Rússar vilja að NATO falli frá hótun sinni um loftárásir í Bosníu Ætla að koma á friði á öðrum "griðasvæðum" NATO fagnar friðarumleitunum Rússa en stendur við hótunina Moskvu, Brussel. Reuter, The Daily Telegraph.

Rússar vilja að NATO falli frá hótun sinni um loftárásir í Bosníu Ætla að koma á friði á öðrum "griðasvæðum"

NATO fagnar friðarumleitunum Rússa en stendur við hótunina

Moskvu, Brussel. Reuter, The Daily Telegraph.

RADOVAN Karadzic, leiðtogi Bosníu-Serba, sagði í gær að umsátursliðið í grennd við Sarajevo myndi flytja öll þungavopn sín að minnsta kosti 20 km frá borginni eða selja þau í hendur friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna ekki síðar en í kvöld, laugardag. Frestur sá sem Atlantshafsbandalagið (NATO) gaf Serbum til að flytja vopnin þaðan rennur út á miðnætti annað kvöld. Embættismenn NATO sögðu í gær að gerðar yrðu loftárásir á Serba ef þeir flyttu ekki öll vopnin á brott en þeir fögnuðu friðarumleitunum Rússa, sem fengu Serba til að verða við kröfum bandalagsins. Rússar krefjast nú þess að fallið verði frá hótuninni um loftárásir og Andrej Kozyrev, utanríkisráðherra Rússlands, sagði að friðarumleitanir Rússa einskorðuðust ekki við Sarajevo heldur vildu þeir einnig koma á friði á öðrum "griðasvæðum" sem Sameinuðu þjóðirnar hafa markað víðs vegar um Bosníu. Hart hefur verið barist á þessum svæðum ekki síður en í Sarajevo.

Kozyrev sagði að rússneskir hermenn yrðu sendir til friðargæslustarfa í Sarajevo og að efnt yrði til fjölþjóðlegs fundar um stríðið í Bosníu í næstu viku. Hann kvaðst hafa rætt málið við utanríkisráðherra Evrópusambandsríkja og Bandaríkjanna og sagði að á fundinn kæmu "háttsettir embættismenn eða utanríkisráðherrar eða jafnvel leiðtogar ríkjanna". Hann sagði að rússneska stjórnin hygðist taka þátt í frekari friðarumleitunum í Bosníu, hún hefði ekki skorist í leikinn til þess eingöngu að afstýra loftárásum Atlantshafsbandalagsins.

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna staðfestu að Serbar hefðu haldið áfram brottflutningi þungavopna í gær en vildu ekki tjá sig um fjölda vopnanna. Serbar hófu stórfellda liðsflutninga frá Sarajevo á fimmtudag eftir að Vítalíj Tsjúrkín, sérlegur sendimaður rússnesku stjórnarinnar, hafði lofað þeim að sendir yrðu rússneskir hermenn til friðargæslu í grennd við Sarajevo ef þeir féllust á skilmála NATO. Tsjúrkín réð NATO frá því að standa við hótun sína um loftárásir og sagði að slík hernaðaríhlutun myndi leiða til "allsherjarstríðs".

Embættismenn NATO fóru lofsamlegum orðum um framtak Rússa en sögðu hins vegar að ekki yrði fallið frá hótuninni fyrr en sannað þætti að Serbar yrðu við skilmálunum.

Bosníustjórn óánægð

Nokkrir bosnískir embættismenn gagnrýndu áformin um að senda rússneska hermenn til Sarajevo og sögðu að þeir gætu ekki talist hlutlausir í stríðinu þar sem Rússar hafa lengi verið bandamenn Serba. Yasushi Akashi, yfirmaður friðargæsluliðsins í Bosníu, kvaðst hins vegar hafa fullvissað Alija Izetbegovic, forseta Bosníu, um að friðargæsluliðið yrði áfram hlutlaust.

Sjá forystugrein á miðopnu.

Reuter

Líkur á friði í Sarajevo

BÖRN í Sarajevo hanga aftan í bifreið friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna. Íbúar Sarajevo geta nú andað léttar þar sem auknar líkur eru á að blóðsúthellingunum þar linni eftir að Rússar fengu Serba til að flytja stórskotavopn sín að minnsta kosti 20 km frá borginni.