ÁSGEIR JÓN JÓHANNSSON Þorri kemur Þá er hann kominn, gamli maðurinn með grílukerti í skeggi og hríðarbagga á herðum. Þungstígur gengur hann um garð, hvassyrtur. Glaðbeittir stika Frosti og Snær í fótspor. Draga helslóða yfir auðnutefta menn á ögurstundum.

ÁSGEIR JÓN JÓHANNSSON Þorri kemur Þá er hann kominn, gamli maðurinn með grílukerti í skeggi og hríðarbagga á herðum. Þungstígur gengur hann um garð, hvassyrtur. Glaðbeittir stika Frosti og Snær í fótspor.

Draga helslóða

yfir auðnutefta menn

á ögurstundum.

Blótsamir bjóðum við hann velkominn

með átveislum til árs og friðar.

Örvænt um árangur.

Vetur

Norðurljósalogaraf

lýsir ósa, fjöll og haf.

Fölar rósir Frosti gaf.

Fegurð hrósum vetri af.

Þó er vetur beggjablands,

brugðist getur fegurð hans.

Oft hann hvetur lýði lands

lífs að meta krappan dans.

Lyftir földum hryðja hátt,

heyrist nöldur kvenna brátt.

Gríma völd að svika sátt

sveipar tjöldum hverja gátt.

Hylur hvelið fannafjúk

flögrar él um kaldan búk,

frískir delar halda á hnúk,

hikstar vélin kuldasjúk.

Flana um heiðar tryllitröll,

torsótt skeiða regin-fjöll.

Oft af leiðir líkamsspjöll.

Loks við greiðum tjónið öll.

Fréttamanna flónin þá

fávís kanna slysa-vá.

Heimska glanna dýrka og dá,

í draumi sanna hetju sjá.

Þó að vetur hvessi klær,

kaldur freti Þorri ær,

oft í fleti mjúklát mær

mínar getur yljað tær.

Víst mun líða vetrartíð,

vorið skrýða grund og hlíð,

fyrnast síðan frost og hríð,

fagna lýðum veðrin blíð.

Höfundur er umsjónarmaður í skóla í Hafnarfirði.