Verslunina inn í landið með raunhæfum aðgerðum Friðrik Sophusson "Forystumenn verslunarinnar benda á að með því að ryðja hindrunum úr vegi megi auka "þriðjalandsviðskipti".

Verslunina inn í landið með raunhæfum aðgerðum Friðrik Sophusson "Forystumenn verslunarinnar benda á að með því að ryðja hindrunum úr vegi megi auka "þriðjalandsviðskipti". Opnun frísvæðis hérlendis, sem fjármálaráðuneytið hefur haft forgöngu um, opnar möguleika á þriðjalandsviðskiptum."

Nýlega kynnti Félag íslenskra stórkaupmanna stöðu verslunar á Íslandi og lýsti því yfir að brýnt væri að færa samkeppnisstöðu innlendrar verslunar til samræmis við aðrar atvinnugreinar. Forsvarsmenn íslenskrar verslunar telja að búa megi til 2­3000 ný störf ef verslunin fær að dafna hindrunarlaust.

Verslun er ekki annars

flokks atvinnugrein

Þessu framtaki verslunarmanna ber að fagna. Íslensk verslun er óháð ríkisstyrkjum og við þessa atvinnugrein starfa sífellt fleiri einstaklingar. Það eru úrelt sjónarmið að telja verslun og þjónustu annars flokks atvinnugreinar eða óþarfa milliliði. Um allan heim eru þessar greinar í örum vexti. Miklu varðar að í verslun og þjónustu sé nægjanleg samkeppni svo að árangur verði sem bestur.

Skattur á verslun

lækkar um fimmtung

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur beitt sér fyrir því að bæta stöðu fyrirtækja og er niðurfelling aðstöðugjaldsins stærsta einstaka aðgerðin í því sambandi. Þá má nefna að tekjuskattshlutfall fyrirtækja var lækkað úr 45% í 33% og skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, sem nú er tekjustofn sveitarfélaga, var lækkaður úr 1,5 í 1,25%. Með þessum aðgerðum hafa skattgreiðslur fyrirtækja lækkað um nálægt 5 milljarða króna. Tilgangurinn með þessum aðgerðum varð að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja og efla þannig atvinnulífið. Þá hafa vextir lækkað, en það ætti enn frekar að örva atvinnulífið til að fjárfesta og ráða til sín fólk.

Áætla má að skattar á verslunina, sem greiddi stóran hluta af aðstöðugjaldinu, hafi lækkað um fimmtung með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Frá árinu 1992 hafa því breytingar á fyrirtækjasköttum lækkað hlutfall verslunar í heildarskattlagningu úr 30% í innan við 20%.

Samstarf iðnaðar og verslunar til atvinnusköpunar

Ég tek undir þau sjónarmið stórkaupmanna að brýnt sé að skoða leiðir til að færa verslunina inn í landið. Í því sambandi er nauðsynlegt að skoða m.a. hvernig megi auka verslun erlendra ferðamanna hérlendis. Erlendir ferðamenn hafa bent á að það sé m.a. vöruverð hérlendis sem hindri þá í því að versla. Lækkun virðisaukaskatts af matvælum ætti að auka neyslu erlendra ferðamanna innanlands. En ýmislegt annað má gera. Erlendir ferðamenn telja að meira vanti á vörruúrval smærri varnings eins og minjagripa og gjafavöru. Að hluta til eru erlendir aðilar að selja erlendum ferðamönnum hér á landi minjagripi um Ísland. Hér má bæta úr og auka atvinnu, m.a. með auknu samstarfi innlends iðnaðar og verslunar. Ekki ætti að þurfa að flytja inn minjagripi og gjafavöru til að minna á Ísland eins og algengt er í dag.

Frísvæðið stórt framfaraskref

Forystumenn verslunarinnar benda á að með því að ryðja hindrunum úr vegi megi auka "þriðjalandsviðskipti". Opnun frísvæðis hérlendis, sem fjármálaráðuneytið hefur haft forgöngu um, opnar möguleika á þriðjalandsviðskiptum. Þegar eru nokkur dæmi um slík viðskipti í gegnum frísvæði Tollvörugeymslunnar. Aðstaða til þriðjalandsviðskipta hefur því verið bætt verulega og í athugun er hvernig taka megi fleiri skref í þeim efnum.

Atvinnulífið beri sinn skerf

Ljóst er að í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur skattalegt umhverfi fyrirtækja, jafnt verslunar sem annarra atvinnugreina, breyst verulega og er orðið fyllilega sambærilegt við það sem þekkist í okkar helstu viðskiptalöndum. Við það hefur samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja batnað stórlega gagnvart erlendum keppinautum. Þessar skattalækkanir ættu því að verða íslensku atvinnulífi lyftistöng til framtíðar. Miðað við hversu mikið hefur verið að gert á þessu sviði síðustu árin er ljóst að lengra verður vart komist.

Sú kynning sem fram hefur farið á íslenskri verslun er brýn. Þessi öfluga atvinnugrein hefur staðið á eigin fótum án ríkisafskipta og greitt verulega skatta til sameiginlegra þarfa. Við getum án efa fært verslunina í stærri stíl inn í landið með raunhæfum aðgerðum. Lækkun á fyrirtækjasköttum og matarskatti ásamt uppbyggingu frísvæðis eru, eins og hér hefur verið lýst, aðgerðir sem bæta stöðu íslenskrar verslunar. Við þurfum að vera vakandi fyrir nýjum tækifærum til að efla íslenskt atvinnulíf ekki síst á sviði verslunar og þjónustu.

Höfundur er fjármálaráðherra.

Friðrik Sophusson