirmynd framtíðarríkis á Íslandi var að finna í velferðarríkjum Austur-Evrópu sem einkenndust af lýðræðisþróun og aukinni velferð þegnanna. Í kennslubókum í sögu í alþýðuvísindunum var dregin upp heldur dökk mynd af fortíðinni, eins og höfundar Uppruna nútímans gera svikalaust, kúgun, arðrán og illska voru einkenni fortíðarinnar og til staðfestingar er vitnað í ýmsar heimildir, þar á meðal er oft tekinn kafli úr skáldsögu Halldórs Laxness, Sölku Völku, að því er ætla má, sem heimild um lífið í íslensku sjávarþorpi og kúgun kapítalistans Jóhanns Bogesens á alþýðunni. Á öðrum stað eru kenningar organistans í Atómstöð sama höfundar notaðar sem raunsæ viðmiðun í siðferðisefnum.

Framfarir í atvinnurekstri virðist hafa orsakast af sjálfu sér, ekki er annað að sjá en að togararnir hafi tímgast af sjálfu sér, engir athafnamenn nefndir í sambandi við togaraútgerð. Aftur á móti eru ítarlegir þættir um forustumenn verkalýðsfélaga og nákvæm frásögn af baráttu Kommúnistaflokks Íslands, síðar Sameiningarflokks alþýðu og síðan Alþýðubandalags.

Umfjöllun höfunda um utanríkismál hefur ekkert breyst frá 1988, sú umfjöllun er endurprentuð í útgáfunni 1992. Á þessu tímabili 1988­1992 hefur margt gerst, e.t.v. örlagaríkustu atburðir í sögu Evrópu um aldir og þar með heimsins alls. En byltingarnar 1989 virðist ekki hafa hamlað höfundum og útgefndum að endurprenta 1988 útgáfuna óbreytta. Því verður margt í þessari bók einkum eftir 1917­1920 varðandi utanríkismál falssaga, sé tekið tillit til staðreynda sem birst hafa úr skjalasöfnun fyrrum alþýðulýðvelda og Sovétríkjanna. Rússneskir sagnfræðingar telja nú, að saga Sovétríkjanna sé hrikaleg lygasaga allt frá 1917 og þar með hrynja þær forsendur sem voru grundvöllur söguskilnings vestrænna marxista í sögutúlkun. Þessi falssaga snerti ekki lítið viðhorfin í íslenskri prólitík til utanríkismála. Marxistar (kommúnistar) hér á landi voru ósparir á að brigsla pólitískum andstæðingum sínum um landráð í sambandi við vestræna samvinnu í varnarmálum. En nú kemur á daginn að öll þau landráðabrigsl og svívirðingar voru á sínum tíma lygar einar og áttu sér upptök í þeim haganlega ofna lygavef sem valdahópar alþýðulýðvelda og Sovétríkjanna ófu af mikilli elju og iðni og sem teygðist um alla heima. Trúnaðarmenn KGB voru iðnir við vefnaðinn hér á landi sem annars staðar. Því hærra sem hrópin "Ísland úr Nato herinn burt" gullu því brýnni voru hagsmunir stórveldisins í austri. Sú tengsl voru á vitorði trúnaðarmannanna og þeirra sem dyggast unnu að "framgangi sósíalismans á Íslandi". Því er kennslubókin "Uppruni nútímans" úrelt og það sem meira er falsrit varðandi íslensk utanríkismál á 20. öld. Aðrir þættir ríkisins eru einnig ófullnægjandi eða hallað réttu máli og er nánari grein gerð fyrir þeim þáttum og bókinni í heild á öðrum vettvangi sem og kennslubókum í Íslandssögu, sem ríkisútgáfan gefur út, en þær bækur eru ritaðar frá samskonar sjónarhóli og þessi bók.

Á framhaldsskólastigi gefast valkostir í vali kennslubóka, bæði í Íslandssögu og mannkynssögu. Bækur þar sem höfundar skrifa söguna frá víðara sjónarhorni og hinn þröngi söguskilningur marxismans á sögulegri nauðsyn og einstefnu "samfélagsþróunarinnar" gildir ekki, auk þess sem menningarsögunni er ekki sleppt, eins og í þeim þýddu kennslubókum í mannkynssögu sem flokkast mega til "skandinavískrar sagnfræði" (sbr. ritdóm Jóhanns Hjálmarssonar um ritröð AB; 15 bindi, í sl. mánuði í Morgunblaðinu). Eina mannkynssagan sem ætluð er grunnskólum er "Samferða um söguna" sem kom út í þýðingu 1987, höfundur er sænskur, Bengt Ake H¨ager, önnur útgáfa 1990, þá gefin út í samvinnu við Námsgagnastofnun. Bók þessari er dreift í grunnskólana af stofnuninni. Í annarri útgáfu bókarinnar leitast höfundur og þýðendur við að halla réttum staðreyndum á þann veg að byltingarnar í Austur-Evrópu verði í rauninni framhald til lýðræðislegs sósíalisma, í stuttu máli, leitast við að ljúga sig frá lygi fyrri útgáfu, en lygin um fyrri tíma stendur óbreytt.

Í framhaldsskólum eru valkostir, en furðu víða hefur ritið Mannkynssaga I­II eftir Asle Svein og Svein A. Aastad, þýðing 1985 og 1989, verið notuð. Saga þessi er marxísk "skandinavísk sagnfræði" upp á sitt besta.

Nú hagar svo til að í grunnskólakerfinu er sögu- og samfélagskennsla bundin við kennslubækur, sem eru afmarkaðar ákveðinni hugmyndafræði og þótt þessi hugmyndafræði - vísindalegur sósíalismi - sé nú marklaus og dauð með hruni valdakerfa Austur-Evrópu, sem voru reist á þeim fræðum, þá er haldið áfram að innræta nemendum grunnskólanna þessi úreltu fræði með falsaðri útmálun þjóðarsögunnar og mannkynssögunnar. Þar er ekkert val, aðeins tiltækar bækur í þessa veru. Það var því skrýtið þegar einn frumkvöðla hinnar nýju söguskoðunar (feluorð um marxíska söguskoðun), kennslukraftur við Kennaraháskóla Íslands, hélt því fram í umræðuþætti um skólamál í sjónvarpi nú í janúar, "að eldri bækur fræðslukerfisins væru úreltar". Séu einhverjar sögukennslubækur úreltar, þá eru það bækur ritaðar í anda hinnar nýju söguskoðunar. Minna má á að myndaþáttur um þær skoðanir birtist á skjánum í þáttum Baldurs Hermannssonar, reyndar gróf útlistun en inntakið var þaðan runnið.

Í framhaldsskólakerfinu er um val kennslubóka í sögu og Íslandssögu að ræða, þar hafa einokunarsinnar marxískra fræða ekki náð aðstöðu til jafn gegndarlausrar innrætingar og í grunnskólum.

"Fornar dyggðir koma að litlu haldi" við nútímalegar aðstæður, eins og segir í inngangi að samfélagsfræði frá 1977. Og vissulega komu "fornar dyggðir" lítt við sögu innan valdakerfa alþýðulýðveldanna og Sovétríkjanna. Þar var lygavefurinn ofinn og stjórnaraðgerðir byggðust á lygum, svikum, stuldum og morðum, eins og nú er almennt vitað, nema hvað íslenskir áhangendur "vísindalegs sósíalisma" virðast enn blýfastir í þeim rykfallna vegi lyginnar og láta ekki sitt eftir liggja að innprenta hina úreltu heimsmynd marxískrar söguskoðunar nemendum sínum, reyndar með smávegis tilburðum að í þá átt að "ljúga sig út úr lyginni" en í lokin virðist eins og ekkert hafi gerst. Skólakerfið er notað sem verkfæri, þar sem því verður við komið.

Höfundur er rithöfundur og fyrrverandi kennari.

1)

"Uppruni nútímans" er um Íslandssöguna eftir 1830. Þetta er 373 blaðsíðna bók með fróðlegu myndefni. En áherzlur eru skringilegar. Til dæmis er mynd af verkamanni sem stundum skrifaði í Þjóðviljann, en á hinn bóginn er ekki hægt að sjá að Thor Jensen hafi verið til. "Samferða um söguna" er eina mannkynssagan sem ætluð er grunnskólum. Höfundurinn, Bengt Ake H¨eger, leitast við að halla réttum staðreyndum um þróunina í Austur-Evrópu og að byltingarnar þar séu í raun framhald til lýðræðislegs sósíalisma.

3)

Í "Uppruna nútímans" er slagsíða í þá veru að mikil áherzla er á verkalýðsbaráttu og allar vinstri sinnaðar hreyfingar.