Þjóðarátak til eflingar bókasafni Háskólans Kjartan Örn Ólafsson Stúdentar hafa löngum verið dugandi afl í íslensku þjóðlífi. Það þurfa þeir að vera áfram og beita sér fyrir ýmsum þjóðþrifamálum.

Þjóðarátak til eflingar bókasafni Háskólans Kjartan Örn Ólafsson Stúdentar hafa löngum verið dugandi afl í íslensku þjóðlífi. Það þurfa þeir að vera áfram og beita sér fyrir ýmsum þjóðþrifamálum. Eitt brýnustu mála líðandi stundar er stórefling bókasafns æðstu menntastofnunar þjóðarinnar. Ástand Háskólabóksafnsins sæmir á engan hátt þjóð sem vill vera í fremstu röð á sviði vísinda og fræða. Bókakosturinn er skammarlega lélegur, stór hluti safnsins úreltur og endurnýjun allt of lítil. En hvað er til úrbóta?

Tvær flugur í einu höggi

Röskva, samtök félagshyggjufólks í Háskóla Íslands, vill bæta úr þessum knýjandi vanda með þjóðarátaki í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins og flutningi Háskólabókasafns í Þjóðarbókhlöðu á næsta hausti. Leitað yrði til einstaklinga, félaga og fyrirtækja um framlög og stuðning við átakið og óskað eftir því að ríkissjóður veitti skattaafslátt vegna umtalsverðra fjárframlega líkt og nú gildir um framlög til stjórnmálaflokka. Þá yrði farið fram á að ríkissjóður legði fram krónu á móti hverri krónu sem stúdentum tækist að safna. Með slíku átaki slá stúdentar tvær flugur í einu höggi. Annars vegar yrði safnað í sjóð til nauðsynlegra kaupa á fræðibókum og gagnasöfnum á geisladiskum og þannig leystur brýnasti vandi safnsins. Hins vegar yrði vakin athygli á mikilvægi þess að þjóðin eignist öflugt fræðibókasafn og framlög til þess tryggð til frambúðar. Til greina kæmi að nýta hluta þjóðarbókhlöðuskatts til bókakaupa eftir að byggingu bókhlöðunnar er lokið.

Alvarlegur bókaskortur

Árið 1986 samþykkti Háskólaráð og áréttaði 1990 að stefnt skyldi að því marki að árlega yrðu keyptir til Háskólabókasafnsins 6.000 bókatitlar og 2.000 titlar tímarita. Til viðmiðunar má nefna að til háskólans í Óðinsvéum í Danmörku, sem er örlítið fámennari en HÍ, eru keyptir yfir 20.000 bókatitlar á hverju ári. Það er því ljóst að markmið Háskólaráðs er ekki óraunhæft hvað titlafjöldann varðar. En fjárveitingar til safnsins hafa aftur á móti hvergi nærri dugað til þess að hægt væri að standa við þessi markmið. Á síðastliðnu ári voru einungis keyptar um 2.800 bækur til Háskólabókasafnsins. Því vantar mikið á að sett markmið náist og hægt verði að koma í veg fyrir þann alvarlega bókaskort sem stúdentar og kennarar standa frammi fyrir.

Veikasti hlekkurinn

Óumdeilt er að gott bókasafn er forsenda góðs háskóla. Háskólabókasafn verður að geta boðið nýjustu bækur og tímarit í öllum fræðigreinum. Á síðasta ári voru birtar niðurstöður erlendra matsaðila á stöðu verkfræðideildar HÍ miðað við viðurkennda alþjóðlega staðla. Þeir töldu að í flestu tilliti væri deildin sambærileg við það besta sem gerðist meðal erlendra háskóla - en eitt þeirra meginatriða sem á vantaði væri betra bókasafn sem væri í stöðugri endurnýjun. Bágur bókakostur Háskólabókasafnsins reynist enn alvarlegri nú þegar kennsla hefur verið skert í ýmsum deildum skólans og sjálfsnám stúdenta aukið í kjölfar niðurskurðar fjárveitinga til háskólans. Erfitt er að ímynda sér hvernig sjálfsnám á að fara fram ef nauðsynlegar bækur eru ekki tiltækar.

Ný Íslendingabók

Á þriðja tug þessarar aldar gengust háskólastúdentar fyrir landssöfnun til byggingar stúdentagarða. Siglt var á strandferðaskipi kringum landið og landsmönnum gefinn kostur á að skrifa sig fyrir framlögum í þar til gerða bók, sem nefnd var Íslendingabók.

Stúdentar þurfa nú á ný að taka frumkvæði í mikilvægu máli er snertir bókaþjóðina alla: Eflingu bókasafns Háskóla Íslands. Ný Íslendingabók gæti orðið tákn þess þjóðarátaks.

Höfundur skipar 7. sæti á lista Röskvu í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Kjartan Örn

Ólafsson