INGIMAR Erlendur Sigurðsson, ljóðskáld og rithöfundur, sem fagnar 75 ára afmæli sínu í dag, segist hafa það frá móður sinni að hann hefði verið eina barn hennar sem ekki kom grátandi í heiminn.
INGIMAR Erlendur Sigurðsson, ljóðskáld og rithöfundur, sem fagnar 75 ára afmæli sínu í dag, segist hafa það frá móður sinni að hann hefði verið eina barn hennar sem ekki kom grátandi í heiminn. Ingimar hváði og þá svaraði móðir hans: „Já, þú fæddist ekki grátandi, þú fæddist ljóðandi.“

Frá árinu 1959 hafa komið út 25 bækur eftir Ingimar og nú er hann með nýja ljóðabók, Hvítakistu, sem Skrudda gefur út og prýðir einnig 32 listaverk eftir skáldið. Er bókin tileinkuð minningu seinni eiginkonu Ingimars til 40 ára, Margrétar Blöndal geðhjúkrunarfræðings, og fjallar um ástina, dauðann og trúna. Með Margréti átti hann tvö börn og fjögur börn með Ragnheiði Jónsdóttur. Frægasta bók Ingimars er líkast til Borgarlíf, frá 1965, og litið er á hana sem nokkurs konar uppgjör við árin hans sem blaðamaður á Morgunblaðinu, þaðan sem hann segist hafa verið „rekinn“ á sínum tíma. Ingimar á sér nokkrar óskir á afmælisdaginn, m.a. að fá ritdóm í Mogganum og að fjölmiðlarnir komi á „krimmakreppu“. „Krimmarnir fjalla ekki um neitt annað en ofbeldi og peninga. Ef Mogginn sér ekki um þetta þá gerist ég bara aftur blaðamaður á Morgunblaðinu og skrifa Borgarlíf 2.“ bjb@mbl.is