Er hægt að sinna sálgæslu í okkar þjóðfélagi? Ester Sveinbjarnardóttur "Mikil aðsókn er í þjónustu heilsugæslustöðvanna og anna þær vart eftirspurn. Þetta leiðir til þess m.a. að útundan verður sá hópur manna sem þarf á sálgæslu að halda eða þeir sem...

Er hægt að sinna sálgæslu í okkar þjóðfélagi? Ester Sveinbjarnardóttur "Mikil aðsókn er í þjónustu heilsugæslustöðvanna og anna þær vart eftirspurn. Þetta leiðir til þess m.a. að útundan verður sá hópur manna sem þarf á sálgæslu að halda eða þeir sem þurfa að glíma við ýmsa huglæga erfiðleika (jafnvel geðveiki) sem er eðlilegur hlutur af lífinu."

Án vafa væri nauðsynlegt að koma á fót hjálparhópum við hverja heilsugæslustöð og við hverja kirkjusókn. Þessi þjónusta þarf ekki að kosta þjóðfélagið mikið og gæti þegar til langs tíma væri litið skilað út í þjóðfélagið ánægðu og ábyrgu fólki með ríka samkennd. Það eitt væri ómetanleg auðlegð fyrir hvert þjóðfélag og myndi skila sér margfalt til baka.

Sjaldan eða aldrei hefur verið talað meira um hversu skuldug þjóðin er. Skórinn kreppir víða og þegnar landsins borga mikla skatta til þess að kosta samneysluna. Vafalítið væri þörf á að minnka skattbyrðina og þá sérstaklega hjá barnafólkinu sem færir þjóðinni þegna framtíðarinnar.

Mikil aðsókn er í þjónustu heilsugæslustöðvanna og anna þær vart eftirspurn. Þetta leiðir til þess m.a. að útundan verður sá hópur manna sem þarf á sálgæslu að halda, eða þeir sem þurfa að glíma við ýmsa huglæga erfileika (jafnvel geðveiki) sem er eðlilegur hlutur af lífinu.

Gott væri ef heilsugæslan og Þjóðkirkjan gætu starfað saman að uppbyggingu sálgæslukerfis. Þetta eru þeir aðilar sem eiga einn greiðasta aðgang að fólkinu í landinu og mest er leitað til þegar eitthvað bjátar á.

Ég sé fyrir mér kerfi sem er byggt upp í kringum hverja heilsugæslustöð og hverja kirkjusókn. Verkefnastjórar væru skipaðir til að annast hópana og væru þeir kostaðir sameiginlega af heilsugæslunni og Þjóðkirkjunni. Þeir gætu leitað uppi fólk sem er tilbúið að miðla öðrum af sinni reynslu og þannig væri hægt að mynda hina ýmsu samhjálparhópa eins og Seltjarnarnessókn hefur skapað kringum sorg og sorgarviðbrögð í Seltjarnarneskirkju.

Þannig gætu t.d. verið hópar fráskilinna karla og kvenna, hópar fólks sem hafa lent í gjaldþroti, hópar fólks sem eiga við heilsutjón að stríða, hópar fólks sem sinna heimahjúkrun ættinga sinna og hópar atvinnulauss fólks o.fl.

Einstaklingur sem leitar til síns prests eða heimilislæknis gæti fengið upplýsingar um þessa hópa og honum hjálpað til að nálgast þá.

Í þessum hópum yrðu einstaklingar sem líklegir væru til að hjálpa síðar og miðla fólki af reynslu sinni og með þessum hætti kæmu alltaf nýir og nýir einstaklingar sem tækju við hver af öðrum.

Ekki er hægt að ætlast til af fólki sem vill hjálpa, að það vegna of mikils álags missi af þeirri ánægju að vera samvistum við fjölskyldu sína. Þess vegna er nauðsynlegt að verkstýring hjálparinnar séu launuð störf og vel valið í hvert rúm.

Reynslan hefur sýnt okkur að hjálparhópar ná góðum árangri þegar er verið að vinna með hugann, gott dæmi er vinna SÁÁ. Eitt er það sem einkennir okkur Íslendinga sem þjóð, það er fórnfús sjálfboðavinna.

Getum við látið þessi málefni framhjá okkur fara? Þessir hlutir varða okkur öll, treystir sér einhver til að segja til um hver þarf næst á hjálp að halda?

Höfundur er iðnrekstrarfræðingur.

Ester Sveinbjarnardóttir