Farþegar á Saga Class fengu að ganga í gegnum Gullna hliðið í Leifsstöð í stað þess að þurfa að bíða í röð eftir öryggiseftirliti.
Farþegar á Saga Class fengu að ganga í gegnum Gullna hliðið í Leifsstöð í stað þess að þurfa að bíða í röð eftir öryggiseftirliti. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bjarna Ólafsson bjarni@mbl.is VARLA hefur farið framhjá neinum að bólan margumrædda er sprungin. Meðan allt lék í lyndi urðu hins vegar margvíslegar breytingar á íslensku þjóðlífi, að minnsta kosti þeim hluta þess sem var sæmilega loðinn um...

Eftir Bjarna Ólafsson

bjarni@mbl.is

VARLA hefur farið framhjá neinum að bólan margumrædda er sprungin. Meðan allt lék í lyndi urðu hins vegar margvíslegar breytingar á íslensku þjóðlífi, að minnsta kosti þeim hluta þess sem var sæmilega loðinn um lófana.

Eftir nokkur ár, þegar horft verður til bólutímans, er ekki ólíklegt að kjánahroll fari um fólk. Líklega mun tilhugsunin um að erlendar poppstjörnur hafi verið fengnar til að spila í afmælisveislum auðmanna, að morð fjár hafi verið varið í kaup á einkaþotum, lystisnekkjum og breskum fótboltaliðum, vekja upp slíkar tilfinningar.

Þrátt fyrir að stærstur hluti þessa ofurmunaðar hafi verið kostaður af fámennum hópi ofurríks fólks tók íslenskur almenningur þó þátt í veislunni. Fjöldi fólks sló erlend lán fyrir kaupum á glæsibifreiðum og flatskjáir seldust eins og heitar lummur.

Hamingjan á ekki að vera metin til fjár, en um tíma virðist íslenska þjóðin hafa haldið að ekki nóg með að hamingjan væri föl heldur einnig að hægt væri að kaupa hana með skuldsettri yfirtöku.