Öfundsjúkir arkitektar? Gunnlaug Þórðarson "Það mun gefa þessum hluta höfuðborgarinnar aukna reisn að Hús Hæstaréttar Íslands verði á þeim stað, sem ákveðið hefur verið.

Öfundsjúkir arkitektar? Gunnlaug Þórðarson "Það mun gefa þessum hluta höfuðborgarinnar aukna reisn að Hús Hæstaréttar Íslands verði á þeim stað, sem ákveðið hefur verið. Húsið mun njóta sín vel frítt standandi, enda verður bilið milli bygginganna svipað breitt og yfir Hverfisgötuna."

Einhverjar mestu "sjálfskipuðu hetjur þjóðfélagsins" í dag eru án efa þeir, sem safna undirskriftum og atvinnumótmælendur, sem oft eru haldnir neikvæðri afstöðu gegn hvers konar framförum ef ekki gallsúrri öfund.

Að vísu skal það játað að undirskriftasafnanir geta verið eitt af tækjum lýðræðisins til góðs eða ills. Reyndar hefur þessi aðferð sína galla. Það hefur nefnilega sýnt sig, að aðsópsmiklir menn geta fengið flest fólk til þess að skrifa undir skjöl til þess að mótmæla hverju sem er. Aðeins ef rétt er að því farið. Þá er og óhætt að fullyrða, að því fleiri sem skrifa undir svona skjöl, því minni verður ábyrgð hvers og eins.

Þannig má með sanni halda því fram, að t.d. undirskriftir 60-menninganna hér um árið hafi verið miklu þyngri á metunum, en undirskriftir þeirra nærri 3.000, sem mótmæltu Höfðabakkabrú á sínum tíma og var frægt að endemum.

Dæmi um fráleita undirskriftasöfnun var þegar hópur fólks stöðvaði kirkjubyggingu í Kópavogi vegna þess að þeir, sem í fóru fyrir hópnum, munu hafa talið sig missa útsýnið úr húsum sínum yrði kirkja reist á fyrirhuguðum stað. Tókst að æsa upp andstöðu gegn byggingunni, sem farið hefði vel á staðnum. Stafar þetta af því hve stutt er síðan þorri þjóðarinnar bjó við mikið útsýni uppi í sveit.

Verst er þó þegar farið er af stað með undirskriftasöfnun löngu eftir að framkvæmdir, sem hafa verið boðaðar, eru hafnar og miklu hefur verið til kostað. Auðvitað ættu ríki og sveitarfélög að geta treyst því að fá að halda áfram með hafið verk, ef enginn mótmæli hafi komið fram að heitið geti innan tilsetts tíma.

Bygging húss Hæstaréttar Íslands við Ingólfsstræti var boðuð fyrir tveimur árum og um leið var staðarval kynnt. Því næst var efnt til samkeppni meðal arkitekta um að teikna húsið. Arkitektar kusu menn úr sínum hópi til setu í dómnefnd samkeppninnar. Engum kom til hugar að finna að staðarvalinu. Ári seinna var efnt til sýningar á uppdráttum og tillögum keppenda, en hátt á annað hundrað arkitekta tóku þátt í samkeppninni.

Voru teikningar þessar allar vel af hendi leystar. Húsið er glæsilegt en um leið yfirlætislaust. Verðlaun voru veitt og allt virtist í himna lagi. Reyndar kom mjög fátt fólk til þess að skoða uppdrættina, sem voru almenningi til sýnis vikum saman í Borgarleikhúsinu. Enginn hreyfði mótmælum við staðarvalinu.

Fullyrða má að nýting á lóðinni er snjöll og með húsinu skapast skjól, enda gert ráð fyrir húsi á þessum stað, þegar Landsbókasafnið var byggt. Í okkar veðrasama landi veitir ekki af að skapa skjól með því að þétta byggð á vissum stöðum. Framkvæmdir hófust fyrir skömmu og nú er búið að kosta til 30 milljónum króna í því skyni að Hæstiréttur Íslands fái starfskilyrði við hæfi. Var þessi stjórnarráðstöfun gerð í tilefni af tímamótum í sögu réttarins.

Þá gerist það að örfáir arkitektar, sem sýnilega eru haldnir öfundsýki, með nokkra framagosalega "atvinnumótmælendur" í liði með sér, freista þess að stöðva byggingu Hæstaréttarhússins með undirskriftasöfnun. Að vanda hafa nokkrir hrekklausir einstaklingar látið hafa sig til að skrifa undir mótmælaplaggið, eingöngu fólk, sem aldrei hefur, að vitað sé, látið sig húsagerðarlist neinu varða. Er þetta frumhlaup gert án minnsta tillits til að þeir höfðu haft nægan tíma til að mótmæla og án þess að hafa nein rök gegn húsinu. Reyndar hefur sú gáfulega mótbára heyrst að Ingólfur Arnarson snúi rassinum í húsið. Hvað má þá segja um Hallgrímskirkju með Leif heppna, sem snýr rassi í guðshúsið?

Það er gjörsamlega ómögulegt að sjá, að lóðin taki sig betur út alla daga fullsetin af bifreiðum en með glæsilegri byggingu. Spurst hefur að hræðsla við að bílaplanið hverfi hafi verið aðal ástæða fyrir uppáskrift margra leikara. Auðvitað eiga bifreiðirnar heima í bílageymslu á móti Þjóðleikhúsinu, sem stendur nánast ónotuð alla daga.

Það mun gefa þessum hluta höfuðborgarinnar aukna reisn að Hús Hæstaréttar Íslands verði á þeim stað, sem ákveðið hefur verið. Húsið mun njóta sín vel frítt standandi, enda verður bilið milli bygginganna svipað breitt og yfir Hverfisgötuna.

Allur sá fjöldi arkitekta, tæknifræðinga og verkfræðinga, sem tók þátt í samkeppninni sannar að þeim hefur litist vel á staðinn. Slíkum sérfræðingum er best treystandi til að geta séð staðsetninguna fyrir sér.

Það er vonandi að þessi skaðlegu öfl, sem hér eru að verki, fái ekki að eyðileggja verk sem tugum milljóna hefur þegar verið kostað til og verða mun til sóma.

Hitt að láta sér koma til hugar að ætla að flytja Hæstarétt í Landsbókasafnið þegar Þjóðarbókhlaðan verður fullgerð er algjör fjarstæða. Landsbókasafnið á að vera tengt bókmenntum þjóðarinnar. Eðlilegast er að Árnastofnun flytji í Landsbókasafnið, en Háskóli Íslands nýti Árnagarð. Slíkum þjóðar gersemum, sem handritin eru, sæmir glæsilegt og virðulegt hús í návist Hæstaréttar Íslands, en ekki það sem nú hýsir Árnastofnun.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður sem í nærri fjóra áratugi hefur látið húsagerðarlist til sín taka á opinberum vettvangi.

Gunnlaugur Þórðarson