Athugasemd við skrif Hrafns Bragasonar Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Jórunni Sigurðardóttur dagskrárgerðarmanni Ríkisútvarpsins, rás 1, við skrif Hrafns Bragasonar, "Byggingarmál Hæstaréttar", í Morgunblaðinu 16. febrúar sl.:...

Athugasemd við skrif Hrafns Bragasonar Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi athugasemd frá Jórunni Sigurðardóttur dagskrárgerðarmanni Ríkisútvarpsins, rás 1, við skrif Hrafns Bragasonar, "Byggingarmál Hæstaréttar", í Morgunblaðinu 16. febrúar sl.:

Tilefni greinar Hrafns er "uppákoma", sem hann kallar svo, á Alþingi Íslendinga 10. febrúar síðastliðinn þar sem stjórnarandstaðan gerði byggingarmál Hæstaréttar að umræðuefni, "uppákoma", sem lyktaði með því að Davíð Oddsson forsætisráðherra "tók sig til og úthlutaði nýrri lóð undir húsið þarna úr ræðustólnum" (tilv. B h e. H.B.) og vart liðinn sólarhringur frá því að Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra hafði lýst því yfir að hvorki byggingunni né staðsetningu hennar yrði breytt úr þessu.

"Uppákoman var að vísu ekki eins vel upp sett og venjulega þegar formaður Alþýðubandalagsins sviðsetur með hvíslvinum sínum hjá fjölmiðlum (leturbreyting JS)," segir Hrafn og nokkru síðar: "Uppákoman var þannig sett á svið að fyrst var haft samband við þáttagerðarmann á ríkisútvarpinu og hann beðinn um að hafa þátt um bygginguna og kalla til hans fyrrverandi forstöðumann borgarskipulags og núverandi varaborgarfulltrúa ásamt ýmsum þeim sem að byggingunni hafa komið.

Af þættinum varð fljótlega ljóst að þáttagerðarmaðurinn var ekki með öllu hlutlaus til verkefnisins og ætlaði hinum fyrrverandi forstöðumanni að leika þarna aðalhlutverkið þótt það misfærist nokkuð þar sem aðrir voru betur að sér um það."

Vart getur hér verið um annan "þáttagerðarmann á ríkisútvarpinu" að ræða en undirritaða. Í þætti mínum Botn-súlum 22.1. 1994 áttu sér stað umræður um byggingu Dómhúss á lóðinni Lindargötu 2 í Reykjavík. Vegna ofangreindra ummæla vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

1) Áður en ég ákvað að stofna til umræðna um Dómhúsið í þætti mínum hafði enginn beðið mig um að gera slíkt, né ýjað að því að slíkt gæti verið áhugavert né með öðrum hætti lagt sig fram um að vekja mér löngun til umfjöllunar um Dómhús. Hugmyndina kveiktu öllu heldur moldarbingir sem þá þegar hafði verið mokað upp úr grunninum og vitneskja um að ekki höfðu allir borgarbúar verið á eitt sáttir um þessa framkvæmd.

2) Enginn lagði að mér að fá Guðrúnu Jónsdóttur fyrrverandi forstöðumann borgarskipulags og núverandi eina fulltrúa minnihlutans í byggingarnefnd borgarinnar til þátttöku í umræðunum. Ég valdi Guðrúnu vissulega vegna þess að hún er yfirlýstur andstæðingur þess að reisa dómhús á ofangreindri lóð og vegna þess að hún er fagmaður í arkitektúr og skipulagsmálum eins og aðrir þátttakendur í umræðunni, sem voru núverandi forstöðumaður borgarskipulags, Þorvaldur S. Þorvaldsson, og Margrét Harðardóttir annar tveggja arkitekta Dómhússins. Þau voru bæði, nánast samkvæmt hlutarins eðli, mjög ánægð með bygginguna og staðsetningu hennar. Fjórði þátttakandinn í umræðunni var Ormar Þór Guðmundsson formaður Arkitektafélags Íslands. Einnig hann lýsti sig mjög ánægðan með bygginguna og staðsetningu hennar, bæði persónulega og fyrir hönd alls þess fjölda félaga sinna í Arkitektafélaginu sem þátt tóku í samkeppni um byggingu hússins.

Um meinta hlutdrægni mína, að mati Hrafns, vil ég segja það, að hafi hann hlustað grannt sveiflaðist hlutdrægnin í samræmi við gang umræðnanna. Slíkt er viðurkennd aðferð við að koma sem flestum sjónarmiðum á framfæri og stundum til að hleypa snerpu í umræðuna. Umræðurnar fóru fram í beinni útsendingu.