Gæðamat á kennslu í Háskólanum - fyrir alla stúdenta! Andra Má Þórarinsson Nú þegar líða fer að kosningum til Stúdenta- og Háskólaráðs innan Háskóla Íslands er rétt að staldra aðeins við og skoða fáein atriði sem betur mættu fara, atriði sem ný stjórn...

Gæðamat á kennslu í Háskólanum - fyrir alla stúdenta! Andra Má Þórarinsson Nú þegar líða fer að kosningum til Stúdenta- og Háskólaráðs innan Háskóla Íslands er rétt að staldra aðeins við og skoða fáein atriði sem betur mættu fara, atriði sem ný stjórn ætti að einbeita sér að.

Kennslumat

Fyrir fáeinum árum var sá háttur tekinn upp að stúdentar fengu kost á því að meta kennsluna sem þeir fá. Slíkt mat sjáum við gjarnan í háskólum erlendis og þykir víðast hvar sjálfsagt. Það ætti að vera skýlaus krafa okkar stúdenta að fá að meta gæði þeirrar kennslu sem við fáum, rétt eins og árangur okkar er metinn með reglubundnum hætti. Upplýsingar sem svona mat gefur eru bæði afskaplaga mikilvægar fyrir stjórnsýslu skólans, en þær eru ekki síður mikilvægar fyrir kennarana sjálfa sem geta þá séð á hvaða sviðum úrbóta er þörf.

Á síðustu tveimur til þremur árum hefur hins vegar framkvæmd þessa mats drabbast niður og nú er svo komið að þegar um þetta mál er rætt, veit stór hluti nýnema ekki hvaðan á sig stendur veðrið.

Vaka leggur áherslu á að þetta kennslumat verði framkvæmt á öflugan og skilvirkan hátt og að það verði látið ná til allra námskeiða sem kennd eru innan Háskólans. Vaka vill jafnframt að þetta kennslumat verði haft til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um framgang kennara í stöður.

Aðhaldið sem svona mat veitir mundi án efa leiða til bættari kennslu.

Gæðamat á deildir

Engum blandast hugur um hve mikilvægt það var fyrir Verkfræðideild Hí, að fá ABET-hópinn (Accrediation Board for Engineering and Technology) til þess að gera úttekt á deildinni. Þar kom fram að verkfræðinám í HÍ er fyllilega sambærilegt við það besta sem gerist í skólum í Bandaríkjunum. Öll viljum við að HÍ standist alþjóðlegan samanburð og því ætti slíkt gæðamat, framkvæmt af óháðum aðilum, að vera gert reglulega og ná til allra deilda. Svo aftur sé litið til Bandaríkjanna þá er ekki óalgengt að svona mat sé gert á fimm ára fresti.

Það þarf ekki að tíunda mikilvægi kennslumats af þessu tagi fyrir stjórnsýslu og kennara skólans, svo og ríkisvaldið sem borgar brúsann. Einnig kæmi það sér afar vel fyrir stúdenta að geta vísað í svona plögg þegar þeir eru að sækja um framhaldsnám erlendis. Að auki er það sjálfsögð krafa að upplýsingar sem þessar séu fyrir hendi, bæði fyrir fólk sem er að hefja nám innan skólans svo ekki sé talað um erlenda stúdenta, því þeim fjölgar stöðugt við HÍ.

Þetta er því ekki spurning, kennslumat og gæðamat á deildirnar: góð mál fyrir alla.

Höfundur er í framboði fyrir Vöku til Háskólaráðs.

Andri Már

Þórarinsson