Um Hólaskóla hinn forna Eftir GÍSLA JÓNSSON Jón Ögmundarson (1052­1121) var fyrsti biskup á Hólum, vígður 1106. Jón var hinn ágætasti maður á allan hátt, vel á sig kominn andlega og líkamlega og lærður vel.

Um Hólaskóla hinn forna Eftir GÍSLA JÓNSSON Jón Ögmundarson (1052­1121) var fyrsti biskup á Hólum, vígður 1106. Jón var hinn ágætasti maður á allan hátt, vel á sig kominn andlega og líkamlega og lærður vel. Hann var siðavandur og fékk afnumið margra kynja hégiljur og hindurvitni.

istin að lesa og skrifa barst hingað með kristninni. Áður þekktu menn hér aðeins hið vandmeðfarna og torræða rúnaletur. Sunnlenskir kirkjuhöfðingjar héldu einkaskóla sem mikið orð fór af, og skal einkum minnst kennslu Ísleifs biskups, sem frábær þótti. Sonur hans Teitur hélt og skóla frægan í Haukadal og kenndi með öðrum Ara fróða klerkleg fræði, og Sæmundur fróði og Eyjólfur sonur hans héldu skóla í Odda.

Jón Ögmundarson hafði skamman tíma verið byskup á Hólum, er hann efndi þar til skólahalds með meiri brag, en fyrr þekktu menn hérlendis. Verður að ætla að skóli hans sé hinn fyrsti eiginlegi lærður skóli eða dómstóll hérlendis, eins og þeir gerðust í skjóli kaþólsku kirkjunnar á miðöldum, fyrsti menntaskóli á Íslandi. Að sjálfsögðu var undirstaða alls náms þá sem nú lestur og skrift. En svo er að sjá sem Jón hafi ekkert til sparað að reyna í skólahaldi sínu að halda til jafns við það besta sem hann hafði kynnst erlendis á ferðum sínum. Til að stýra skólanum fékk hann austan af Gautlandi einn hinn besta og snjallasta klerk, er Gísli hét Finnsson, og gerðist hann þar með hinn fyrsti skólameistari á Íslandi, eða scholasticus, eins og það var kallað á latínu. Jón reiddi honum mikið kaup til hvors tveggja, að kenna prestlingum og veita uppihald heilagri kristni með sjálfum honum.

Svo er frá Gísla þessum sagt, er hann predikaði fyrir fólkinu, að þá lét hann jafnan liggja bók fyrir sér og tók þar af slíkt er hann talaði, og gjörði hann þetta mest af forsjá og lítillæti, að þar sem hann var ungur að aldri, þótti þeim meira um vert, er til hlýddu, að þeir sæi það, að hann tók sínar kenningar af helgum bókum, en eigi af einu saman brjóstmegni sínu og hugviti. En mikil gifta fylgdi kenningum hans. "Þær voru linar og léttbærar öllum góðum mönnum; vitrum mönnum þóttu þær skaplegar og skemmtilegar, en vondum mönnum varð að þeim ótti mikill og sönn hirting, enda tóku þeir gjarna mikla skipan og góða um sitt ráð."

GRAMMATICAM OG HÓMILÍUR

Í Stokkhólmi er varðveitt íslensk skinnbók mjög forn að stafsetningu, beygingum og orðfæri. Hún er kölluð Hómilíubók og hefur að geyma guðsorð, og hef ég síðan orðrétt eftir Jóni Helgasyni prófessor: "Sumt bætir, en mest kveður að lestrum á mismunandi helgidögum kirkjuársins; augljóslega er gert ráð fyrir að prestur lesi og ávarpar hann einatt söfnuðinn: góð systkin, segir hann og er heldur notalegur andi í þessari kirkju og orðaval hið fegursta. Óvíða flóa lindir íslensks máls tærari en í þessari gömlu bók, og er sá íslenskur rithöfundur, sem ekki hefur þaullesið hana, litlu betur undir starf sitt búinn en sá prestur sem enn á ólesna fjallræðuna."

"Má vel ímynda sér," segir Jón, "að einhverjir lestranna á þessari bók hafi staðið á blöðum þeim sem góður klerkur, meistari Gísli, hafði á púltinu eða leiktaranum fyrir framan sig þá er hann talaði fyrir fólkinu í Hólakirkju á dögum Jóns helga."

Meistari Gísli kenndi grammaticam, þ.e. latneska málfræði.

Þá fékk byskup mann af Frakklandi, eða eins og segir í sögu hans, einn franzeis, sæmilegan prestmann, sem þá var mikið hrós, er Rikini hét, capalín eða kapelán sinn, og skyldi hann kenna sönglist og versagerð. Hann diktaði vel og versaði og var svo glöggur í sönglist og minnugur, að hann kunni utan bókar allan söng á tólf mánuðum, bæði í dagtíðum og óttusöngum, með öruggri tónasetning og hljóðagrein, og skal nú til gamans taka orðrétt úr sögu Jóns, yngri gerðinni:

"Því réðust margra góðra manna börn undir hönd þessum tveim meisturum, sumir að nema latínu, en aðrir söng eða hvort tveggja, kostgæfandi hver eftir sínu næmi að fylla vandlaupa síns hjarta af þeim molum viskubrauðs, er þeirra kennifeður brutu þeim til andligrar fæðu, af hverjum vér sáum blómberanlegan akur guðlegrar miskunnar með fögrum ilm víða upp runninn. Við þessum tók Rikini prestur öllum með fagnaði og blíðu heilags Jóhanness og elskaði sem einkasonu, nærði og fóstraði undir sinni forsjá og gæslu, varðveitandi þá undir sínum vængjum sem fugl sína unga. Hér mátti sjá um öll hús byskupsdómsins mikla iðn og athöfn, sumir lásu heilagar ritningar, sumir rituðu, sumir sungu, sumir námu, sumir kenndu. Engi var öfund þeirra í millum eða sundurþykkni, engi ágangur eða þrætni, hver vildi annan sér meiri háttar.

Hlýðni hélt þar hver við annan, og þegar signum var til tíða gert, skunduðu allir þegar úr sínum smákofum til kirkjunnar, sætlega seim, sem þrifið býflygi til býstokks heilagrar kirkju með sér berandi, hvert þeir höfðu saman borið úr lystulegum vínkjallara heilagra ritninga. Meður tíða upphafning hófst í kirkjunni fagurleg samhljóðan söngsins í kórnum, og hófust sætleg hljóð raddanna. Enginn fór þar með lausung eða margmælgi. Hinir eldri menn og meiri háttar voru með staðfesti og athuga, en ungir menn haldnir og siðaðir undir stjórn hinna eldri manna, og algerðu svo hvorir tveggju fagurlega sitt embætti, og skein með þvílíkri birtu yfirlit heilagrar kristni undir þessum heilaga byskupi."

HINAR SJÖ FRJÁLSU LISTIR

Í dómskólum miðaldakirkjunnar var títt að kenna hinar svokölluðu sjö frjálsu listir, septem artes liberales. En þær skiptust í tvennt: Þríveginn (trivium) og fjórveginn (quadrivium). Í þríveginum voru grammatica, þ.e. málfræði, rhetorica, mælsku- eða málskrúðsfræði, og dialectica, rökfræði eða þrætubókarlist, og skyldi þetta vera hinn þrefaldi vegur til mælsku. Í fjórveginum voru: Astronomia, þ.e. stjarnfræði, aritmetica, reikningur eða tölvísi, geometria, flatarmálsfræði, og musica, sönglist. Þetta átti að vera hinn fjórfaldi vegur til visku. Sjaldan voru allar þessar greinar kenndar vandlega og samtímis í einum og sama skóla, og hefur varla verið á Hólum, en margt bendir til þess, að sitthvað hafi verið kennt þar úr fjórveginum annað en sönglist.

Sjálfur hafði Jón byskup annálaða söngrödd, og er fræg sagan úr vígsluför hans, þegar sjálfur erkibiskup, Össur Sveinsson, braut sitt eigið boðorð og leit utar eftir kirkjunni, er hann heyrði röd Jóns. Afsakaði hann sig með því, að honum, hefði virst hann heyra englarödd fremur en manna. Þá kunni Jón biskup og ágætlega að slá hörpu.

Allir hinir sæmilegustu kennimenn í Norðlendingafjórðungi voru nokkra hríð til náms að Hólum, segir Gunnlaugur munkur, "sumir af barndómi, sumir á fulltíða aldri". Skal nú geta nokkurra lærisveina úr Hólaskóla Jóns byskups.

Maður er nefndur Ísleifur Hallsson, og var hann Jóni svo kær, að hann æskti þess, að hann yrði aðstoðarmaður sinn í embætti, ef hann mæddi elli, og síðan eftirmaður. Ekki vita menn nú deili á Ísleifi þessum, og þó að nöfnin sverji sig mjög í Haukdalsætt, verður að ætla, að þeir Haukdælir hafi þóst einfærir um að mennta syni sína heima fyrir, og muni Ísleifur hafa verið Norðlendingur. Hann varð skammlífur og dó fyrr en Jón byskup.

Klængur Þorsteinsson var skagfirskur í föðurætt að minnsta kosti, en rakti einnig ættir sínar til Reyknesinga vestur. Var langafi hans Ari Þorgilsson á Reykhólum. Klængur var lengi kirkjuprestur á Hólum, en stýrði síðan Skálholtsbyskupsdæmi 1152­1176 við annálaðan höfðingsskap.

Vilmundur Þórólfsson var einn, sá er fyrstur varð ábóti í fyrsta klaustri á Íslandi, á Þingeyrum 1133. Sigmundur, bróðir Vilmundar, var tengdasonur Hafliða Mássonar. Þá var enn Hreinn Styrmisson af Gilsbekkingaætt í Borgarfirði, hinn þriðji ábóti á Þingeyrum.

Enn var meðal lærisveina Jóns Björn Gilsson, hinn þriðji byskup á Hólum, 1147­1162. Hann var sonur Gils Einarssonar Járnskeggjasonar Einarssonar Þveræings. Kona Gils Einarssonar og móðir Bjarna byskups var Þórunn Þorbjarnardóttir Þorfinnssonar karlsefnis, og voru þeir Björn Gilsson og Þorlákur Runólfsson Skálholtsbyskup þannig þremenningar að frændsemi.

Þá eru nefndir tveir frændur byskups, Ísleifur Grímsson og Hallur, en um þá er ekkert frekar vitað. Enn er Bjarni prestur Bergþórsson sem nefndur er hinn tölvísi. Hann var á sínum tíma yfirburðamaður í rímfræði, eða tímatali, ásamt Stjörnu-Odda Styrkárssyni vinnumanni í Múla í Aðal-Reykjadal, sem að vísu er um 30 árum yngri. Þessir menn unnu hin mestu afrek í að samræma erlent og innlent tímatal, og er næstum óhugsandi, að hin mikla reikningskunnátta og stjörnufræðiþekking þeirra hafi getað verið komin frá öðrum stað en Hólum. Bendir þetta eindregið til þess, að þar hafi fjórvegurinn að einhverju leyti verið kenndur.

Þá verður aftur að minnast Þórodds kirkjusmiðs, þótt ekki væri hann beinlínis i hópi skólasveina. Um hann segir í sögu Jóns, að hann hafði svo hvasst næmi, að þá er hann var að smíð sinni og hann heyrði að klerkum var kennd grammatica, en það er latínulist, loddi honum það svo í eyrum, að hann varð hinn mesti íþróttamaður í sagðri list.

HREINFERÐUG JUNGFRÚ

Nú hefur því verið haldið fram með rökum, að Þóroddur kunni að vera höfundur hinnar svokölluðu ísl./ensku málfræðiritgerðar, sem varðveitt er í handriti af Snorra-Eddu og er stórmerkilegt vísindarit um íslenskt mál síns tíma og höfuðheimild okkar um móðurmálið á 12. öld. Meginmarkmið höfundar var að setja Íslendingum ákveðið, fast og samræmt stafróf, svo að stafsetningin væri ekki öll í glundroða, fella latínuletur betur að íslensku máli og auka við nýjum táknum eða fella úr, eftir því sem við átti. Lýsir ritgerðarhöfundur stellingum talfæranna við myndun hvers hljóðs af svo mikilli nákvæmni, að við vitum fyrir þá sök nokkurn veginn hvernig íslenskt mál hefur hljómað, þegar ritgerðin var samin.

Síðast, en ekki síst, skal svo geta þess, að á Hólum var og í fræðinæmi hreinferðug júngfrú, er Ingunn hér. "Öngum þessum [þ.e. karlmönnum] var hún lægri í sögðum bóklistum. Kenndi hún mörgum grammaticam og fræddi hvern er nema vildi. Urðu því margir vel menntir undir hennar hendi. Hún rétti mjög latínubækur, svo að hún lét lesa fyrir sér, en sjálf saumaði hún, tefldi eða vann aðrar hannyrðir með heilagra manna sögum, kynnandi mönnum guðs dýrð, eigi aðeins með orðum munnnáms, heldur og með verkum handanna."

Þess skal strax getið, að þegar sagt er að Ingunn tefldi, þá hefur það verið skýrt svo, að hún hafi unnið tiglótta dúka, svokallaða teflinga.

Hér má sjá að skóli Jóns Ögmundarsonar hefur ekki verið einskorðaður við pilta, og þessi fyrsta "lærða" kona á Íslandi mun vera Ingunn Arnórsdóttir Ásbjarnarsonar, þ.e. af mestu höfðingjaætt Skagfirðinga, Ásbirningum. Móðir hennar var Guðrún Daðadóttir, en hún hefur trúlega heitið í höfuðið á ömmu sinni, Ingunni Þorsteinsdóttur Snorrasonar goða, sem átti ættföður Ásbirninga.

Bróðir Ingunnar hinnar lærðu var Kolbeinn, afi Kolbeins kaldaljóss og Kolbeins á Víðimýri Tumasonar, þess er orti hinar fögru vísur um Krist, og langafi Kolbeins unga.

Ingunn Arnórsdóttir er og nefnd meðal heimildarmanna Odds Snorrasonar munks á Þingeyrum að Ólafs sögu Tryggvasonar.

Þetta brot af námsmannatali frá skóla Jóns Ögmundarsoanr gefur þá mynd af mikilvægi skólans fyrir allt menntalíf á Norðurlandi sem ekki þarf frekar að skýra. Herra Jón hefur hrundið af stað vakningu bæði í trúarlegum og menningarlegum efnum. Skal hér vitnað til orða Brynleifs Tobiassonar, hins margfróða Skagfirðings:

NÝR SVIPUR Á ANDLEGT LÍF

"Trúarvakningin, skólalærdómurinn að erlendum hætti, ástundum íslenskrar málfræði og innar voldugu tónlistar miðaldakirkjunnar, klaustur, sagnaritun og laga, kristin fræðsla meðal almennings og tímatalsfræði, allt er þetta öðrum þræði að öllu og hinum að sumu leyti runnið frá Jóni byskupi og skólaklerkum hans á 12. öld. Nýr svipur kemur á andlegt líf á Íslandi á fyrra hluta 12. aldar."

Nú verður ekki lengra fram haldið sögu hins forna Hólaskóla. Hann var haldinn þar áfram um aldir með vexti og slotum, og vísast hefur skólahald fallið niður tímunum saman, þegar misjafnir erlendir menn hófust hér til byskupstignar. En um það vita menn svo sem ekkert með vissu.

Eftir siðaskipti var svo fyrir mælt, að skóli skyldi enn haldinn á Hólum með 24 lærisveinum og kennd latína, gríska og guðfræði, og fleira var það kennt er fram liðu stundir. Þessi skóli var afnuminn með öllu um aldamótin 1800, eftir misjafnan viðgang, þó fengu þeir sveinar, sem lengra voru komnir námi, að vera áfram, og var síðast haldið stúdentspróf á Hólum 1802 og brautskráðir fimm stúdentar.

Baráttu Norðlendinga fyrir endurheimt lærðs skóla verður ekki lýst hér, þess aðeins getið, að 126 árum seinna voru fyrstu stúdentarnir brautskráðir frá Menntaskólanum á Akureyri sem með réttu telur sig arftaka skóla Jóns Ögmundarsonar. Voru þeir einnig fimm að tölu. Lengi var það siður í Akureyrarskólanum, að halda ártíðina 3. mars, á Jónsmessu hinni fyrri, og minnst þá byskups, en misjafnlega var það þó rækt á áranna rás. En á kennarastofunni hefur verið komið fyrir líkneskju ágætri, gjöf til skólans, mynd hins sæla byskups, skorinni í kjörvið af meistaranum Ágústi Sigurmundssyni. Finnst mönnum þar holl nærvist Jóns Ögmundarsonar.

Hólar fengu og sinn skóla endurheimtan, í annarri mynd að vísu, og munaði þá minnstu, að þeir væru honum aftur sviptir, þegar til stóð í upphafi þessarar aldar að flytja hann í nágrenni Akureyrar og setja í samband við gróðrarstöðina þar. En þeir alþingismenn urðu drýgri sem ekki vildu svipta Hólastað skóla sínum öðru sinni.

Höfundur er fyrrverandi menntaskólakennari á Akureyri og skrifar þætti um íslenskt mál í Morgunblaðið. Greinin er kafli úr 12 ára gömlu erindi á Hólahátíð. Orðalag er víða litað af höfuðheimildinni, en hún er saga Jóns Ögmundssonar eftir Gunnlaug Leifsson (d. 1218) munk á Þingeyrum.

1)

"Sumir lásu heilagar ritningar, sumir rituðu, sumir sungu, sumir námu, sumir kenndu. Eigi var öfund þeirra í millum eða sundurþykkni, engi ágangur eða þrætni, hver vildi annan sér meiri háttar."

Mynd: Búi Kristjánsson.