Allt veistu, hæstvirti forseti Hæstaréttar! Halldór Þorsteinsson "Í upphafi máls síns blæs hann samt sjálfur í herlúðra og það svo um munar, en að herlúðrablæstri þögnuðum vill hann hins vegar slíðra sverðin.

Allt veistu, hæstvirti forseti Hæstaréttar! Halldór Þorsteinsson "Í upphafi máls síns blæs hann samt sjálfur í herlúðra og það svo um munar, en að herlúðrablæstri þögnuðum vill hann hins vegar slíðra sverðin. Er þetta rétt leið til að leita sátta?"

Fyrst langar mig að vitna í orð Finns Sigmundssonar, fyrrverandi landsbókavarðar, sem hann ritaði í Árbók Landsbókasafnsins 1956: "Það hefur lengi verið draumur starfsmanna Landsbókasafnsins og margra annarra, að lögð væri meiri rækt við umhverfi hússins en raun hefur orðið á. Þegar síðasta Árbók var prentuð, voru vaknaðar vonir um, að þessi draumur mundi rætast innan skamms. Í fjárlögum 1956 veitti Alþingi fé til að girða lóðina og hjá húsameistara ríkisins lá uppdráttur að snotrum skrúðgarði umhverfis húsið. En ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið. Í stað þess að friða og skreyta grasblettinn við húsið, ákvað fyrrverandi ríkisstjórn, að þar skyldi framvegis verða bifreiðastæði ­ og þar með var draumurinn búinn. Nú er svo komið, að Landsbókasafnshúsinu er að verða ofaukið á Arnarhólstúninu, þó að Hannes Hafstein með skörungsskap og framsýni léti því í té á sínum tíma nægilegt landrými. Honum var það ljóst, að reisa þyrfti hús til viðbótar með tíð og tíma. En smám saman hefir verið þrengt að Landsbókasafninu með því að reisa stórhýsi á næstu grösum, og nú þykir brýn nauðsyn að taka síðustu skákina undir bifreiðar nágrannanna." Svo mörg eru þau orð.

Í beinu framhaldi af þessu er rétt að geta þess hér, að arkitekt eða hönnuður Safnahússins, Daninn Johannes Magdahl-Nielsen, hafði hugsað sér að reistar yrðu tvær álmur til viðbótar, önnur til vesturs og hin til norðurs og hefði þá byggingarsamstæðan haft á sér einskonar U-lag. Í Þjóðskjalasafni er til skipulagsuppdráttur, sem ætlaður var fyrir opinberar byggingar eins og t.d. Landsspítala, Háskóla, Stúdentagarð og er hann eftir F. Kjörboe, sem hafði umsjón með byggingu Safnahússins. Á þeim tíma voru engar byggingar eða mannvirki fyrir á Arnarhólstúni og skiptir sú staðreynd ekki svo litlu máli.

Í grein Hrafns Bragasonar, Byggingarmál Hæstaréttar, í Morgunblaðinu 15. febrúar '94, standa eftirfarandi orð: "Þeir (þ.e.a.s. keppendur) höfðu uppgötvað það sem mér hafði a.m.k. verið hulið að arkitektar aðliggjandi bygginga höfðu ætlað byggingu að rísa þarna." Næsta fullvíst má telja að þessum smekkvísu listamönnum dönsku hefði þótt það lítt fýsilegur kostur að hefjast handa um byggingarframkvæmdir á Safnahúslóðinni eftir að í næsta nágrenni við hana voru risin af grunni stórhýsi á borð við Arnarhvál og Þjóðleikhúsið. Yfir þessu hefur verið vandlega þagað. Og hverjir gerðu það? Nú fagmennirnir, sérfræðingarnir, allir þessir valinkunnu heiðursmenn. Keppendurnir sögðu því forseta Hæstaréttar hálfan sannleikann og hálfur sannleikur er oft og tíðum lítið skárri en einber ósannindi. Hér er fagmennskan í hávegum höfð eða hvað finnst ykkur, lesendur góðir? Er það ekki háttur dómara að kynna sér og kanna öll málsgögn og það til hlítar og hafa það síðan sem sannara reynist? Spyr sá sem ekkert veit þann sem allt veit.

Ég veit ekki hvort ég á að þora að spyrja, hæstvirti forseti Hæstaréttar, en var umfjöllun þín um "uppákomuna á Alþingi" þegar dustað var rykið af þingsályktunartillögu nokkurra þingmanna (eins og þú orðaðir það svo smekklega) nægilega fagmannleg, embættismannaleg eða forsetahæstaréttarleg ef svo má að orði komast? Ég minnist þess nú að þegar gamall kennari minn var að ræða um þá miklu ábyrgð sem fylgdi starfi dómara, gat hann þess meðal annars að dómara bæri ávallt að gæta hófstillingar í hvívetna og kunna um fram allt að sitja á strák sínum. Mér er alls ókunnugt um hvort Hrafn Bragason hefur notið svipaðrar tilsagnar, en ef hann hefur gert það er hann auðsýnilega löngu búinn að gleyma því.

Og enn ein spurning út af "uppákomunni á Alþingi". Var ekki fulldjúpt í árinni tekið að segja að forsætisráðherra vor, Davíð Oddsson, landsfrægt leikskáld, kvikmyndahöfundur og þrælsjóaður Matthildingur hafi ekki kunnað rulluna sína? Getur hugsast að hann kunni sína rullu betur en þú þína? Spyr sá sem ekkert veit þann sem allt veit.

Á einum stað greinir Hrafn Bragason frá því hvernig staðið hafi verið að lóðavalinu: "Þá segir sagan að einn hæstaréttardómarinn hafi bent út um gluggann á bílaplanið hinu megin götunnar og spurt hvort þarna mætti ekki reisa húsið." Og þar með var staðurinn fundinn rétt framan við nefið á þeim. Ónafngreindi hæstaréttardómari þessi sá jafnlangt nefi sínu og ekki spönn lengra. Vonandi eru starfsfélagar hans í Hæstarétti ekki jafnlítilla sanda og jafnlítilla sæva eða jafnskammsýnir þrengslasinnar í byggingarmálum og hann svo þetta sé fært til nútímalegs orðalags. En ef til vill skjátlast mér. Og hér kemur eitt gullkornið enn: "Mótmælendur virðast gefa sér þær forsendur að hér sé verið að byggja dómhöll sem þeir virðast halda að taka eigi yfir allt bílastæðið við Lindargötu." Og af hverju dregurðu þessa ályktun, hæstvirti forseti Hæstaréttar? Spyr sá sem ekkert veit þann sem allt veit. Er auga dómarans ef til vill svo glöggt að það geti rýnt í huga og hugarfylgsni hvers mótmælanda og lesið þar fyrirhafnarlaust hugsanir hans og skoðanir? Mikil er viska þín og gáfa, hæstvirti forseti Hæstaréttar.

Hrafn Bragason fullyrðir að það hafi verið "... vel auglýst að efna ætti til byggingar á þessum stað ...". Fjölmiðlakynningin fór aðallega fram í Lögbirtingablaðinu, víðlesnasta blaði landsmanna! Um þetta atriði verður ekki fjölyrt hér, það mun verða gert af öðrum aðila á öðrum vettvangi. Forseti Hæstaréttar segir undir lokin "... forgöngumenn undirskriftasöfnunar (vera) gráa fyrir járnum". Í upphafi máls síns blæs hann samt sjálfur í herlúðra og það svo um munar, en að herlúðrablæstri þögnuðum vill hann hins vegar slíðra sverðin. Er þetta rétt leið til að leita sátta? Spyr sá sem ekkert veit þann sem allt veit.

Að lokum ætla ég að leyfa mér þá ósvinnu að vitna í niðurlag greinar minnar sem birtist í Morgunblaðinu 10. september 1993: "Fyrirsjáanlegt er, að Þjóðarbókhlaðan verður hlaðin, já ofhlaðin bókum fyrr en nokkurn mann grunar. Mér þætti ekki ósennilegt, að menn væru farnir að kvarta undan þrengslum á þeim bæ innan 10­15 ára.

Svo eru væntanlegir flutningar úr Safnahúsinu ekkert smáhandtak, en með því að flytja þaðan aðeins erlend rit og geyma þar áfram íslenskar bækur mundi sparast mikill tími, vinna og peningar. Landsbókasafnið héldi þannig áfram að þjóna sínu gamla og göfuga hlutverki í góða og glæsilega húsinu sínu, sem vill ekki sjá uppáþrengjandi dómhús í næsta nágrenni."

Ég þykist vita að flestir ef ekki allir starfsmenn Landsbókasafnsins séu sama sinnis í þessum efnum. Eðli sínu samkvæmt stækka bókasöfn og stækka og það með ófyrirsjáanlegum hraða. Barnið vex, en brókin ekki segir gamall málsháttur. Tökum Hannes Hafstein til eftirbreytni og reynum að vera jafn framsýn og hann var á sínum tíma.

Hér með segi ég þessu "þingi" slitið, mér liggur við að segja "Hrafnaþingi". Ætli menn séu ekki búnir að fá sig fullsadda af þeim fuglum í bili.

Höfundur er bókavörður og skólastjóri.

Halldór Þorsteinsson